Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Að vera ekki sama

Það er svo mikilvægt að umhverfið sé ekki ljótt. Ég á oft leið um Laugaveginn og Hverfisgötuna og finn að með hverjum mánuðinum sem líður forðast ég þær leiðir meira og meira. Það hefur beinlínis áhrif á líðan mína hvernig umhverfið er. Og það verða að vera rétt hlutföll í umhverfinu - mér finnst ekki góð hlutföll manns og bygginga í Skuggahverfinu til dæmis - sem veldur því að ég staldra ekki við þar. Ég er ekki strangtrúuð varðandi hvort eigi að halda í gömlu skúrana í miðbænum eða hvort eigi að rífa og byggja nýtt. Aðalatriðið er að byggja í samræmi og að hlutföllin séu mannvæn. Og það er ljóst að ljót og vanrækt hverfi eru ekki uppbyggilegt umhverfi fyrir fólk - skilaboðin eru að öllum er sama um allt. 

  


Skondið

Er ekki lífið skondið. Ég hef eytt tíma og orðum í að óskapast út af fríblöðum sem ég hef haft megnustu leiðindi af því að ég hef ekki viljað fá þau bara til að hafa fyrir því að koma þeim fyrir kattarnef. Allt í einu stend ég frammi fyrir því að mig vantar þau einmitt til að setja í botninn á fuglabúrinu - og nú eru þau hætt að koma. Ekki eitt einasta fríblað síðan ég fékk mér fugl og búr. Nú bíð ég spennt eftir hvað gerist - ef baráttan gegn fríblöðunum er unnin verð ég sennilega að gerast áskrifandi að helgarMogganum til að eiga efni í botninn á búrinu.

Goggunarröðin

Goggunarröðin orðin skýrÞað er flókið að bæta einstaklingi inn í fjöldkyldumunstrið. Flosi er að prófa ýmislegt í þessum nýju aðstæðum. Það sem skiptir öllu máli í goggunarröðinni er hæðin. Mér hefur verið ráðlagt við tamningu á Tuma að hafa hann alltaf í lægri stöðu en ég er. Það er furðulegt að sjá hversu ríkt þetta er hjá dýrum og mönnum. Flosi hefur leitað að svefnstað í stofunni sem liggur hærra en svefnstaður Tuma en finnur ekki. Púðinn á sófabakinu er það hæsta sem hann finnur. Það er spurning hvað þessi staður sem hann er að prófa í dag þýðir. Hann er ekki sérlega ánægður sýnist mér. En hann veit að hann ríkir einn á neðri hæðinni í íbúðinni- þangað fer Tumi ekki.

Augljóst mál

Jæja - það þokast í áttina. Mér finnst það deginum ljósara að sá sem framleiðir auglýsingar eða dagblöð eða bara hvað sem er og treður því inn í mitt hús gegn vilja mínum - er að brjóta á mér. Augljóst.

 

Advertising is a valuable economic factor because it is the cheapest way of selling goods, particularly if the goods are worthless.
Sinclair Lewis (1885 - 1951)
Advertising may be described as the science of arresting the human intelligence long enough to get money from it.

 Stephen Leacock (1869 - 1944) 


mbl.is Húseigendur beri ekki kostnað vegna ruslpósts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglalíf

Nú er minn að reyna að baða sig í drykkjarvatninu með tileyrandi skvettugangi. Kötturinn verður afar spenntur fyrir bægslaganginum en flýr undan vatnsgusunum. En málið er að ég verslaði þetta fína fuglabað í gær og setti við búrið. Tumi skoðaði það í krók og kring og reyndi að finn veikan hlekk á uppsetningunni - en datt ekki í hug að baða sig. Nú hamast hann við að reyna að troða sér í litlu vatnsskálina og er orðinn holdvotur og stofugólfið líka. Kötturinn er farinn.

Breytingar

Ég hafði ekki hugsað málið til enda. Gleymdi að þegar nýr einstaklingur kemur inn á heimilið þá breytist allt. Nú er komin lifandi vekjaraklukka í húsið og ekki lengur hægt að sofa frameftir. Tumi er farinn að dotta á prikinu um klukkan 8 á kvöldin og vaknar eins og hani klukkan 8 á morgnana - og þá vill hann félagsskap. Hann er strax farinn að reyna að flauta og segja "nú?" í spurnartón - það segi ég við hann þegar hann er að tuldra eitthvað við sjálfan sig. Eftir 14 ára sambúð með Flosa er okkar rútína orðin sjálfsögð - nú þurfum við bæði að endurskoða, hann er enn heillaður af fuglinum en reynir ekki að troða sér inn í búrið lengur.

Sótti greinar upp í Heiðmörk í gær - vildi bjóða honum upp á fjölbreytni því að þessum fuglum má ekki leiðast. Hann vill ekki sjá þær. Hann sýnir glöggt það sem hann vill og vill ekki - hann elskar ávexti - vínber, döðlur, banana, epli. Og sumt grænmeti, papriku og soðnar kartöflur. Og speltrúgbrauð er vinsælt. Grænt grænmeti lætur hann detta á botninn á búrinu. Og þegar ég bauð honum ferskt rósmarín, þá kom hann ekki nálægt því - sennilega allt of sterkt fyrir hann.

 Var líka búin að gleyma sóðaskapnum sem fylgir fuglum.   


Nýjir tímar

Það gerðist nokkuð óvænt í gær að ég er orðin eigandi að grænum páfagauk sem ég kalla Tuma þumal. Svona geta bestu áætlanir breyst án fyrirvara - reyndar var þetta búið að blunda í mér í nokkur ár en, hvenær er besti tíminn til að taka svona ákvarðanir?  Alla vega er spenningur í fjölskyldunni og nú ætla þau að streyma hingað í dag til að heilsa upp á Tuma. 

 Ég hafði mestar áhyggjur af kettinum Flosa, hann var reyndar ástæða þess að ég var búin að fresta þessu  - hvernig hann tæki því að fá fugl í húsið. Ég sá strax í búðinni að Tumi var rosalega kúl - hann skrækti ekki - flögraði ekki um - heldur reyndi strax að ná athygli minni með augnsambandi. Þegar heim kom var hann enga stund að ná jafnvægi eftir að ferðast um í litlum kassa - hann smakkaði matinn og tók við vínberi sem ég rétti honum. Flosi varð agndofa. Hann starði á fuglinn. Fljótlega fór hann að reka loppurnar inn um rimlana en Tumi lét sér ekki bregða. Hann bara reyndi að bíta í þessa loðnu loppu. Svo lagðist skottið óvart að rimlunum og Tumi beit í það - reyndar án þess að skaða köttinn. Hann sýnir enga hræðslu við köttinn. Nú ligg ég á netinu til að læra allt um Indian Ringneck páfagauka. Þeir eru greindir - ákveðnir og geta lært að tala. Það eru spennandi tímar framundan hér!     

Tumi út í fyrsta sinnFlosi dáleiddur

 


Orsök og afleiðing

Þetta kallast nú "instant Karma". Að slasast á auga við að kaupa sér og horfa á nektardans - gæti ekki verið nákvæmari afleiðing.  
mbl.is Krefst skaðabóta eftir kjöltudans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skall hurð nærri hælum

Svei mér þá stelpur - byggingakraninn sem hrundi á Manhattan í gær var staðsettur rétt hjá Pod hótelinu sem við gistum á fyrir 2 vikum síðan. Eitt af því sem mér kom á óvart á Manhattan er að það er enn verið að byggja ný háhýsi þar. Í mínum óuppllýsta huga var engin lóð eftir óbyggð. Þessar myndir eru teknar af þakinu á Pod hótelinu á 14 hæð.

VatnsturnNY 3

    


Tíbet!

Skelfilegar fréttir frá Tíbet. Fyllist óhugnaði að hugsa um refsingarnar sem nú munu ganga yfir Tíbeta. Hef haft áhuga á Tíbet í áratugi og frásagnir af hrottaskap kínverja í Tíbet eru óútskýranlegar. Nunnur sem hafa brotist yfir Himalayafjöllin til Indlands eftir að hafa verið árum saman í fangelsum með tilheyrandi pyntingum eingöngu vegna þess að þær vilja stunda sinn búddisma og vera Tíbetar. Frásagnir af tilraunum kínverja til að grafa undan menningu og tilveru tíbeta á allan hátt - þeir virðast ekki þola að þjóðareinkennin fái að njóta sín - meira að segja völdu þeir sinn eigin Lama til að reyna að grafa undan trúarbrögðunum. Og alþjóðasamfélagið stendur hjálparvana og horfir á og fjölmennir síðan á Ólympíuleikana.

The belief in a supernatural source of evil is not necessary; men alone are quite capable of every wickedness. Joseph Conrad (1857 - 1924)Under Western Eyes, 191 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband