Færsluflokkur: Bloggar

Rútína er góð

Það eru að verða til rútínur á þessu heimili sem gerir allt miklu þægilegra. Þegar ég sé fram á að hafa tíma til þá loka ég Flosa inni í herbergi og opna fyrir Tuma. Flosi sefur hvort eð er í um 22 tíma á sólarhring og veit oftast ekkert af því að hurðin er lokuð. Tum er farinn að sýna spenning fyrir að fara í leikgrindina og það verður sífellt viðráðanlega að koma honum til og frá búrinu. Ég hef verið að lesa mér til og öllum spesíalistum kemur saman um að þessir fuglar verða sífellt að finna að þeir ráða ekki ríkjum. Ef þeir fá tækifæri til þá taka þeir völdin. Þeir ráðleggja að venja fuglana á að þeir séu ekki að ráfa um lausir heldur séu annað hvort á eða í búrinum eða öðrum ákveðnum stöðum. Minn er ósáttur við að vera sóttur og sendur en því ætla ég að ráða.Nú er hann farinn að hlægja eins og ég. Tók eftir því í gær og hló enn meira. Talið er ekki mjög skýrt ennþá en ég tel mig heyra ýmis orð sem ég hef verið að endurtaka við hann eins og; góðan daginn Tumi - kútur, kútur, kútur, (ég kalla hann það). Hann skellir í góm og flautar og segir ha í spurnartón.Um níuleitið á kvöldin tekur hann oft syrpu af frumskógahljóðum og hleypur um í búrinu - þetta virðist vera undirbúningur fyrir svefninn því að hann er kominn með hausinn undir væng um tíuleitið. Hann er kvöldsvæfur og eftir að ég breiði yfir búrið heyrist ekki í honum allar nætur. Á morgnana er voða sætt að heyra litla rödd berast undan ábreiðunni ; halló Tumi, halló.

Þróun

100_0323Við Tumi erum að styrkja tengslin dag frá degi - hann er voða ánægður með nýju leikgrindina og gaman að fylgjast með því hvernig hann kannar nýtt umhverfi varlega en eykst síðan áræðnin. Nú er hann farinn að sýna áhuga á lyklaborðinu - veit ekki hversu góð hugmynd það er.

(Svei mér þá, hann pósar fyrir myndavélina. Þegar ég munda vélina þá hættir hann að bauka og setur sig í stellingar.) 


Fiðraðir persónuleikar

Úr hverju eru páfagaukar eiginlega gerðir? Tumi er laufléttur, hann er bókstaflega gerður úr fiðri og loftfylltum beinum. Goggurinn er sennilega þyngsti parturinn, heilinn er áreiðanlega ekki stærri en baun. En persónuleikinn er ekki í neinu samræmi við efniviðinn. Eins var þetta með Nílló þótt hann væri nú töluvert stærri en Tumi. Persónurnar í þessum fiðruðu búningum eru svo miklu stærri og áhrifameiri en efni standa til. Þetta eru hugleiðingar mínar eftir að fá hér fuglasérfræðing inn á heimilið til að vængstýfa Tuma, sverfa gogg og klær og kenna mér réttu handtökin til að þjálfa hann í að koma á fingur. Litla skinnið var móður og másandi eftir átökin, hann var handsamaður í handklæði til að verjast biti (sem gerði ekkert fyrir sjálfsvirðinguna) en það tókst ekki fullkomlega, það blæddi  úr sérfræðingnum eftir verkið. Tumi var í svo miklu flaustri eftir meðferðina að hann var kominn á fingurinn á mér áður en hann vissi af og þá var of seint að beita gogginum. Hann bítur ekki til að bíta, bara til að reyna að stjórna atburðarásinni, lái honum hver sem vill. Svo mátti hann hafa sig allan við að halda sér í fingurinn og bregðast við þegar honum var gert að fara strax yfir á hinn fingurinn, aftur og aftur. Hann var fljótur að fara inn í búrið sitt eftir þessar hremmingar, allur úfinn, og það heyrðist ekki í honum meira þann daginn. En hann jafnaði sig fljótt og við erum nú að æfa okkur í þessu með fingurna. Eftir þessa meðferð var ég með svo mikið samviskubit að ég fór og keypti dýrt dót handa honum, leikgrind sem ég er að setja saman. Dæmigert að kaupa sig frá sektarkenndinni.   

Gaukssaga

Það var stór páfagaukur á æskuheimili mínu, African grey sem hét Nílló. Hann var orðinn einhverra tuga ára þegar hann kom til okkar en þessi gaukar verða allt að 70 til 80 ára við bestu skilyrði. Hann var fluttur til landsins frá Evrópu af afabróður okkar krakkanna og þegar hann féll frá þurfti að finna gauknum nýtt heimili. Ekki var mikil þekking til um hvaða fæði og aðbúnaður væri bestur fyrir svona fugla og Nílló fékk að éta mestallt sem hann hafði lyst á. Honum fannst góður kaffisopinn og tók eiginlega við öllu sem að honum var rétt. Hann talaði og flautaði og vaskaði upp, hann mjálmaði þegar við áttum kött (sem olli kettinum nokkrum heilabrotum). Hann bauð gestum "viltu kaffi?" eða "viltu kók?". Hann kallaði "síminn!" í tíma og ótíma sem plataði oft heimilisfólkið til að taka upp tólið. "Er Mogginn kominn?" hljómaði daglangt. Hann spurði um börnin á heimilinu með nafni. En hann þýddist engan nema heimilisföðurinn sem hann dáði. Hann beit alla aðra af sér. Sérstakleg var hann í stríði við húsmóðurina, sem sat uppi með alla umhirðuna um hann. Það er sóðalegt að vera með páfagauk, kostar mikil og stöðug þrif. Það varð sértakt samband á milli þeirra. Hún skammaðist í honum og hann reyndi að bíta hana við öll tækifæri. Þegar Nílló fékk að vera laus lá allt heimilið undir skemmdum, hann nagaði allt sem hann náði í, húsgögnin urðu með árunum tætt og rifin, hann spændi upp stólfætur og hillur. Ég á enn húsgögn sem bera ummerkin um hann. En óskaplega eru þessar minningar skemmtilegar. Og nú er ég að endurupplifa þetta með minn litla græna gauk, en ég er ákveðin í að ala hann betur upp og hann fær ekki aðgang að húsgögnum hér.   


Result!

Á afgreiðslu Póstsins varð ég óvart áheyrandi að fyrirspurn annars viðskiptavinar sem var að spyrjast fyrir um miða á póstkassa til að afþakka fjölpóst. Þar heyrði ég að það mætti hafa formlegt samband við Póstinn og fara fram á gulu miðana sem voru einu sinni til. Nú, þetta gerði ég áðan - sendi fyrirspurn og fékk svar þar sem ég var beðin um allar upplýsingar um mig, kennitölu og allt. Fékk skjót viðbrögð frá þjónustufulltrúa Póstsins þar sem segir að þessir miðar verði til í lok maí og að ég fái minn sendann í pósti! Nú þarf ég bara að leysa hvað ég ætla að setja í botninn á fuglabúrinu. 

Einföld sál

100_0316

Setti nýjan og stærri spegil við búrið hjá Tuma og hann er ástfanginn! Hann dansar og sveiflar sér fyrir framan spegilinn og gefur frá sér alveg ný hljóð, litla krúttið heldur að hann (eða hún kannski) sé búin að eignast elskhuga.

Síðan eru myndir frá USA í albúminu til hliðar fyrir vini og ættingja.  


Lending

 

Nú er ég að ná áttum eftir ferðalagið og Tumi kominn heim. Flosi greyjið er að jafna sig - alltaf þegar ég hef verið í burtu einhvern tíma er hann í þrjá daga að jafna sig. Hann mjálmar með hljóðum - til að láta mig vita hversu slæmt hann hefur haft það - aleinn heima. Þó lítur nágranni til hans daglega.

Þessi Ameríkuferð var frábær - allt gekk samkvæmt áætlun nema að við Detel reiknuðum ekki með að vera stöðvaðar af lögreglunni í Culpepper Virginia. Ég var að taka u-beygju á aðalgötunni - enginn annar bíll á ferð, þá skaust lögreglubíll út úr hliðargötu og ég var rétt búin að keyra inn í hliðina á honum en mér tókst að stoppa áður. Detel hélt að við hefðum sloppið en ég hef séð of margar lögreglubíómyndir - ekki séns að hann kæmi ekki á eftir okkur. Eftir smástund sá ég blá blikkandi ljós í speglinum og stöðvaði, skíthrædd. Við höfðum verið varaðar við að keyra ekki of hratt því að lögreglan í minni bæjum sektar ökumenn grimmt - þannig afla þeir mikilvægra tekna. En Detel (sem hafði fengið sér rauðvín með matnum, en ekki ég) útskýrði fyrir löggunni í löngu máli að við værum ekki glæpamenn á flótta - ekki geggjaðir unglingar - heldur miðaldra ferðamenn að leita að Mótelinu okkar. Mér til undrunar (og allra sem við sögðum frá þessu) var lögreglan ekkert nema elskulegheitin og sagði okkur hvar Red Carpet Motel væri að finna. 

Við GloríaSumarbústaðurinn

    

 


Spurning um sjálfsvirðingu

Hlustaði á BBC World Service í morgun þar sem viðskiptaþátturinn er sendur út frá Íslandi. Þið finnið það væntanlega á vefnum þeirra en ég hef ekki tíma til að leita að því. En það sem eftir situr hjá mér er þetta. Skilaboðin sem sum íslensk fyrirtæki sendu til umheimsins fyrir nokkrum árum til að tæla til sin viðskipti - "one night stands in Iceland" og fleira í þessum anda hafa heldur betur skilað sér. Virðingaleysið og "lauslætið" (skiljist eins og hver vill) í þeim skilaboðum speglast nú í því virðingaleysi sem Ísland er að uppskera þar sem peningamenn eru að leika sér að Íslandi eins og leikfangi. Þeir sem hafa peningana hafa völdin. Ef við höfum ekki sjálfsvirðinguna í lagi - hvers vegna ætti umheimurinn að koma öðruvísi fram við okkur? Þetta á við um einstakling og þjóðir. Maðurinn uppsker eins og hann sáir.

Prédikun lokið, farin út á flugvöll.


Mótsagnir

Ósköp er ég fegin að þeir ætla að fresta þessu - er á leið út á flugvöll í dag og var farin að kvíða því að allar áætlanir færu úr skorðum. Sá einhversstaðar að þeir ætluðu að loka akstursleiðum til og frá borginni. Svona er auðvelt að sveiflast á milli þess að hvetja mótmælendur í baráttunni en þegar afleiðingarnar snúa að manni sjálfri - þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þetta líf er eintómar mótsagnir
mbl.is Bílstjórar fresta aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglapössun

Nú er sá græni kominn í pössun hjá systur minni og mági. Hann var fluttur í búrinu með pompi og prakt í aftursætinu við hliðina á 15 ára frænda sem finnst Tumi frábærlega fyndinn. Enda er hann það - við erum búin að vera að æfa "halló Tumi" og mjálm í dag og honum fer mjög hratt fram í tali. Fregnaði af honum í kvöld og hann leikur við hvurn sinn fingur hjá þeim. Ekkert að láta breytingarnar trufla sig - sem er frábært því það eru allar líkur á því að hann fari reglulega í pössun hjá þeim.

Flosi er feginn að hafa heimilið út af fyrir sig aftur - og kattarheilinn leyfir honum ekki að skilja að þetta er tímabundið frí frá skrækjunum sem vekja hann upp af værum blundi.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband