Melankólískt

Ég var á Austurvelli í dag - kom snemma og fór snemma. Nú var andrúmsloftið dapurt fannst mér. Það var dapurlegt að hlýða á íslensk ættjarðarlög spiluð af lúðrahljómsveit. Þetta var eins og jarðarför. Ég held að við séum viðstödd útför Gamla Íslands þessa dagana. Og það er viðeigandi að vera dapur í jarðaförum - syrgja það sem er horfið. Það er ekki farið að glitta í nýja lífið sem er framundan heldur er nú viðeigandi tími til að syrgja. 

En hann var ekki sorgmæddur sá sem kaus að klæða sig úr öllu og bera sig fyrir þóð sinni í upphafi fundar. Mér fannst nú mjög sætt að enginn fetti fingur út í að hann væri að skokka um á tillanum sínum - sennilega hafa margir hugsað eins og ég - æ, voða held ég að honum sé kalt. Kannski náðu einhverjir erlendir fréttamenn honum á mynd sem væri skemmtilegt - sérstaklega ef hún bærist til útlanda sem mér skilst að bíði með andakt eftir öllum fréttum frá Íslandi þessa dagana.


mbl.is „Ábyrgðin er ekki okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senuþjófur

Davíð situr ekki uppi með neina mikilvæga vitneskju - hann er að vanda að stýra umræðunni. Enda er hann enn eina ferðina búinn að taka athyglina - og hann elskar að baða sig í ljósinu - enda gamall leikhúsmaður, senuþjófur.
mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegt fórnarlamb.

Davíð segir í danska viðtalinu  "Men Præsidenten nedlagde veto og jeg blev syg, og loven blev ikke til noget. Derfor har vi ikke en uafhægig, fri presse. Den er ejet af de samme kredse, der har styrtet os i ulykke. Hvis vil havde haft en fri presse, der havde kunnet og ville kontrollere de sande magthavere, var vi ikke kommet ud i det stormvejr, der nu hersker."

Ég sé ekki betur en að hann sé að segja að það sé fjölmiðlum að kenna hvernig fór. Það eru aldeilis valdamiklir fjölmiðalarnir hér á landi.

Það er fátt hættulegra en fórnarlamb sem berst fyrir lífi sínu - því er sama hvað það gerir til að koma sér úr lífshættu.


Frelsi fuglsins

Nú eru tveir dagar síðan kötturinn FLosi lést og Tumi virðist vera búinn að átta sig á því að hann er frjáls. Hann flaug í fyrsta sinn niður á gólf áðan, fram að þessu hefur hann haft auga með kettinum og aðeins sest þar sem hann taldi sig öruggan.  Nú vappaði hann um á gólfinu í leit að einhverju til að tæta og fann inniskóna mína, með mér um borð. Hann gerir ekki greinarmun á gúmmíbotnum og tám sem gerir það að verkum að ég er á flótta undan þessari smáu en hraðskreiðu veru. Nú þarf hann ekki að vara sig á kettinum lengur.

Svo er ólýsanlega fyndið að sjá hann taka dans-syrpuna á sófaborðinu fyrir framan spegilinn, þetta er greinilega þjóðdans þessarar fuglategundar og er tekin gríðarlega alvarlega. Lítil valhopp með tilheyrandi pípi og síðan er pósað fyrir framan spegilinn og þetta er endurtekið hvað eftir annað. Dásamlegt. 


Hætta að borga

Þessi umræða er komin af stað, að hætta að borga af lánum. Skiljanlegt. Enda sé ég ekki af hverju það er ekki hægt að klippa þessar upphæðir niður, þetta er hvort eð er bara tölur á blaði eða tölur inni í tölvum réttara sagt. Einu sinni var hægt að klippa nokkur núll aftan af krónunni og það gerðist ekkert nema að launin mín voru 90.000 kr. einn daginn og 9.000 kr. þann næsta (ef ég man rétt). Og allar matvörur kostuðu einhverja aura.

En hann kisi minn er allur. Var svæfður, enda aðframkominn af nýrnabilun. Kvaddur með þökkum fyrir góða samveru í 14 ár.

Flosi 2

 


Alveg skaðlausir íslendingar

Ég var að tala við vinkonu mína í dag um gang mála í kreppunni. Mér datt í hug þessi viðteknu sannindi sem íslendingar hafa stært sig af - við erum herlaus og friðsöm smáþjóð sem byggir harðbýlt land og erum aðallega í því að vera skemmtilega skrítin. Rosalega artý og uppátækjasöm en alveg laus við að ógna einum eða neinum.  Jæja - þá er sú mýta dauð. Við erum svakalegir skaðvaldar, okkur sjálfum og öðrum sem ákváðu að treysta þessari skringilegu íslendingum fyrir aleigu sinni.

Það verður öðruvísi mynd og sjálfsmynd sem verður til upp úr þessu hruni - og það er óskaplega mikilvægt að vanda þá uppbyggingu.  


Eru þeir ósakhæfir?

Í öllu þessu fári sem við erum nú að fara í gegnum - leitin að sökudólgum þar á meðal - er málið kannski of einfalt og of hallærislegt. Reynslu- og kunnáttuleysi, barnaskapur. Bankarnir seldir án kunnáttu. Útrásin svokallaða farin af reynslulausum mönnum. Almenningur steypti sér í skuldir í þeirri óraunhæfu von að allt mundi bara verða að gulli - hókus pókus eins og í ævintýrunum, það ævintýri hófst með DeCode. Síðan var ekki tekið mark á aðsteðjandi vanda í fjármálaheiminum vegna kunnáttuleysis og þar fram eftir götunum. Og nú er sama fólkið að reyna að bjarga því sem bjarga verður. Kannski verður til þekking og kunnátta úr þessu öllu saman. En á meðan virðist íslenska þjóðin vera að vakna upp og uppgötva krafta sína. Það verður kannski ávinningurinn til lengri tíma litið. Við erum þá á leið að verða fullorðin. En ef þetta eru afglöp barnaskapar þá vaknar spurningin; eru gerendurnir í þessum málum þá ósakhæfir? Ég er sannfærð um að þeir steyptu þjóð sinni ekki í þetta tjón af ásetningi.     

Örlæti lífsins

Þvílíkt örlæti! Get ekki stillt mig um að deila þessari fegurð - sem er mér gefin frítt. Og svo standa gömlu hjónin hjá - mér þykir vænt um þau líka, ólst upp með þeim á æskuheimilinu. 

DSCF0158

 


Sjálfstæðismannatónninn

Fylgdist með þessum gríðarlega fundi í Háskólabíó sem var að ljúka. Síðan var smáviðtal við forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Það er ákveðinn sjálfstæðismannatónn sem ég hef oft tekið eftir - hjá sjálfstæðismönnum auðvitað. Sérstakur hroka- og fyrirlitningartónn sem þessi hópur hefur tileinkað sér og sem skilur eftir vont bragð - ég tek eftir að ég gretti mig alltaf þegar ég verð fyrir honum. Nú veit ég ekki hvort þessu fólki finnast viðmælendur almennt svona fyrirlitlegir eða hvort þetta er bara kækur sem þeir smita hver annan af. Alla vega virkar þetta sérlega fælandi á mig - svona ef einhver sjálfstæðismaður hefur áhuga á að vita það. 

Hagaðu þér eins og runni!

"ýour are a Bush - so act like one" segir í nýrri kvikmynd um George W. Bush forseta.
"Þú ert runni - hagaðu þér þá eins og runni" - svona hljómar þetta á íslensku, alveg bráðskemtilegu tungumáli. Nú kemur Spaugstofan!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband