Færsluflokkur: Bloggar

Nú lék lánið við þig!

Þetta var fyrirsögnin á miða sem starfsmaður Bílastæðasjóðs skildi eftir undir rúðuþurrkunni á bílnum í gær. Þar er bíllinn ávarpaður þannig:

Nú lék lánið við þig! Ath. íbúakort gilda EKKI hér - xx300. Í þetta sinn þarftu EKKI að greiða stöðvunarbrotagjald.

Mér hlýnað um hjartaræturnar fyrir hönd bílsins- satt að segja eru bílastæðaverðir elskulegri við bílinn heldur en við mig. Ég hef aldrei fengið svona vinsamleg skilaboð frá þeirri stétt.


Paparassabögg

FlosiFlosiFlosi

Kötturinn Flosi breytti út af vana sínum í gær - í stað þess að vilja helst ekki vera úti lengur en í hálftíma í senn, var hann fjarverandi fram á nótt. Ég margkallaði á hann af tröppunum, hafði dálitlar áhyggjur af þessari breyttu hegðun þar sem minn er orðinn roskinn. En svo kom hann loksins, óvenju uppveðraður. Hef ekki hugmynd um hvaða ævintýrum hann lenti í. Svona breytingar vekja mann upp af vananum og í dag tók ég fram myndavélina til að festa hann á mynd þar sem hann svaf sem fastast í stólnum sem við þykjumst bæði eiga tilkall til. Flosi vaknaði strax þó að ég hafi læðst að honum og hann brást við eins og hinar stjörnurnar þegar paparassarnir eru að bögga þær - kvartaði og lét sig hverfa.


Leitað lausna.

Steinasafnið mitt er í mikilli vanrækslu. Satt að segja hef ég ekki haft hugmynd um hvað ég ætti að gera við það. Mér finnst gaman að taka fallega smásteina með mér heim þegar ég ferðast erlendis og innanlands. Ég á bleikan og grænan stein frá Iona við Skotlandsstrendur - og Djúpalónsperlu frá Snæfellsnesi. Þakbút úr kirkjurústum frá þáverandi Austur Þýskalandi, en þar var ég á ferð stuttu eftir fall múrsins og óvenjulegan stein frá Akureyri. Ég hef stundum stungið nokkrum steinum ofan í blómapottana - finn þá síðan aftur þegar ég skipti um mold eftir dúk og disk. Ég hef sett þá fallegustu í glært glerílát og fyllt með vatni og dálitlu áfengi til að það fúlni ekki strax- en það er ekki lengi að verða subbulegt. En svo fékk ég hugljómun - ég sé fyrir mér svona setjarahillu með mörgum litlum hólfum sem var mikið í tísku fyrir nokkru. Vandinn er að ég hef ekki hugmynd um hvar svoleiðis hillur fást. Veit það einhver sem heimsækir bloggið mitt? Kannski verð ég að smíða hana.

Auglýsingin umrædda

Var að skoða nýju Síma auglýsinguna. Fyrst slær mig hversu gríðarlegt fjármagn fer í þetta - þetta er dýr auglýsing. Þetta er eins og mini - bíómynd með lélegu tali.

Svo er mér hugleikið hversu mjög auglýsingin hefur sært þá sem hafa sterka Kristna trú - talaði við eina manneskju sem er særð vegna niðurlægjandi meðferðar á hennar helgustu málum.

Svona auglýsing verður aðeins til í þjóðfélagi sem er nógu sjálfsöruggt til að geta ekki ímyndað sér að þurfa á guðlegum styrk að halda, þjóðfélagi sem hefur óbilandi trú á því að geta bjargað sér sjálft undir öllum kringumstæðum. Ríku þjóðfélagi þar sem er ekkert stríð eða náttúruhamfarir hafa dunið yfir í nokkur ár og þar sem yfirstandandi loftslagsbreytingar lofa bara góðu. Og í þjóðfélagi þar sem forystumenn þjóðarinnar þurfa ekki að flagga trú sinni til að vera kosnir eða valdir til ábyrgðar.


Hvers vegna hjónabönd?

Ég átti samtal við unga manneskju nýlega og talið barst að hjónaböndum almennt. Hvers vegna hjónabönd? Hvers vegna hjónaband konu og karls. Hvers vegna "má" fólk ekki bindast tilfinninga - og efnahagslegum böndum eins og þeim sýnist? Af hverju að bendla Guði við þetta allt saman?

Ef ég hefði fæðst kona í Himalaiafjöllum væri alveg líklegt að ég ætti tvo eða þrjá bræður sem eiginmenn - þar er lífsbaráttan hörð og veitir ekki af fleiri en einum karli til að lifa af og koma börnunum á legg. Kannski er líka skortur á stúlkubörnum þar eins og er að verða í Kína. Víða er fjölkvæni líka eðlilegur hlutur sem á líka rætur í þeirri praktísku þörf að sjá sér farborða. Kemur ekki Guði eða guðum við. Þar sem engar samfélagsstofnanir eru þar finnur fólk leiðir til að komast af.

Málið er að hjónaband konu og karls er auðveldari eining fyrir stofnanir samfélagsins, sérstaklega kirkjunnar hér áður fyrr, til að henda reiður á eignum, sköttum og skyldum þegnanna. Kirkjan hefur verið órofin hluti af ríkinu svo lengi að við munum ekki að það eru margar leiðir til að lifa lífinu - kannski lifi ég það að sjá fjölkvæni og fjölgiftingar. Ég styð það að rjúfa alveg tengsl ríkis og kirkju. Það mun stuðla að frjálsari og víðsýnni hugsunargangi komandi kynslóða. Aðalatriði er að búa fólki, og sérstaklega börnum, ástríkt og uppbyggilegt umhverfi til að búa í.


Ljúft og sárt

Hugrenningatengsl; sá köttinn Flosa sofandi á rúminu þegar ég gekk framhjá (en hann sefur nú um 20 klst. á sólarhring enda á fjórtánda ári) - hvernig skyldi hann nú skilja við þetta líf - man þessi skipti sem ég hef þurft að láta svæfa ketti, hræðilega erfitt - rifjaðist upp líf Veru litlu.

Vera var smávaxin síamslæða sem ég fékk gefins hjá vinkonu fyrir rúmum 20 árum. Hún var óskaplega fallegt dýr en í hennar huga var enginn henni samboðinn. Hvorki menn né dýr. Kötturinn Tumi sem var til staðar á heimilinu var fyrir henni alla tíð. Hann, þessi öðlingur, lét alltaf í minni pokann fyrir hennar hátign. Vera varð síðan kynþroska eins og gengur, fór að breima og mér fannst upplagt að reyna að rækta síamsketti til að auka heimilistekjurnar. Komst í samband við mann sem átti Bismark, bráðmyndarlegt fress, helmingi stærri en prinsessan mín. Okkur samdi um að skipta með okkur kettlingunum. Bismark var síðan ekið heim til Veru og frá fyrstu stundu lagði hún þvílíkt hatur á fressið að hann var í bráðri lífshættu. Hún réðst að honum með kjafti og klóm organdi og hvæsandi - hann flúði í fangið á mér og neitaði alfarið að ég legði hann frá mér. Hann hékk um hálsinn á mér í þennan sólarhring sem tilraunin stóð eða þar til eigandinn sótti hann.

En Vera var enn að breima. Fyrir utan kjallaragluggann röðuðu sér upp öll óvönuðu fressin í Laugarneshverfinu. Vera spásseraði fram og aftur í gluggakistunni, mjálmandi, og kattaþvagan við útidyrnar gerði okkur erfitt að ganga um. Hún vildi ólm komast út en þar sem fressin voru þeir ótótlegustu kettir sem ég hef augum litið, þver-og langröndóttir - með rifin eyru, beyglaða rófu, eineygðir og með bardagasárin sýnileg - þá fannst mér þeir ekki samboðnir fínlegu læðunni með bláu augun sem át túlípana nágrannans ef hún komst í þá. En eitt skiptið tróð hún sér á milli fótanna á mér og komst út - beint í klærnar á stærsta og ógnvænlegasta fressinu. Það skipti engum togum - upp hófst ástarleikur þeirra þarna í kjallaratröppunum og hann stóð meira og minna látlaust í þrjá daga og barst um allan garðinn. Einn nágranni kom að orði við mig og sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins atgangi. Úr þessu ástarævintýri urðu síðan fimm kettlingar.

Þegar Vera var komin að því að gjóta kom ég henni fyrir í neðstu skúffu í fataskápnum. Gotið gekk vel - en að því loknu gekk hún í burtu, fór fram í stofu, þvoði sér hátt og lágt og sofnaði síðan á púðanum sínum. Leit ekki við kettlingunum. Mér leist ekki á blikuna, litlu krílin emjuðu öll í kór en hún leit ekki við þeim. Ég flutti hana inn til þeirra hvað eftir annað og reyndi að koma þeim á spena - sat síðan yfir litlu fjölskyldunni eins og ég gat. En þar sem ég þurfti að sinna vinnu minni varð ég að skilja þau eftir heima - þegar ég kom heim daginn eftir fann ég alla kettlingana í rúminu mínu. Skilaboðin voru skýr - ég skyldi sjá um þetta verk eins og önnur á heimilinu - prinsessan hafði aldrei ætlað sér að hafa neitt fyrir lífinu, bara njóta þess. Við héldum tveimur kettlingum eftir en förguðum þremur. Vera var aldrei hrifin af þessu - dæturnar voru fyrir henni alla tíð og tóku athygli sem henni var ætluð.

Dýralæknirinn, sem hafði sterkar skoðanir á því að alla ketti ætti að gelda til að koma í veg fyrir fjölgun á köttum í borginni, krafðist þess að ég væri viðstödd aflífun kettlinganna. Með því ætlaði hún að tryggja að ég mundi aldrei taka upp á þessu aftur. Sem hefur reyndar ekki gengið eftir. Nokkrum árum seinna kom í ljós að Vera var orðin blind. Það varð okkur ekki ljóst fyrr en við tókum eftir því að ef við færðum húsgögnin til þá gekk hún á þau - eða datt á milli stóla ef annar var færður til. Svo kom að því að hún hætti að nærast - dýralæknir fann svo æxli innvortis. Það varð að svæfa hana. Það var hræðilegt. Hún var svo hrædd - þótt að ég héldi á henni á meðan hún sofnaði.


Blessað bloggið

Þegar ég var að renna yfir bloggsíðurnar nú í þessu fór ég að hugsa hversu þetta er nú merkilegt eiginlega. Hér lætur gamminn geysa fólk af öllu tagi. Ráðherrar og leikskólakennarar, kapítalistar og kommúnistar. Hér hitti ég vini og fjölskyldu. Ég hef að sjálfsögðu mismikinn áhuga á því efni sem fólk skrifar um og sumt gengur fram af mér - sumt gerir mig reiða - ég tárast yfir öðru - svo hlæ ég þangað til ég fæ hlaupasting í síðuna. Aldrei fyrr hafa raddir svo margra fengið að heyrast á sama vettvangi - hér er kannski hið raunverulega jafnrétti í verki.

Sumir eru innhverfir og hljóðlátir- eru mest að tala við sjálfan sig. Sumir deila óskaplega viðkvæmri reynslu sinni og mér sýnist vera farið afar vel með tilfinningar þeirra hér. Aðrir eru að predika yfir okkur hinum - svo sannfærðir um eigin skoðanir að ég verð strax tortryggin - ef þeir eru svona vissir, af hverju þessi þörf fyrir að sannfæra aðra og fá samþykki? Þegar ég er sannfærð um minn sannleika þá þarf ég ekki að fá staðfestingar utan frá - ekki heldur að troða honum ofan í kok á öðrum.

Sumir fara í fýlu ef þeir fá ekki heimsóknir og hætta - aðrir fara í vinsældakeppni og svífast einskis til að fá gesti á síðu sína. Gaman að þessu.


Dean fór norður fyrir

Dean - sem var stormur en er nú að verða að fellibyl á hæsta stigi - tók á sig sveig framhjá Barbados. Ákveðnar raddir hér heima herma að hann hafi ekki lagt í að mæta hinni smágerðu HF. Hún segir að þetta hafi verið eins og venjulegt íslenskt veður - rok og rigning.

En nú er það ekki lengur venjulegt veður hér - var að koma úr bænum af Menningardegi og það er með endæmum fallegt borgarlífið. Gat ekki annað en hlegið - þarna var harmonikkuhljómsveit að spila fjöruga dansa og engum spilaranna stökk bros á vör. Það var eins og þau væru í jarðaför - flestir hlustendur líka. En margir fætur slógu taktinn - það var eins og allt fjörið væri vandlega falið innra með mannskapnum og næði ekki að brjótast út. Enda allir bláedrú í sólskininu.


Hvenær dó lággjaldaflugið?

Getur það verið að flug til Berlínar hafi hækkað um helming á tæpum 6 mánuðum? Síðastliðinn mars flaug ég fyrir tæpar 30 þúsundir, nú finn ég ekkert undir 56 þúsundum, á hvorugu flugfélaginu. Hvað varð um lággjaldaflugið sem átti að breyta skilyrðum okkar íslendinga spyr ég. Það er ekki eins og við höfum um aðra ferðamöguleika að velja.

Fellibylurinn Dean

Nú berast fréttir af fellibylnum Dean sem er um það bil að koma við á Barbados. HF var send heim úr vinnunni í dag kl. 4 og lagðar línurnar hvernig maður hagar sér við þessar kringumstæður. Kaupa nóg af vatni og mat sem þarf ekki að elda og geymist vel því að oft þarf að taka rafmagn af allri eyjunni til að forðast óhöpp. Svo eru víst einhver fellibyljaskýli sem eru opnuð þegar með þarf. En hún er með vinkonur frá Þýskalandi og Ítalíu í heimsókn og ber sig bara vel enda er húsið sem hún býr í úr steini og nýlegt. Það ætti ekki að haggast neitt. Svo er víst erfitt að spá fyrir nákvæmlega hvar þeir fara yfir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband