Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ljúft og sárt

Hugrenningatengsl; sá köttinn Flosa sofandi á rúminu þegar ég gekk framhjá (en hann sefur nú um 20 klst. á sólarhring enda á fjórtánda ári) - hvernig skyldi hann nú skilja við þetta líf - man þessi skipti sem ég hef þurft að láta svæfa ketti, hræðilega erfitt - rifjaðist upp líf Veru litlu.

Vera var smávaxin síamslæða sem ég fékk gefins hjá vinkonu fyrir rúmum 20 árum. Hún var óskaplega fallegt dýr en í hennar huga var enginn henni samboðinn. Hvorki menn né dýr. Kötturinn Tumi sem var til staðar á heimilinu var fyrir henni alla tíð. Hann, þessi öðlingur, lét alltaf í minni pokann fyrir hennar hátign. Vera varð síðan kynþroska eins og gengur, fór að breima og mér fannst upplagt að reyna að rækta síamsketti til að auka heimilistekjurnar. Komst í samband við mann sem átti Bismark, bráðmyndarlegt fress, helmingi stærri en prinsessan mín. Okkur samdi um að skipta með okkur kettlingunum. Bismark var síðan ekið heim til Veru og frá fyrstu stundu lagði hún þvílíkt hatur á fressið að hann var í bráðri lífshættu. Hún réðst að honum með kjafti og klóm organdi og hvæsandi - hann flúði í fangið á mér og neitaði alfarið að ég legði hann frá mér. Hann hékk um hálsinn á mér í þennan sólarhring sem tilraunin stóð eða þar til eigandinn sótti hann.

En Vera var enn að breima. Fyrir utan kjallaragluggann röðuðu sér upp öll óvönuðu fressin í Laugarneshverfinu. Vera spásseraði fram og aftur í gluggakistunni, mjálmandi, og kattaþvagan við útidyrnar gerði okkur erfitt að ganga um. Hún vildi ólm komast út en þar sem fressin voru þeir ótótlegustu kettir sem ég hef augum litið, þver-og langröndóttir - með rifin eyru, beyglaða rófu, eineygðir og með bardagasárin sýnileg - þá fannst mér þeir ekki samboðnir fínlegu læðunni með bláu augun sem át túlípana nágrannans ef hún komst í þá. En eitt skiptið tróð hún sér á milli fótanna á mér og komst út - beint í klærnar á stærsta og ógnvænlegasta fressinu. Það skipti engum togum - upp hófst ástarleikur þeirra þarna í kjallaratröppunum og hann stóð meira og minna látlaust í þrjá daga og barst um allan garðinn. Einn nágranni kom að orði við mig og sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins atgangi. Úr þessu ástarævintýri urðu síðan fimm kettlingar.

Þegar Vera var komin að því að gjóta kom ég henni fyrir í neðstu skúffu í fataskápnum. Gotið gekk vel - en að því loknu gekk hún í burtu, fór fram í stofu, þvoði sér hátt og lágt og sofnaði síðan á púðanum sínum. Leit ekki við kettlingunum. Mér leist ekki á blikuna, litlu krílin emjuðu öll í kór en hún leit ekki við þeim. Ég flutti hana inn til þeirra hvað eftir annað og reyndi að koma þeim á spena - sat síðan yfir litlu fjölskyldunni eins og ég gat. En þar sem ég þurfti að sinna vinnu minni varð ég að skilja þau eftir heima - þegar ég kom heim daginn eftir fann ég alla kettlingana í rúminu mínu. Skilaboðin voru skýr - ég skyldi sjá um þetta verk eins og önnur á heimilinu - prinsessan hafði aldrei ætlað sér að hafa neitt fyrir lífinu, bara njóta þess. Við héldum tveimur kettlingum eftir en förguðum þremur. Vera var aldrei hrifin af þessu - dæturnar voru fyrir henni alla tíð og tóku athygli sem henni var ætluð.

Dýralæknirinn, sem hafði sterkar skoðanir á því að alla ketti ætti að gelda til að koma í veg fyrir fjölgun á köttum í borginni, krafðist þess að ég væri viðstödd aflífun kettlinganna. Með því ætlaði hún að tryggja að ég mundi aldrei taka upp á þessu aftur. Sem hefur reyndar ekki gengið eftir. Nokkrum árum seinna kom í ljós að Vera var orðin blind. Það varð okkur ekki ljóst fyrr en við tókum eftir því að ef við færðum húsgögnin til þá gekk hún á þau - eða datt á milli stóla ef annar var færður til. Svo kom að því að hún hætti að nærast - dýralæknir fann svo æxli innvortis. Það varð að svæfa hana. Það var hræðilegt. Hún var svo hrædd - þótt að ég héldi á henni á meðan hún sofnaði.


Blessað bloggið

Þegar ég var að renna yfir bloggsíðurnar nú í þessu fór ég að hugsa hversu þetta er nú merkilegt eiginlega. Hér lætur gamminn geysa fólk af öllu tagi. Ráðherrar og leikskólakennarar, kapítalistar og kommúnistar. Hér hitti ég vini og fjölskyldu. Ég hef að sjálfsögðu mismikinn áhuga á því efni sem fólk skrifar um og sumt gengur fram af mér - sumt gerir mig reiða - ég tárast yfir öðru - svo hlæ ég þangað til ég fæ hlaupasting í síðuna. Aldrei fyrr hafa raddir svo margra fengið að heyrast á sama vettvangi - hér er kannski hið raunverulega jafnrétti í verki.

Sumir eru innhverfir og hljóðlátir- eru mest að tala við sjálfan sig. Sumir deila óskaplega viðkvæmri reynslu sinni og mér sýnist vera farið afar vel með tilfinningar þeirra hér. Aðrir eru að predika yfir okkur hinum - svo sannfærðir um eigin skoðanir að ég verð strax tortryggin - ef þeir eru svona vissir, af hverju þessi þörf fyrir að sannfæra aðra og fá samþykki? Þegar ég er sannfærð um minn sannleika þá þarf ég ekki að fá staðfestingar utan frá - ekki heldur að troða honum ofan í kok á öðrum.

Sumir fara í fýlu ef þeir fá ekki heimsóknir og hætta - aðrir fara í vinsældakeppni og svífast einskis til að fá gesti á síðu sína. Gaman að þessu.


Dean fór norður fyrir

Dean - sem var stormur en er nú að verða að fellibyl á hæsta stigi - tók á sig sveig framhjá Barbados. Ákveðnar raddir hér heima herma að hann hafi ekki lagt í að mæta hinni smágerðu HF. Hún segir að þetta hafi verið eins og venjulegt íslenskt veður - rok og rigning.

En nú er það ekki lengur venjulegt veður hér - var að koma úr bænum af Menningardegi og það er með endæmum fallegt borgarlífið. Gat ekki annað en hlegið - þarna var harmonikkuhljómsveit að spila fjöruga dansa og engum spilaranna stökk bros á vör. Það var eins og þau væru í jarðaför - flestir hlustendur líka. En margir fætur slógu taktinn - það var eins og allt fjörið væri vandlega falið innra með mannskapnum og næði ekki að brjótast út. Enda allir bláedrú í sólskininu.


Hvenær dó lággjaldaflugið?

Getur það verið að flug til Berlínar hafi hækkað um helming á tæpum 6 mánuðum? Síðastliðinn mars flaug ég fyrir tæpar 30 þúsundir, nú finn ég ekkert undir 56 þúsundum, á hvorugu flugfélaginu. Hvað varð um lággjaldaflugið sem átti að breyta skilyrðum okkar íslendinga spyr ég. Það er ekki eins og við höfum um aðra ferðamöguleika að velja.

Fellibylurinn Dean

Nú berast fréttir af fellibylnum Dean sem er um það bil að koma við á Barbados. HF var send heim úr vinnunni í dag kl. 4 og lagðar línurnar hvernig maður hagar sér við þessar kringumstæður. Kaupa nóg af vatni og mat sem þarf ekki að elda og geymist vel því að oft þarf að taka rafmagn af allri eyjunni til að forðast óhöpp. Svo eru víst einhver fellibyljaskýli sem eru opnuð þegar með þarf. En hún er með vinkonur frá Þýskalandi og Ítalíu í heimsókn og ber sig bara vel enda er húsið sem hún býr í úr steini og nýlegt. Það ætti ekki að haggast neitt. Svo er víst erfitt að spá fyrir nákvæmlega hvar þeir fara yfir.

Þistlar og ormar

Í gönguferð í Nauthólsvíkinni um helgina rákumst við systurnar á þessar líka risastóru grænu orma sem voru í óða önn að naga blöðin og blómin á körfuþistlinum. Þeir voru svo stórir að það sáust svipbrigði á andlitum þeirra með berum augum. Býflugurnar voru líka mjög uppteknar og voru í harðri samkeppni við ormana um þistlana. Hvernig er það - breytast þessir ormar í púpur og fiðrildi? Eða er þetta eina birtingamynd þeirra? Kannski veit einhver bloggvinur það og fleira um þessa risa.

Önnur helgi í miðborginni

Fór í bæinn í dag til að taka minn þátt í Gay Pride sem ég lít á sem mannréttindayfirlýsingu. Þar sem ég stóð í Bankastrætinu og leit yfir mannfjöldann varð ég mjög snortin. Þarna voru þúsundir kvenna - karla og barna, allar kynslóðirnar á rölti, ýmist skreytt regnbogalitum eða ekki. Hinn þögli meirihluti að sýna sinn hug. Meira að segja veðrið tók þátt, heiðblár himinn og norðangolan var hlý. Þörf áminning til sjálfrar mín þegar ég læt ofstoparaddir trufla mig. Ofstoparaddir harðínufólks sem berst gegn öllu sem ekki er leyft í gömlum trúarritum sem að sjálfsögðu voru rituð fyrir fólk þess tíma, ekki síst til þess að ná stjórn á mannskapnum. Best að láta þær raddir eiga sig - enda áhrifamest að styðja það sem er gott og uppbyggilegt en gefa neikvæðum röddum minnstan gaum.

Helgin í miðborginni

Um klukkan 3 í nótt varð ég vör við öskur út á götu og fór að athuga málið. Heyrði þá högg - datt fyrst í hug að sá sem var svona mikið niðri fyrir hefði sparkað eða barið í einhvern bílinn í götunni. Kom í ljós í dag að það var alla vega ekki minn bíll. En sá sem öskraði var ungur maður sem var mjög reiður við unga konu sem elti hann skælandi - hún var berfætt með spariskóna í höndunum. Fyrir utan húsið hjá mér stoppuðu þau - hann öskraði á hana að hann væri svo reiður við hana!!!!!! Hún skældi og bar sig aumlega - æpti á móti að henni væri illt í fótunum og að hún væri búin að pissa á sig. "Sjáðu bara" æpti hún og fletti upp um sig kjólnum og gerði sig líklega til að klæða sig úr öllu. Hann gekk í burtu og hún elti og smám saman heyrði ég ekki í þeim lengur. Mér fannst þetta athyglisverð aðferð hennar til að afstýra reiði hans eða fá hann til að hugsa um eitthvað annað.

Krimmar

Búin að liggja yfir - og á erfitt með að slíta mig frá - þáttaröð á DVD sem ég var að fá mér. Þeir heita NEW TRICKS og eru frá BBC. Nú er ég að reyna að átta mig á hvað mér finnst svona skemmtilegt að ég er meira að segja búin að panta framhaldið sem kemur ekki út fyrr en 2008.

Rannsóknarlögreglukona gerir þau mistök að skjóta lögregluhund í hita leiksins. Hún er lækkuð í tign og fengið það verk að stofna deild sem á að taka upp gömul mál sem hafa ekki verið upplýst. Með henni veljast þrjár löggur sem eru komnir á eftirlaun. Einn er þurr alki, illa haldinn af þráhyggu og sífellt að þráast við að taka lyfin sín - annar hefur alltaf verið á mörkum skuggahliða lífsins, á þrjár fyrrverandi eiginkonur og nokkuð stóran hóp dætra sem gerir líf hans skrautlegt á köflum - sá þriðji missti konu sína í slysi og hefur ekki komist yfir það (kemur reyndar í ljós löngu seinna að einn krimminn orsakaði slysið og stærir sig af því), hann er þunglyndur einfari sem spilar golf.

Ótrúlegt en satt er þetta gengi óborganlega skemmtilegt og sambandi á milli þeirra þróast smám saman. The Boss er hörkustýra og gömlu brýnin þekkja alla krimmana frá því í gamla daga og ýmsar óhefðbundnar leiðit til að nálgast upplýsingar. Þau eru ekki ung - ekki fögur - ekki vel klædd og það er ekkert ofbeldi að ráði í þáttunum.

Ég hef alltaf verið forfallin glæpasögufíkill - alveg frá unglingsárum þegar ég las Agötu Christie frá upphafi til enda, lærði reyndar enskuna þannig. Sherlock Holmes las ég mikið og ekki síður viðbæturnar um hann sem Laura King hefur skrifað - þar lætur hún Holmes hitta og giftast konu frá Bandaríkjunum sem er ekki síður klár en hann og þau ferðast um heiminn að leysa glæpamál. Nú er Ian Rankin hinn skoski í uppáhaldi hjá mér - Rebus er frábær anti-hetja í Edinborg.


Hvar liggur ábyrgðin?

Hvernig er það - á hvers ábyrgð er það að Fréttablaðið og auglýsingar sem fylgja því liggja nú í blautri hrúgu á tröppunum hjá mér? Mér finnst það ekki vera á mína ábyrgð - ég er ekki áskrifandi og hef því ekki beðið um þetta. Ég hef ekki - né ætla að vera neytandi blaðsins. Bíð ég eftir að sorphreinsunin fjarlægi pappírinn - eða verð ég krafin um að hirða betur um umhverfi mitt? Búin að senda tölvupóst á áskrift Fréttablaðsins en fæ ekki viðbrögð. Er að hugsa um að senda sama tölvupóstinn daglega þar til einhver viðbrögð berast. Þetta er orðin ansi langvinnt og næstum því leiðinlegt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband