Breytingar

Ég hafði ekki hugsað málið til enda. Gleymdi að þegar nýr einstaklingur kemur inn á heimilið þá breytist allt. Nú er komin lifandi vekjaraklukka í húsið og ekki lengur hægt að sofa frameftir. Tumi er farinn að dotta á prikinu um klukkan 8 á kvöldin og vaknar eins og hani klukkan 8 á morgnana - og þá vill hann félagsskap. Hann er strax farinn að reyna að flauta og segja "nú?" í spurnartón - það segi ég við hann þegar hann er að tuldra eitthvað við sjálfan sig. Eftir 14 ára sambúð með Flosa er okkar rútína orðin sjálfsögð - nú þurfum við bæði að endurskoða, hann er enn heillaður af fuglinum en reynir ekki að troða sér inn í búrið lengur.

Sótti greinar upp í Heiðmörk í gær - vildi bjóða honum upp á fjölbreytni því að þessum fuglum má ekki leiðast. Hann vill ekki sjá þær. Hann sýnir glöggt það sem hann vill og vill ekki - hann elskar ávexti - vínber, döðlur, banana, epli. Og sumt grænmeti, papriku og soðnar kartöflur. Og speltrúgbrauð er vinsælt. Grænt grænmeti lætur hann detta á botninn á búrinu. Og þegar ég bauð honum ferskt rósmarín, þá kom hann ekki nálægt því - sennilega allt of sterkt fyrir hann.

 Var líka búin að gleyma sóðaskapnum sem fylgir fuglum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband