Landráð af gáleysi framið af atvinnupólitíkusum

Páll Skúlason heimspekingur var í viðtali við Önnu Maríu um daginn, tengill hér fyrir neðan. Þar hlustaði ég loksins á mann sem greindi stöðuna rétt. Hann notaði orðin landráð af gáleysi um það sem átti sér stað á nýliðnu ári. Þetta er mjög alvarleg niðurstaða. En gáleysið var framið af atvinnupólitíkusum!

Nú er sama fólkið sem framdi landráð að vinna hörðum höndum við að bjarga málum. Það má líta á það þannig að batnandi manni sé best að lifa og að þau sem stóðu í brúnni þegar Títanik æddi á ísjakann sé nú rétta fólkið til að standa að björgun. Það má líka líta þannig á að það sé vítavert og viðbótar óðs manns æði að hafa sama fólkið við stjórnina sem af gáleysi eða kunnáttuleysi gætti ekki að sér.

Ég heyrði forsætisráðherrann í gær leggja áherslu á að heimsástandið hafi orsakað bankahrunið - ekki gáleysi ríkisstjórnar og Seðlabanka. Ég er alveg viss um að þetta fólk er mjög meðvitað um hvernig íslandssagan mun fjalla um þau. Þau eru öll atvinnupólitíkusar með annað augað á ferilskrá sinni og þessar hörmungar Íslands verða eins og myllusteinn um hálsinn á þeim. Ég er þess fullviss að þau eru ekki síst að bjarga eigin skinni og munu ekki láta flæma sig burt með skottið á milli lappanna fyrr en í fulla hnefana. Við kjósum í vor trúi ég - það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig þau munu öll reyna að bjarga pólitísku mannorði sínu fram að þeim tíma. Og þau eru nú að vinna að því að skrifa söguna sér í hag. Þess vegna var ómetanlegt að fá þessa skýru greiningu frá Páli Skúlasyni, hafi hann þökk fyrir.

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4454024/2008/12/28/ 


Evróvisionlagið komið

Í fyllstu alvöru - þessi vestfirski karlakór með hljómsveit sem var í Kastljósinu áðan - okkar framlag í Evróvision keppnina. Kraftur og frumleiki -
Hundleiðinleg keppni annars - þetta gæti hresst upp á hana. HÓ HÓ HÓ!

Þarf byltingu

Það virðist ekki vera að virka að hvetja almenning til að eyða peningum, þetta á auðvitað ekki við hér á landi en í hinum vestrænu ríkjunum þar sem vextir eru komnir að núlli til að fá fólk út í búðir. Við þessar aðstæður, atvinnuleysi og öryggisleysi finnur fólk þörf til að halda að sér höndum en ekki eyða. Kannski þarf að gera fjármálabyltingu - finna upp nýja fleti á fjármálum og sjá nýjar leiðir. Þetta kerfi er orðið eins þreytt og karlarnir sem hafa haldið því gangandi.

En þar sem ég hef aldrei skilið hvernig hægt er að verða ríkur á því að eiga skuldir - þá er ég ekki með nein ráð. 


mbl.is Hvetur til útgjalda til þess að örva hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin í miðbænum

Þessi ljósmynd er tekin í morgun í miðbænum. Fullskreytt tré - og mannshöndin kom hvergi nálægt.DSCF0161

Brjóstvitið

Hversu algengt skyldi það vera að vísindalegar rannsóknir séu álitnar vera heilagur sannleikur. Það er oft sem niðurstöður dagsins í dag eru teknar sem hinn eini rétti sannleikur - nokkru seinna er einhver allt annar sannleikur orðinn til. Skelfilega þreytandi þegar verið er að hamra á - og auglýsa - til dæmis vörutegundir sem einn daginn eru lífsnauðsynlegar en verða síðan lífshættulegar, alla vega óhollar. Það er allt of lítið tekið mark á brjóstviti fólks, allir foreldrar vita að það hefur aldrei verið nóg að setja bara nægilega hlýjar húfur á börnin og senda þau út í kuldann. Ég er ein af þeim sem hefur alltaf verið illa við höfuðföt af mörgum ástæðum, mér hefur aldrei orðið meint af því að vera berhöfðuð. En blautir og kaldir fætur eru annað mál - endilega rannsaka það.
mbl.is Höfuðið saklaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindastétt þrífst ekki til lengdar - vona ég

Pétur Gunnarsson rithöfundur skrifar í Moggann í dag pistilinn Gullöldin.
Hér segir hann: "En því miður, fjármálaumsvifin voru meiri en mjóar herðar þjóðarinnar gátu borið. Og lærdómurinn nú sem fyrr: Ísland ber ekki forréttindastétt. »Best að hafa enga.« Þetta er vert að hafa í huga nú þegar reisa skal úr rústum. Valið stendur um samfélag jafnaðar eða áframhaldandi klúður ad infinitum(endalaust) eða öllu heldur ad nauseam (svo mann klígjar við)"
Þetta er athyglisverð niðurstaða. Við erum of fámenn til að bera forréttindastétt - ég held að þetta sé rétt. Til að yfirstétt getir hreiðrað um sig þarf fleira fólk og meiri fjarlægð á milli manna heldur en við verður komið í þessu samfélagi. Eða hún verður að koma utanfrá - eins og Danir gerðu. Ég man að móðir mín sagði frá því að á Ísafirði þegar hún var ung hafi fólk talað dönsku á sunnudögum, þegar fólk klæddi sig upp og fór í kirkju. Þessir guttar sem reyndu að búa sér til yfirstétt hér höfðu enga menningu á bakvið sig - fjármálatungumál er ekki menning - en margir óbreyttir íslendingar reyndu að tala fjármál á tyllidögum 

Eignir eignast mann - en tíminn er nýi lúxusinn

Var að lesa pistil á Deiglunni eftir Samúel T. Pétursson þar sem hann varar við að öfundin í samfélaginu og hefndarhugurinn fái að taka völdin vegna afglapa gerendanna í bankahruninu.

Þetta ergir mig. Nú má ekki hafa skoðanir á þessum hörmungum án þess að vera settur í hóp öfundarmanna í hefndarhug. Mér er andsk... sama þótt ég hafi ekki haft Elton John að syngja og spila í afmælinu mínu. Og mér er nokk sama þótt ég hafi ekki keypt mér jeppa til að troðast um þröngar göturnar í hverfinu mínu. Og ég veit fátt leiðinlegra en að verða að ferðast í flugvélum vegna vinnu minnar, og einkaþota mundi ekki breyta því að ráði.

Það kenndi mér hún frænka mín þegar ég var að dásama sumarbústaðinn hennar að eignir eignast mann, en ekki öfugt. Það kostar áhyggjur og stöðuga vinnu að eiga hluti - og satt að segja á ég meira en nóg. En það sem er að verða af skornum skammti í vestrænum heimi í dag er tími. Að hafa tíma fyrir sig og sína er nýji lúxusinn.     


Yfirborð v/innihald

Daglega koma fregnir af afleiðingum fjármálaerfiðleika í samfélaginu. Sá út undan mér að HÍ er í vanda og varð þá hugsað til skólans sem ég stundaði framhaldsháskólanám við í Lundúnum fyrir um tuttugu árum. Aðbúnaðurinn hefði seint verið samþykktur af nemendum í íslenskum háskóla þá hvað þá núna og þeim hefði aldrei verið boðið upp á húsnæði og slíkt sem þótti ekki vera neitt aðalatriði þar. Skólinn er á heimsmælikvarða, kennarar og prófessorar eru viðurkenndir fræðimenn en mér krossbrá þegar ég sá húsakynnin og þess háttar. Til dæmis var ein greinin kennd í leiguhúsnæði hjá Hjálpræðishernum sem var ómögulegt að kynda almennilega og allir sátu í yfirhöfnum á mestu kuldunum og rakanum. En mér skildist fljótt að bretarnir voru með aðalatriðin á hreinu, fyrsta flokks nám í fimmta flokks húsnæði og aðbúnaði - það var rétta röðunin á því í hvað peningarnir voru nýttir.

Við á þessu landi gerum svakalegar kröfur um útlit og framkomu (?)- en oft vantar mikið upp á það sem inni fyrir býr og skiptir raunverulega máli, yfirborðsmennskan hrjáir okkur og er sennilega hin hliðin á minnimáttarkennd smáþjóðar. Engin þörf á að tíunda það sem allir hafa sögur um, innréttingum hent á haugana til að yngja upp í eldhúsinu - stofuhúsgögnum fargað til að kaupa nýja leðursófann. 

Nú er tími til að endur-raða - forgangsraða upp á nýtt. 


Hver verður eftir til að standa undir auknum sköttum?

Það á ekki setja á hátekjuskatt. Ekki nægilega mikið sem fæst upp úr því víst. Unga, fríska, vel menntaða fólkið flýr landi í unnvörpum og eftir sitja þeir sem komast ekki lönd eða strönd. Það er sem sagt eldra fólkið sem á að borga hærri skatta og borga sig inn á spítalana og borga líka matinn ofan í sig á meðan þeir dvelja þar. Eru fleiri en ég sem sjá að þetta dæmi gengur ekki upp? Fleiri gjöld er verið að finna upp til að krækja í fleiri krónur í ríkiskassann og færri verða eftir í landinu til að standa undir þessu. Mikið kvíði ég skammdegismánuðunum sem framundan eru, þá fer kaldur veruleikinn sem ráðamenn hér eru að kokka upp núna að komast í framkvæmd. 

En takið eftir að DO hefur dregið sig inn í skelina sína aftur, í bili. Það verður forvitnilegt að fylgjast með næsta útspili hans - hann þolir ekki lengi við úr sviðsljósinu. 


Óttinn við að vera gleypt með húð og hári

Skiljanlegt að margir séu hræddir við að hverfa í hafið sem nefnist Evrópusambandið - en er sá ótti á rökum reistur? Þegar við ferðumst um Evrópu er þá ekki séreinkenni hvers lands enn til staðar, jafnvel enn skýrari en áður? En hræðsla Litlamanns við að verða ósýnilegur eða gleyptur í heilu lagi sést á mörgum bloggum og víðar. En mér hugnast ekki að láta óttann ráða - skoðum aðildina vandlega og tökum síðan ákvörðun.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband