Gaukssaga

Það var stór páfagaukur á æskuheimili mínu, African grey sem hét Nílló. Hann var orðinn einhverra tuga ára þegar hann kom til okkar en þessi gaukar verða allt að 70 til 80 ára við bestu skilyrði. Hann var fluttur til landsins frá Evrópu af afabróður okkar krakkanna og þegar hann féll frá þurfti að finna gauknum nýtt heimili. Ekki var mikil þekking til um hvaða fæði og aðbúnaður væri bestur fyrir svona fugla og Nílló fékk að éta mestallt sem hann hafði lyst á. Honum fannst góður kaffisopinn og tók eiginlega við öllu sem að honum var rétt. Hann talaði og flautaði og vaskaði upp, hann mjálmaði þegar við áttum kött (sem olli kettinum nokkrum heilabrotum). Hann bauð gestum "viltu kaffi?" eða "viltu kók?". Hann kallaði "síminn!" í tíma og ótíma sem plataði oft heimilisfólkið til að taka upp tólið. "Er Mogginn kominn?" hljómaði daglangt. Hann spurði um börnin á heimilinu með nafni. En hann þýddist engan nema heimilisföðurinn sem hann dáði. Hann beit alla aðra af sér. Sérstakleg var hann í stríði við húsmóðurina, sem sat uppi með alla umhirðuna um hann. Það er sóðalegt að vera með páfagauk, kostar mikil og stöðug þrif. Það varð sértakt samband á milli þeirra. Hún skammaðist í honum og hann reyndi að bíta hana við öll tækifæri. Þegar Nílló fékk að vera laus lá allt heimilið undir skemmdum, hann nagaði allt sem hann náði í, húsgögnin urðu með árunum tætt og rifin, hann spændi upp stólfætur og hillur. Ég á enn húsgögn sem bera ummerkin um hann. En óskaplega eru þessar minningar skemmtilegar. Og nú er ég að endurupplifa þetta með minn litla græna gauk, en ég er ákveðin í að ala hann betur upp og hann fær ekki aðgang að húsgögnum hér.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband