Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Við erum upptekin

Við Tumi erum ekki að fylgjast með Júróvision, við erum upptekin. Hann er svo fælinn gagnvart höndum - ég get rétt honum góðgæti með fingrunum sem hann þiggur en þegar ég setti fræ í opinn lófann þá þorir hann ekki. Hann vappar fram og tilbaka, en þorir ekki að nálgast fræin. Ég setti þá fræin í lítið plasthylki til að sjá hvað hann gerði, hann tók hylkið, klifraði með það í gogginum upp á leikgrindina og tróð hausnum í hylkið til að ná í sólblómafræin. En þetta gengur út á að byggja upp traust, og það tekur tíma. Nú er hann kominn aftur á búrið og er að leita leiða til að nálgast bananabita sem hangir í búrinu í þar til gerðri græju. Hann reynir allar aðferðir, togar í en missir svo takið - klifrar þá inn í búrið en nær ekki alveg...  Skemmtilegt að fylgjast með, endalaust að leita leiða til að leysa vandamálin.

En það þýðir ekkert að bjóða honum þetta fína fuglabað, hann tekur sig til og baðar sig upp úr drykkjarvatninu og eys vatni um allt gólf.

Nú er hann farinn að segja; Tumi góður strákur.  

 


Eftirherma eða greind

Ja hérna - nú er ég hissa. Er að horfa á Tuma dýfa hörðu kexi í vatn til að bleyta það áður en hann étur það. Í gær gaf ég honum soðin hrísgrjón sem voru greinilega vel þegin, í morgun voru þau orðin þurr og hann fór með þau í vatnsskálina til að bleyta þau. Er að velta því fyrir mér hvar hann lærði þetta eða hvort hann fann upp á þessu sjálfur. Ég geri það stundum að bleyta smá bita af eldhúsrúllupappír og hann sýgur vatnið úr pappírnum, kannski þróaðist hugmyndin upp úr því. Er hann svona frumlegur eða er hann að herma eftir? Hann er alla vega óskaplega uppátækjasamur og snöggur. Hann er strax búinn að átta sig á að ég vil ekki að hann pilli takkana af lyklaborðinu, nú er það mest spennandi hjá honum að komast að lyklaborðinu.

Hvað svo?

Ég átti leið um Austurstrætið um þrjúleitið í gærdag. Þar var ekki margt um manninn, nema nokkrir karlar í annarlegu ástandi eins og það heitir þegar ekki er vitað hvað þeir hafa sett ofan í sig. Hróp og köll, ógnandi hegðun, túristar jafnt og heimamenn viku úr vegi fyrir þeim og færðu sig til, sem sagt voru á flótta undan betli og óútreiknanlegri hegðun þessara manna. Gott og vel þeir eru haldnir sjúkleika sem orsakar þessa hegðun, en hvað svo? Er ásættanlegt að miðbærinn sé sjúkradeild þessa fólks? Það er sama hversu mikla samúð ég hef gagnvart þeim sem eru á valdi neyslunnar, ég forðast miðbæinn orðið. Fædd og uppalin í borginni, nú sakna þess að rölta um miðbæinn, skoða í búðarglugga - því að allar áhugaverðar búðir eru horfnar. Já - ég sakna miðbæjarins.    

Sending frá Póstinum

Pósturinn sendi mér í dag lítinn rauðan miða til að líma á póstkassann - Engan frípóst, takk. Miðinn gæti ekki verið minni án þess að vera ólæsilegur. Nú er að sjá hvort póstberinn taki mark á honum. Síðast í dag kom miði í póstkassann frá sértrúarhópi sem vill bjóða mér hraðferð í himnaríki ef ég geri eins og þeir ráðleggja mér. Þar sem það er afar ólíklegt þá verður spennandi að vita hvar ég enda uppi. Það kemur nú líka í ljós hvort þessir einkavinir Guðs taka mark á svona rauðum miða.  

Rollurnar

Þetta var þá listaverk, þessar rollur sem voru límdar upp um allan bæ. Mér létti við að sjá það, hafði séð skrifað að þetta væri rasistaáróður og var farin að hafa áhyggjur af því að vera svo mikill sauður að skilja það ekki. Hélt að þetta væri auglýsing frá svissneskum banka um eitthvað á þýsku. Fór að hugsa, já -  svarti sauðurinn sem er blóraböggull í hruni bankans og er kastað út ..... og eitthvað, eitthvað. Upphlaupið sýnir hvað þessi umræða er eldfim þessa dagana.

Rútína er góð

Það eru að verða til rútínur á þessu heimili sem gerir allt miklu þægilegra. Þegar ég sé fram á að hafa tíma til þá loka ég Flosa inni í herbergi og opna fyrir Tuma. Flosi sefur hvort eð er í um 22 tíma á sólarhring og veit oftast ekkert af því að hurðin er lokuð. Tum er farinn að sýna spenning fyrir að fara í leikgrindina og það verður sífellt viðráðanlega að koma honum til og frá búrinu. Ég hef verið að lesa mér til og öllum spesíalistum kemur saman um að þessir fuglar verða sífellt að finna að þeir ráða ekki ríkjum. Ef þeir fá tækifæri til þá taka þeir völdin. Þeir ráðleggja að venja fuglana á að þeir séu ekki að ráfa um lausir heldur séu annað hvort á eða í búrinum eða öðrum ákveðnum stöðum. Minn er ósáttur við að vera sóttur og sendur en því ætla ég að ráða.Nú er hann farinn að hlægja eins og ég. Tók eftir því í gær og hló enn meira. Talið er ekki mjög skýrt ennþá en ég tel mig heyra ýmis orð sem ég hef verið að endurtaka við hann eins og; góðan daginn Tumi - kútur, kútur, kútur, (ég kalla hann það). Hann skellir í góm og flautar og segir ha í spurnartón.Um níuleitið á kvöldin tekur hann oft syrpu af frumskógahljóðum og hleypur um í búrinu - þetta virðist vera undirbúningur fyrir svefninn því að hann er kominn með hausinn undir væng um tíuleitið. Hann er kvöldsvæfur og eftir að ég breiði yfir búrið heyrist ekki í honum allar nætur. Á morgnana er voða sætt að heyra litla rödd berast undan ábreiðunni ; halló Tumi, halló.

Þróun

100_0323Við Tumi erum að styrkja tengslin dag frá degi - hann er voða ánægður með nýju leikgrindina og gaman að fylgjast með því hvernig hann kannar nýtt umhverfi varlega en eykst síðan áræðnin. Nú er hann farinn að sýna áhuga á lyklaborðinu - veit ekki hversu góð hugmynd það er.

(Svei mér þá, hann pósar fyrir myndavélina. Þegar ég munda vélina þá hættir hann að bauka og setur sig í stellingar.) 


Fiðraðir persónuleikar

Úr hverju eru páfagaukar eiginlega gerðir? Tumi er laufléttur, hann er bókstaflega gerður úr fiðri og loftfylltum beinum. Goggurinn er sennilega þyngsti parturinn, heilinn er áreiðanlega ekki stærri en baun. En persónuleikinn er ekki í neinu samræmi við efniviðinn. Eins var þetta með Nílló þótt hann væri nú töluvert stærri en Tumi. Persónurnar í þessum fiðruðu búningum eru svo miklu stærri og áhrifameiri en efni standa til. Þetta eru hugleiðingar mínar eftir að fá hér fuglasérfræðing inn á heimilið til að vængstýfa Tuma, sverfa gogg og klær og kenna mér réttu handtökin til að þjálfa hann í að koma á fingur. Litla skinnið var móður og másandi eftir átökin, hann var handsamaður í handklæði til að verjast biti (sem gerði ekkert fyrir sjálfsvirðinguna) en það tókst ekki fullkomlega, það blæddi  úr sérfræðingnum eftir verkið. Tumi var í svo miklu flaustri eftir meðferðina að hann var kominn á fingurinn á mér áður en hann vissi af og þá var of seint að beita gogginum. Hann bítur ekki til að bíta, bara til að reyna að stjórna atburðarásinni, lái honum hver sem vill. Svo mátti hann hafa sig allan við að halda sér í fingurinn og bregðast við þegar honum var gert að fara strax yfir á hinn fingurinn, aftur og aftur. Hann var fljótur að fara inn í búrið sitt eftir þessar hremmingar, allur úfinn, og það heyrðist ekki í honum meira þann daginn. En hann jafnaði sig fljótt og við erum nú að æfa okkur í þessu með fingurna. Eftir þessa meðferð var ég með svo mikið samviskubit að ég fór og keypti dýrt dót handa honum, leikgrind sem ég er að setja saman. Dæmigert að kaupa sig frá sektarkenndinni.   

Gaukssaga

Það var stór páfagaukur á æskuheimili mínu, African grey sem hét Nílló. Hann var orðinn einhverra tuga ára þegar hann kom til okkar en þessi gaukar verða allt að 70 til 80 ára við bestu skilyrði. Hann var fluttur til landsins frá Evrópu af afabróður okkar krakkanna og þegar hann féll frá þurfti að finna gauknum nýtt heimili. Ekki var mikil þekking til um hvaða fæði og aðbúnaður væri bestur fyrir svona fugla og Nílló fékk að éta mestallt sem hann hafði lyst á. Honum fannst góður kaffisopinn og tók eiginlega við öllu sem að honum var rétt. Hann talaði og flautaði og vaskaði upp, hann mjálmaði þegar við áttum kött (sem olli kettinum nokkrum heilabrotum). Hann bauð gestum "viltu kaffi?" eða "viltu kók?". Hann kallaði "síminn!" í tíma og ótíma sem plataði oft heimilisfólkið til að taka upp tólið. "Er Mogginn kominn?" hljómaði daglangt. Hann spurði um börnin á heimilinu með nafni. En hann þýddist engan nema heimilisföðurinn sem hann dáði. Hann beit alla aðra af sér. Sérstakleg var hann í stríði við húsmóðurina, sem sat uppi með alla umhirðuna um hann. Það er sóðalegt að vera með páfagauk, kostar mikil og stöðug þrif. Það varð sértakt samband á milli þeirra. Hún skammaðist í honum og hann reyndi að bíta hana við öll tækifæri. Þegar Nílló fékk að vera laus lá allt heimilið undir skemmdum, hann nagaði allt sem hann náði í, húsgögnin urðu með árunum tætt og rifin, hann spændi upp stólfætur og hillur. Ég á enn húsgögn sem bera ummerkin um hann. En óskaplega eru þessar minningar skemmtilegar. Og nú er ég að endurupplifa þetta með minn litla græna gauk, en ég er ákveðin í að ala hann betur upp og hann fær ekki aðgang að húsgögnum hér.   


Result!

Á afgreiðslu Póstsins varð ég óvart áheyrandi að fyrirspurn annars viðskiptavinar sem var að spyrjast fyrir um miða á póstkassa til að afþakka fjölpóst. Þar heyrði ég að það mætti hafa formlegt samband við Póstinn og fara fram á gulu miðana sem voru einu sinni til. Nú, þetta gerði ég áðan - sendi fyrirspurn og fékk svar þar sem ég var beðin um allar upplýsingar um mig, kennitölu og allt. Fékk skjót viðbrögð frá þjónustufulltrúa Póstsins þar sem segir að þessir miðar verði til í lok maí og að ég fái minn sendann í pósti! Nú þarf ég bara að leysa hvað ég ætla að setja í botninn á fuglabúrinu. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband