Ólíkar tegundir

Var að baða Tuma - ég úða á hann vatni sem honum finnst alveg rosalega gaman og gott. Flosi fylgist með og furðar sig á því að vatnsúðinn - sem hann forðast af fremsta megni - skuli vera svona eftirsóttur af Tuma. Þarna er enn eitt sem aðgreinir þessar tegundir frá hvor annarri. En Flosa finnst þetta áhugavert og kemur alltaf til að fylgjast með.

DSCF0032

 


Ergilegt

Get ekki orða bundist ég er svo pirruð. Ég verð að fá mér nýjan ísskáp - það kostar næstum eins mikið að gera við þann gamla eins og að fá nýjan. Nú nú - sá gamli var fínn því að hann var með frystihólfið neðst og aðgengi að kælihlutanum var gott. Nú bregður svo við að öll tækin sem ég hef náð að skoða eru með frystihólfin efst - þar með fer aðgengilegasti hluti skápsins fyrir lítið því að frystihólfið er sjaldnast notað. Þegar ég spurði starfsmenn hvernig stæði á þessu var fátt um svör - einn hafði þó orð á því sem mér finnst augljóst. Hann hló og sagði; "konurnar segja að það sé vegna þess að karlar hanna þessi tæki". Mér var ekki skemmt.  

Loksins er það komið

Jæja - þá er það komið. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur (loksins) sameinast um að kynferðisofbeldi sé:  "a tactic of war to humiliate, dominate, instil fear in, disperse and/or forcibly relocate civilian members of a community or ethnic group". 

Markmiðið með nauðgun á hversdagslegri vígvelli er sá sami, "nauðgun er aðferð til að niðurlægja, ráða yfir, ógna, tvístra og flæma fólk úr sínu fyrra lífi eða umhverfi". Nauðgun er mjög áhrifaríkur ofbeldisglæpur en nauðgun er ekki "sálarmorð" eins og fólki er tamt að kalla það. Það er óþarflega dramatískt og gefur til kynna að konum sé ekki afturkvæmt eftir að verða fyrir kynferðisglæpum. Það er alrangt. Ef konur fá viðunandi viðmót og stuðning til að vinna úr afleiðingum ofbeldisins standa þær enn sterkari eftir en áður.  


17 júní í miðbænum

Nú er það orðið klárt - ég er orðin gömul. Ég er að brjálast hérna! Popptónleikar fyrir utan húsið mitt - örvæntingafullir (hljómar þannig) unglingar orga úr sér lungun við undirleik hávaðasömustu verkfæra sem hafa verið fundin upp. Hitinn í góða veðrinu er svo mikill að ég verð að hafa opið út- kötturinn horfir ásakandi á mig, hann fær ekki svefnfrið. Tumi lætur sér ekki bregða - ræðst í hvert verkefnið á fætur öðru. Ég man nú samt eftir popptónleikum míns tíma - og skil svo sem vel hvað þetta er gaman allt saman en ósköp verðum við kisi fegin þegar þessi dagur er búinn og kemur ekki aftur fyrr en að ári. 

París

Það er nú kanski klisja en ég segi það samt - París er dásamleg borg. Ég heimsótti hana í fyrsta sinn nýlega og ég ætla að fara aftur einhverntíma. Bara að ganga um göturnar og sötra gott kaffi á gangstéttinni og horfa á mannlífið. Það stöðvaði mig miðaldra kona, sagðist vera frá Bandaríkjunum og væri í alvarlegum fjárkröggum. Hún væri peningalaus með hótelreikning upp á nokkur hundruð Evrur og hefði ekkert borðað. Hún var með tárin í augunum þegar hún bað mig um peninga. Ég sagði nei. Síðar sagði mér þrautreyndur borgarbúi að við þessar aðstæður ætti fólk að snúa sér að sínu sendiráði í stað þess að betla. Þetta væri dæmigert fyrir fólk í neyslu. Sennilega rétt, en hvað veit ég.

Ég fann dásamlega búð - þar fann ég brauðristina sem ég hef alltaf vitað að væri til einhversstaðar. Hún er túrkisblá með röndum í regnbogans litum. Og þar fann ég líka fyndna gjöf handa dótturinni sem ég fjölyrði ekki um nánar ef hún skyldi lesa þetta. Á bökkum Signu voru listamenn að selja verk sín, þar fann ég húmorískar smámyndir af París sem ég féll fyrir og er nú að leita að vegg hjá mér sem fer þeim vel. 

Myndavélin mín varð ónýt í miðri ferðinni en ég náði nokkrum myndum.

Út um gluggann á hótelherberginu100_0331

 


Heimalöguð kaós

Er nýkomin af námskeiði í Frakklandi - og námskeiðið hét Poised in Chaos, eða að standa í fæturnar í óreiðunni. Nú nú, ég byrjaði á því að skapa mér mitt eigið litla kaos - ég missti af flugvélinni. Mér finnst það ekki boðlegt að þurfa að vakna klukkan fimm á morgnana til að mæta í flug og svaf bara. Ég varð að kaupa annan flugmiða og eyddi síðan deginum í kompaníi Leifs Eiríkssonar sem var allt í lagi - það er eins og að vera staddur í litlu þorpi - þar er allt til alls.

En dómkirkjan í Chartres í Frakklandi er ólýsanlega fögur og full af sögu og leyndardómum.

Nú situr Tumi við hliðina á mér og tætir pappírinn utan af brjóstsykurmolum - fleygir molunum og rífur pappírinn í smáagnir. Er að reyna að kenna honum að segja "hvar er kisi?" en hann vill ekki. Tautar bara "Tumi góður strákur". 


Við erum upptekin

Við Tumi erum ekki að fylgjast með Júróvision, við erum upptekin. Hann er svo fælinn gagnvart höndum - ég get rétt honum góðgæti með fingrunum sem hann þiggur en þegar ég setti fræ í opinn lófann þá þorir hann ekki. Hann vappar fram og tilbaka, en þorir ekki að nálgast fræin. Ég setti þá fræin í lítið plasthylki til að sjá hvað hann gerði, hann tók hylkið, klifraði með það í gogginum upp á leikgrindina og tróð hausnum í hylkið til að ná í sólblómafræin. En þetta gengur út á að byggja upp traust, og það tekur tíma. Nú er hann kominn aftur á búrið og er að leita leiða til að nálgast bananabita sem hangir í búrinu í þar til gerðri græju. Hann reynir allar aðferðir, togar í en missir svo takið - klifrar þá inn í búrið en nær ekki alveg...  Skemmtilegt að fylgjast með, endalaust að leita leiða til að leysa vandamálin.

En það þýðir ekkert að bjóða honum þetta fína fuglabað, hann tekur sig til og baðar sig upp úr drykkjarvatninu og eys vatni um allt gólf.

Nú er hann farinn að segja; Tumi góður strákur.  

 


Eftirherma eða greind

Ja hérna - nú er ég hissa. Er að horfa á Tuma dýfa hörðu kexi í vatn til að bleyta það áður en hann étur það. Í gær gaf ég honum soðin hrísgrjón sem voru greinilega vel þegin, í morgun voru þau orðin þurr og hann fór með þau í vatnsskálina til að bleyta þau. Er að velta því fyrir mér hvar hann lærði þetta eða hvort hann fann upp á þessu sjálfur. Ég geri það stundum að bleyta smá bita af eldhúsrúllupappír og hann sýgur vatnið úr pappírnum, kannski þróaðist hugmyndin upp úr því. Er hann svona frumlegur eða er hann að herma eftir? Hann er alla vega óskaplega uppátækjasamur og snöggur. Hann er strax búinn að átta sig á að ég vil ekki að hann pilli takkana af lyklaborðinu, nú er það mest spennandi hjá honum að komast að lyklaborðinu.

Hvað svo?

Ég átti leið um Austurstrætið um þrjúleitið í gærdag. Þar var ekki margt um manninn, nema nokkrir karlar í annarlegu ástandi eins og það heitir þegar ekki er vitað hvað þeir hafa sett ofan í sig. Hróp og köll, ógnandi hegðun, túristar jafnt og heimamenn viku úr vegi fyrir þeim og færðu sig til, sem sagt voru á flótta undan betli og óútreiknanlegri hegðun þessara manna. Gott og vel þeir eru haldnir sjúkleika sem orsakar þessa hegðun, en hvað svo? Er ásættanlegt að miðbærinn sé sjúkradeild þessa fólks? Það er sama hversu mikla samúð ég hef gagnvart þeim sem eru á valdi neyslunnar, ég forðast miðbæinn orðið. Fædd og uppalin í borginni, nú sakna þess að rölta um miðbæinn, skoða í búðarglugga - því að allar áhugaverðar búðir eru horfnar. Já - ég sakna miðbæjarins.    

Sending frá Póstinum

Pósturinn sendi mér í dag lítinn rauðan miða til að líma á póstkassann - Engan frípóst, takk. Miðinn gæti ekki verið minni án þess að vera ólæsilegur. Nú er að sjá hvort póstberinn taki mark á honum. Síðast í dag kom miði í póstkassann frá sértrúarhópi sem vill bjóða mér hraðferð í himnaríki ef ég geri eins og þeir ráðleggja mér. Þar sem það er afar ólíklegt þá verður spennandi að vita hvar ég enda uppi. Það kemur nú líka í ljós hvort þessir einkavinir Guðs taka mark á svona rauðum miða.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband