Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Málið snýst um valdníðslu

Gott að Æskulýðurinn í Þjóðkirkjunni ætlar að standa í lappirnar í þessu máli. Enda snertir það þeirra fólk - unga fólkið sem á að vera frjálst undan þess konar "athygli" sem presturinn valdi að sýna ungum stúlkum í sókninni. Dómararnir í málinu virðast vera firrtir - langt í burtu frá því að skilja hvers eðlis kynferðisleg áreytni er þegar valdamikill maður eins og prestur kýs að misnota vald sitt gagnvart börnum. Ef ég man rétt kom fram að hegðun prests hafi komið til vegna þess að hann þurfti á því að halda að faðma börnin og kyssa, í einrúmi. HANN þurfti á því að halda, einmitt.
mbl.is Séra Gunnar taki ekki við starfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að verki

Sönn saga um Herðubreiðalindir - geimfara - eiginhandaráritanir -  verndarsvæði Navaho indíána í Arizona - óvænta pennavinkonu - og annað sem virðist vera algjörlega ótengt í tíma og rúmi. 

Foreldrar mínir voru á undan sinni samtíð að sumu leiti. Á sjötta áratugnum voru þau í félagsskap sem ferðaðist um hálendið í harðsnúnum fjallarútum í fylgd leiðsögumanna og rútubílstjóra eins og Guðmundar Jónassonar.

Í júní árið1965 var farið í Herðubreiðalindir og Öskju. Ég var 12 ára og var fremur treg í taumi. Satt að segja hefði ég heldur viljað vera heima til að missa ekki af félagsskap vinkvenna sem voru afskaplega mikilvægar á þessum aldri. En það var tómt mál að tala um það, allir urðu að fara með í ferðina.

Minnið er ekki mjög skýrt úr þessari ferð og áhugi minn á ferðafélögum var enginn, ég man til dæmis ekki hvort það voru aðrir krakkar með í för fyrir utan okkur systkinin, en ég man eftir því að það var áð í Herðubreiðalindum til að borða nesti. Man líka eftir að borða þá harðsoðin egg sem ég kastaði upp og hef átt erfitt með að borða egg síðan.
En þá rann í hlaðið önnur fjallarúta full af útlendingum. Kom í ljós að þetta var hópur af bandarískum tunglförum í þjálfun fyrir Apollo geimferðirnar. Þeir fóru víða um heim á hrjóstuga staði til að sinna jarðfræði og undirbúa sig undir að taka jarðsýni á tunglinu.
Þetta voru William Anders, Charles Bassett, Eugene Cernan, Roger Chaffee, Walt Cunningham, Don Eisele, Rusty Schweikart, Dave Scott, and C.C. Williams.
Við systkinin urðum heilluð af þessum framandi útlendingum og eltum þá á röndum. Einhvern veginn fékk ég þá hugmynd að biðja einn þeirra um eiginhandaráritun, eða kannski stakk faðir minn upp á því, alla vega tóku þeir því ljúfmannlega og safnaðist á lítinn minnismiða undirskriftir níu tilvonandi geimfara. Bróðir minn sem var 9 ára fékk að gjöf frá þeim drykkjarílát sem hann áleit vera mikinn dýrgrip í mörg ár.

Eftir að heim var komið var þessi litli miði að velkjast í fórum mínum - hann var tekinn fram og sýndur við ýmis tækifæri - eins og þegar einhverjir af þessum geimförum komust í fréttir. Tveimur árum seinna birtust fréttir af því að Charlie Bassett, sá sem var elskulegastur við okkur krakkana, hafi farist í flugslysi. Fleiri fórust í slysum enda var undirbúningur undir geimferðir hættulegur bransi. En nokkrir þeirra komust til tunglsins.

En árin liðu og minningarnar dofnuðu. Miðinn góði gleymdist. Af og til körpuðum við bróðir minn um hann, ég sakaði hann um að hafa tekið hann traustataki.

Víkur nú sögunni til ársins 2009. Ég komst í bréfasamband við konu nokkra í Bandaríkjunum í gegnum sameiginleg áhugamál. Hún býr á verndarsvæði Navaho indíána  nálægt Flagstaff, Arizona. Hún er barnakennari þar.
Á sama tíma vorum við mægurnar að velta fyrir okkur hvert við ættum að ferðast í tilefni afmæla okkar beggja í apríl. Suðurríkin eða vesturríki bandaríkjanna voru efst á lista. Þessar vangaveltur fóru inn í bréfaskriftirnar til Flagstaff. Þegar ég fór að fletta upp Flagstaff á netinu rakst ég á það að þangað höfðu geimfararnir líka farið í sama tilgangi og á svipuðu tímabili. Þetta var skemmtileg tilviljun fannst mér. Við ákváðum að ferðast til Arizona og heimsækja pennavinkonuna sem bauð okkur eina nótt á hóteli sem Navaho fólkið rekur. Einnig bauð hún okkur að heimsækja verndarsvæðið. Við settum Las Vegas inn á áætlunina sem mótvægi.

Þetta varð til þess að minningar um eiginhandaráritarnar fóru að ásækja mig. Þær hlytu að vera einhversstaðar. Bróðir minn sór og sárt við lagði að hann væri ekki með þær hjá sér. Einn daginn opnaði ég gamla úrklippu bók sem ég hef átt í fjörutíu ár, var þá að leita að gömlum myndum af föður mínum, þá blasti við mér gulnaður pappír með áritunum 9 geimfara. Þegar ég sagði vinum og fjölskyldu frá þessum skemmtilegu tilviljunum komu fram hugmyndir um að sennilega væri peningur í þessu. Vinkona mín í Arizona sagðist vera viss um að pappírinn gæti borgað ferðina. Það væri áreiðanlega til safnarar sem væru til í að borga háa upphæð fyrir svona safngrip.

Ég gerði könnun með því að senda tölvupóst á nokkra aðila sem ég fann á netinu og fékk viðbrögð við þeim. Til að gera langa sögu stutta tók ég tilboði manns nokkurs á Bretlandi sem bauð hæst og viti menn, upphæðin var svo gott sem nákvæmlega sú sem mig vantaði til að fara til Arizona í apríl.

Eftir stendur að fyrir nær fimmtíu árum síðan var lagður grunnurinn að þessari ævintýraferð. Hvaða öfl eru það sem sjá svona langt fram í tímann og leika sér svona með ólíklegar tengingar og fólk. Sjálf tel ég það vera innri öfl undirvitundarinnar sem eru sífellt að og sem starfa ósýnilega að mestu í lífi okkar allra. Örsjaldan sést glitta í þau eins og í þessu dæmi. Og þegar það gerist þá er sérlega gaman að vera til.

Mynd af miðanum í myndaalbúmi


Alvara lífsins

Þá er Spaugstofan komin í sumarfrí. Þeir hafa verið óvenju hvassir í vetur enda tilefnin næg. Mér finnst þeim oft rata óhugnanlega satt á munn. Eftir að lesa ummæli um ræðu DO á landsfundinum í dag sýnist mér hann sífellt líkjast meira fígúrunni sem Spaugstofan bjó til um hann - með vélsögina á lofti.

Annars eru ummæli Evu Jolie í dag til þess fallin að staldra við. Hún virðist vera nokkuð viss um að glæpir hafi verið framdir - ekki bara afglöp. Og það er von á fangelsisdómum. 

Síðan er mér hugsað til allra þeirra þúsunda sem ganga nú um götur í London og víðar og segja - Við ætlum ekki að borga fyrir glæpina sem voru framdir á okkur.  


Feður og synir

Nú er verið að hvetja mig til að kjósa í stjórn VR. Þegar ég fór inn á vefinn þar kemur í ljós að 3 karlar eru í boði til formanns og 7 karlar í stjórnina. Ekki konu að sjá neins staðar. Eftir yfirferðina um lífeyrissjóðina hjá gestinum í Silfri Egils í morgun þá er ég hrædd um að það verði lítið eftir í sjóðnum þegar ég þarf á honum að halda. Búin að greiða í sjóðinn í öll þessi ár. Hef ekki lyst á að kjósa.

Þetta er eins og í kirkjunni. Faðir og sonur eru heilagir. Ekki finn ég mig í þeirri stofnun heldur.

Alla vega stærri rullu en kirkjan

Það sem er ekkifréttin í dag, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars, er að konur þurfi yfir höfuð að berjast fyrir jafnrétti og réttlæti. Þessi fáráðlega frétt frá Vatíkaninu endurspeglar hversu vel prestarnir eru kunnugir þvottavélum og "frelsun kvenna". Þessi stétt karla sem berst hvað hatrammlegast gegn mannréttindum kvenna gæti byrjað á því að læra á heimilitæki eins og þvottavélar, nú eða að læra að elda ofan í sig. Í gegnum tíðina hafa konur nefnilega haldið þeim hreinum og söddum.
mbl.is Þvottavélin frelsaði konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefa eina krónu en stela 10.

Eva Joly varpaði enn nýju ljósi á hversu barnalega hefur verið staðið að málum hér. Sjálfri er mér ofboðið ef einhverjir af billjónamæringunum íslensku hafa verið svo kaldlyndir og siðblindir að féfletta þjóð sína. Eva lýsti hversu langt menn eru tilbúnir að ganga til að verja sitt illa fengna fé, með morðhótunum og aftökum. Og lýsing hennar á því hvernig fjölþjóðafyrirtækin fara að því að mergsjúga ríki í Afríku með aðstoð skattaparadísa veldur ógleði. Gefa einn dollar í hjálparstarf en stela síðan 10 dollurum með því að flytja hráefni í burt með aðstoð bankastofnana víða um heim. Má geta sér til að Bónus hafi gert eitthvað svipað hér? Stofna lágvöruverslun fyrir pöpulinn og flytja síðan allt fé úr landinu á meðan eftirlitsmenn sváfu á vaktinni, eða versluðu í Bónus. 

 


mbl.is Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggunin má ekki takast

Hér er löng grein um nektardansstaði á Englandi. Þar er karpað um tilveru þeirra eins og hér. Þar vilja konur sem dansa naktar ekki koma fram undir nafni - ekki eins og hér þegar ung hughraust kona sagði sögu sína í Vikunni og ungar hughraustar konur tóku viðtalið við hana. En karlaveldið sá til þess að þær eru þaggaðar niður  - enda eru miklir hagsmunir í húfi með þessum síðustu vígjum patríarkísins. Í greininni er því einnig lýst hvernig áhrif svona staðir hafa á konur sem ekki sækja þá - þær hrekjast í burt úr þeim bæjarhlutum því að þeir ógna öryggi þeirra. Og það er stutt í ógnun og ofbeldi gagnvart þeim sem berjast gegn þeim.

Þetta segir "Lucy" í greininni. 

"You probably also lie to your family, and your boyfriend, and it affects your relationships. If I had a pretty low opinion of men before I became a lap dancer, it only got worse afterwards. Because you see the worst of men in there." 

http://www.guardian.co.uk/lifeandstyle/2009/mar/08/sex-industry-lap-dancing  


Já - kaþólskan...

9 ára gömlu stúlkubarni var nauðgað í Brasilíu með þeim afleiðingum að hún gekk með tvíbura. Móðir hennar og læknir, sem sáu til þess að barnið fór í fóstureyðingu, eru bannfærð fyrir vikið. Og Vatikanið í Róm styður prestinn sem útskúfar þau úr kaþólsku kirkjunni. Eina ástæðan fyrir því að barnið er ekki líka bannfært er að hún er of ung.  

Það er ekki auðvelt að ákveða hvar á að byrja - manni verður orðavant. Hvergi í þessum kaþólska heimi fullorðinna karla örlar á því að stúlkan skipti einhverju máli. Ekki að undra að þessi sama kirkja hefur í áratugi sætt ásökunum um að prestar innan hennar misnoti börn - það virðist ekki vera neinn skilningur á velferð barna - hvað þá kvenna.

Enda hvernig ætti það að vera? Karlar sem hafa frá unga aldri lifað í einangruðum heimi kirkjunnar, ekki átt heilbrigð samskipti við konur síðan þeir fóru að heiman frá mömmu, gufa síðan upp innan í prestaskólum og guðsbókum - og fá stöðugt sannanir fyrir því að konur séu ekki guði þóknanlegar, því annars væru konur líka prestar- væntanlega. En Lula forseti brást rétt við.  

http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/7930380.stm 


Nöturlegt

Ekki þægileg lesning. Þótt að Vanity Fair sé stundum kallað slúðurblað er ekki ástæða til að kasta greininni frá sér eins og væri þægilegra að gera.

Nöturleg lýsing á landanum - og viðbótar afhjúpun á hrokafullri afstöðu útrásarsinna. Enginn kemur vel út úr þessu nema ef vera skyldi konur Íslands og spurning sem er efst í huga núna; hvers vegna að búa á þessu landi áfram?

http://www.vanityfair.com/politics/features/2009/04/iceland200904?currentPage=1


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband