Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Fuglalíf

Það skemmtilegsta sem Tumi veit er að tæta eitthvað niður. Mitt hlutverk er að finna eitthvað nýtt fyrir hann að spreyta sig á. Nú er í uppáhaldi hjá honum að ráða niðurlögum Nicorett tyggjó-umbúða. Af mikilli vandvirkni fjarlægir hann allan álpappír fyrst í smáögnum - síðan gatar hann plastið allt - öll 15 hólfin. Loks bitar hann það sem eftir er niður í örður. Einbeitingin er algjör. Stundum missir hann umbúðirnar úr klónum og þarf að sækja það - sem er vandasamt því að það er flókið að halda á því í gogginum og klifra upp í grindina án þess að stíga í það. Ég er oft í hláturskasti við að fylgjast með aðförunum. Hér er hann reyndar að naga eplabita í kvöldsólinni.

Tumi í kvöldsólinni

 


PTSD?

 

Tumi 3

Er nú eiginlega í sjokki ennþá. Vegna kæruleysis míns var kötturinn nærri búinn að stúta fuglinum í gær. Tumi tókst á loft og flaug um stofuna - ég hafði ekki athugað að kötturinn var á staðnum. Hann náði að grípa fuglinn á fluginu augnablik - en fuglinum tókst að losna, sennilega hefur kettinum brugðið við ofsafengin viðbrögð mín. Nú upphófst æðislegur eltingleikur sem barst í eldhúsið - þaðan í stofuna, kötturinn var töluvert sneggri en ég og í hita leiksins gerði ég mistök. Í stað þess að fanga köttinn og koma honum á öruggan stað þá eltum við Flosi bæði fuglinn. Nú - fuglinn brotlenti í stórri plöntu og ég náði að fanga hann og troða honum inn í búrið. Síðan beið ég eftir viðbrögðum hans í allt gærkvöld - hvort hann fengi post traumatic stress einkenni eftir lífsháskann, eða dytti niður dauður af hjartaáfalli. En nei nei - hann hristi þetta af sér en ég er hins vegar enn sífellt að athuga með hann og Flosi er bara niðri í herbergi, hann verður þar með stuttum frímínútum til að fara út og fá sér að éta.     


Miðbærinn

Mér skilst að dómsmálaráðherra vilji Héraðsdóm af Torginu. Alveg er ég sammála því. Það er þungi og skuggi yfir þessu húsi sem gæti skýrst af starfseminni sem þar fer fram - og á ekki heima í miðbænum - ekki frekar en mér fyndist frystihús eiga heima í miðbænum. Vona bara að einhver bankinn setjist ekki að í húsinu. Í leiðinni má flytja starfsemi hegningarhússins á Skólavörðustíg annað - það hlýtur að vera viðbótar hegning að verða sífellt var við lífið fyrir utan fangelsisveggina. Nú er bleika húsið við Torgið orðið svart - ég hélt að þetta ljóta hús ætti að hverfa í nýju skipulagi en er nú hætt að reyna að fylgjast með breytingunum á skipulagi miðbæjarins.  

Pissa í vatnið

Þar sem ég maraði í hálfu kafi í Lóninu í vikunni varð ég vitni að þessum samskiptum tveggja ca. fimm ára gutta.

"Ég þarf að pissa"

"ég pissa bara í vatnið"

þögn

"máttu það?"

"nei - það má bara allsherjar vita það"

Lækningalindin

 


Rólegheitahelgi

Á þessari rólegheita helgi þegar mér líður dáldið eins og Palla er kjörið að setja inn gjörsamlega tilefnislaust efni á bloggið. Við Tumi sitjum hér í bróðurlegri þögn - hann er að maula kex á milli þess að hann finnur dót til að tæta, nú er hann að störfum við sjónvarpsdagskrána - og ég að taka myndir. Hér er sem sagt krúttlegasta brauðrist sem ég hef séð - fann hana í París um daginn. Líka tvær smámyndir sem ég keypti af listakonunni við bakka Signu. 

Það munaði mjóu í gær. Tumi var laus og ég var með gest, kötturinn svaf í sófanum. Tumi á að vera vængstýfður en hann getur flogið samt - af eintómum viljastyrk og þvermóðsku held ég. Hann tók sem sagt flugið og ég hef aldrei séð minn aldraða kött bregðast eins fljótt við. Um leið og Tumi tókst á loft stökk Flosi upp glaðvaknaður og ég á eftir. Náði að góma köttinn rétt áður en hann komst að Tuma, reif hann upp og setti hann út á svalir. Allt í einu vetfangi. Gómaði síðan fuglinn og kom honum í búrið áður en Flosa var hleypt inn, hann varð fyrir sárum vonbrigðum að missa af bráðinni. Þetta kennir mér að sofna ekki á verðinum.  

 

DSCF0041DSCF0042

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband