Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Viðtal við borgarstjóra 1939
28.10.2007 | 17:16
Politiken 8 júní 1939
Borgarstjóri Reykjavíkur mun gera milljóna-samning.
Højgaard og Schultz mun hita upp alla Reykjavík með vatni úr heitum hverum, - upphitunin mun kosta 10 milljónir króna.
Stærsta framkvæmd gerð á Íslandi segir borgarstjóri Pétur Halldórsson.
Borgarstjóri Reykjavíkur Pétur Halldórsson kom í gærkvöld með lestinni frá Oslo og líktist fremur rólegum gráhærðum vísindamanni heldur en nútíma stjórnmálamanni þar sem hann kom gangandi eftir ganginum á lestarstöðinni.
En Pétur Halldórsson kemur til Kaupmannahafnar sem praktískur stjórnmálamaður af hæstu gráðu - hann hefur í fórum sínum leyfi bæjarins til að ganga frá milljónasamningi við fyrirtækið Højgaard og Schultz um að hvorki meira né minna en hita upp alla Reykjavík með heitu vatni úr hverum.
Kaldasti höfuðstaður veraldar hitaður með jarðvarma.
Í viðtalinu segir Borgarstjórinn; - Við höfum nú í áraraðir rætt fram og tilbaka um þessa upphitun á Reykjavík. Við erum allir sammála því að það er heimskulegt að nýta heita vatnið eingöngu til að þvo þvott og við höfum nú undanfarin ár borað óteljandi holur til að finna þá staði sem heita vatnið streymir líflegast fram. Þegar við byrjuðum að Reykjum, 16 km. frá Reykjavík, lánaðist okkur að skaffa 40 lítra af heitu vatni á sekúndu. Síðan höfum við borað 5000 metra samtals í 23 borholum, sú dýpsta var 500 metrar, og nú höfum við náð svo langt að við getum framleitt 210 lítra af 85 gráðu heitu vatni á sekúndu, það er 700,000 tonn af heitu vatni á ári. Til samanburðar notar Þýskaland aðeins 600,000 tonn af olíu á ári.
- Á að nota allt þetta heita vatn í Reykjavík?
- Já, allt saman. En þá höfum við líka eignast heitan bæ. Þá náum við þeim árangri að nyrsti - og kaldasti - höfuðstaður veraldar verði hitaður eingöngu með jarðvatni.
Við erum svo ung og fín á Íslandi
- Hvernig gengur svo þessi uppitun fyrir sig?
- Heita vatnið kemur frá jöklunum innan úr óbyggðum vesturlands og að Reykjum er því dælt í leiðslum til Reykjavíkur. Leiðslurnar eru 32.5 cm að þvermáli og einangrunin er svo góð að aðeins tapast 2 gráður af hita á þeim 16 km sem er til Reykjavíkur. Heita vatnið er síðan leitt úr leiðslunum í fimm stóra tanka sem standa á 10 m. háum súlum á hæðinni Öskjuhlíð sem stendur utan Reykjavíkur. Þaðan fellur vatnið með nægum þrýsingi til að ná til allra húsa í bænum.
- En krefst þetta ekki nýrra leiðslna í öll húsin?
Borgarstjórinn brosti og sagði; - Við erum með miðstöðvarhitun í 80% húsa í Reykjavík, við erum svo ung og ný og flott. En við gætum ekki farið í þessar hitunarframkvæmdir ef við ættum ekki þessi leiðslukerfi, þá væri þetta allt of dýrt fyrir okkur. Nú þegar er þetta verk stærsta framkvæmd sem Ísland hefur lagt í.
Hiti fyrir 10 milljónir.
- Hvað kostar það svo að hita Reykjavík með heitu vatni?
- Við reiknum með að það kosti 10 milljón íslenskra króna og Højgaard og Schultz hafa boðist til að útvega nauðsynlegt fjármagn til að kosta leiðslukerfið sem er um 6.8 milljónir danskra króna. Þetta lán greiðum við til baka á 8 árum sem samkvæmt okkar útreikningum verður með vöxtum 8.7 danskar milljónir. Það má vera að ekki allir Reykvíkingar verði komnir með heitt vatn og að hitaveitan verði ekki með rekstrarafgang fyrstu 3 árin til að dekka kostnaðinn við lánið, en ef svo fer hefur Handelsbanken í Kaupmannahöfn lofað að lána bæjarstjórninni allt að 800.000 kr.
- Þið sparið einnig kol frá Englandi.
- Það er ekki síst mikilvægt. Við reiknum með að komast hjá því að flytja inn 237,000 tonn af kolum á þessum átta árum. Þannig spörum við nokkuð meira en kostnað og vexti af láninu og þegar það er úr sögunni þá náum við sparnaði upp á hálfa aðra milljón króna á ári, það eru peningar sem munar um á þessum tímum.
- Hvað gerið þið við heita vatnið á sumrin?
- Þessi 700.000 tonn notum við sem sagt yfir veturinn. Segjum að það sé um 6 til 8 mánuðir þar sem vetur eru langir og strangir. En hvað gerum við síðan við heita vatnið á sumrin? Ja, það er vandamál sem er er í vinnslu. Við getum hugsað okkur að nýta það til að framleiða salt sem við höfum mikla þörf fyrir. Sjórinn okkar er óhemju saltríkur og við getum nýtt jarðvarmann til uppgufunar og eftir situr saltið. En þetta hefur ekki verið rannsakað nægilega, við höldum áfram hægt en örugglega.
- Þér gangið nú frá samningi við Høgaard og Schultz?
- Ég vænti þess og vona. Það á aðeins eftir að ganga frá einföldum smáatriðum.
- Hvenær hefst svo verkið?
- Um leið og samningurinn er undirritaður. Við viljum nýta eins mikið af þessu sumri og við mögulegt er og verkinu á að vera lokið árið 1941.
-
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Upphafið
28.10.2007 | 17:10
Í ljósi umræðunnar um OR og REI og það allt er hér innsýn í upphafið á Hitaveitu Reykjavíkur. Fréttir úr Politiken frá 1939 þegar afi minn, Pétur Halldórsson barðist fyrir því fyrir hönd borgarinnar að fá lán til að koma Hitaveitunni á fót.
Borgarstjórinn frá Reykjavík - draumur hans er nú orðinn að veruleika.
Þegar samningurinn á milli Reykjavíkurbæjar og verkfræðifyrirtækisins Hojgaard og Schultz var undirritaður í gær var einn maður sem var eins glaður og maður getur orðið þegar margra ára draumur verður að veruleika - sérstaklega þegar sá maður hefur fórnað miklum tíma og kröftum til að það geti orðið. Þetta var borgarstjóri Reykjavíkur, Pétur Halldórsson, mikill persónuleiki og er viðurkenndur mikilhæfur stjórnandi, og þar að auki glæsilegur maður með góða kímnigáfu og þægilegt blik í augum. Undanfarið hálft ár hefur hann átt í sársaukafullri sjúkralegu með mikilli þolinmæði en hann reis af sjúkrabeði fullur lífs- og starfskröftum til að ljúka við samninga um að hita Reykjavík upp með jarðvarma. Og það tókst til handa bænum hans og er fagur vitnisburður um hvað getur komið út úr góðri dansk-íslenskri samvinnu.
Politiken 16. júní 1939.
Samningurinn um jarðhita fyrir Reykjavík undirritaður.
Einstök framkvæmd hefst sem fyrst.
Samningurinn milli verkfræðifyritækisins Hojgaard & Schultz og Reykjavíkurbæjar um útfærslu á leiðslukerfi til flutnings á heitu vatni til Reykjavíkur frá jarðvarmasvæði var undirritaður í gær. Hin hátíðlega undirritun fór fram hjá Nimb, Knud Hojgaard, borgarstjóri Reykjavíkur Pétur Halldórsson og ríkisverkfræðingurinn Bjornsson undirrituðu samninginn.
Danska verkfræðifyrirtækið hefst nú handa við að útfæra verkið sem fyrst og stendur til að því verði lokið í lok árs 1940. Leiðslukerfið mun kosta 7 milljónir króna og ríkið hefur gefi leyfi til að verði sett upp útflutningskredit. Verkið verður unnið á reikning Reykjavíkurbæjar en íslenska ríkið tryggir lánið sem verður greitt til baka á átta árum.
Þegar þessu mikla verki lýkur, sem er einstakt í veröldinni, reiknar Ísland með að spara um 1 milljón krónur á ári í kolainnflutningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Plokkfiskur í Karabíska hafinu
26.10.2007 | 21:10
Skemmtileg saga. Þannig var að á afmælisdegi Sameinuðu þjóðanna í vikunni var haldin matarveisla í húsi SÞ á Barbados. Þar komu allir starfsmenn í vinnuna með einn rétt frá sínu landi. HF ákvað að útbúa plokkfisk. Eftir mikla rannsóknarvinnu á hvaða fiskitegund gæti nýst í réttinn - en þar er engan þorsk eða ýsu að fá - valdi hún það sem kallast "white fish" hjá heimamönnum. Það er skemmst frá því að segja að plokkfiskurinn fékk gríðarlega góða dóma - nú kunna allri starfsmenn SÞ á Barbados að segja "plokkfiskur" og kunna sennilega að elda hann líka. Upplagið kláraðist alveg. Það eru mörg andlitin á íslenskri útrás.
Sometimes you just have to take the leap, and build your wings on the way down.
Kobi Yamada
We should take care not to make the intellect our god; it has, of course, powerful muscles, but no personality.
Einstein
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrir Guðbjörgu
26.10.2007 | 15:43
Gáðu í myndaalbúmið. Þetta er alveg himneskur staður og ég vildi óska að svona aðstaða væri aðgengileg fyrir alla sem eru í leit að læknandi umhverfi - ekki aðeins fólki með húðsjúkdóma. Það er allt önnur tilfinning að sækja þennan stað heldur en stóra lónið - miklu rólegra, enginn hasar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hamingjuóskir
20.10.2007 | 20:00
Það gleður mig að Íslensku byggingarlistarverðlaunin 2007 komu í hlut VA arkitekta fyrir Lækningalind, Bláa lóninu. Ég hef notið þess að sækja þangað og þessi staður er algjörlega í fyrsta sæti hjá mér. Þarna mætast höfuðskepnurnar fjórar, vatn, loft, eldur og jörð í fullkomu jafnvægi og einfaldleika og af hlýst algjör sæla. Til hamingju!
(ætlaði að setja inn mynd af staðnum en það tekst ekki, einhverra hluta vegna)
Any intelligent fool can make things bigger, more complex, and more violent. It takes a touch of genius (and a lot of courage) to move in the opposite direction. Albert Einstein.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ofvirkt samfélag
13.10.2007 | 18:09
Á vefriti Egils Helgasonar veltir hann því upp hvort íslenska hagkerfið sé ofvirkt;
"Til að einfalda þetta aðeins má segja að spurningin sé hvort íslenska hagkerfið sé ofvirkt og verði það áfram. Það er að minnsta kosti vandséð að til sé 300 þúsund manna hópur fólks í heiminum sem hefur jafnmikil umsvif".
Þýsk vinkona mín sem hefur verið með annan fótinn hér í tuttugu ár og hefur fylgst með íslendingum og okkar samfélagi hlær mikið þegar ég er að segja henni fréttir héðan - hún mundi svara þessu játandi. Ekki aðeins hagkerfið heldur er allt tempóið hér með ólíkindum. Ég var að segja henni að leitin eftir smiði sé afar erfið - það séu allir smiðir svo uppteknir núna. Hún skellti uppúr og sagðist hafa heyrt þetta frá íslendingum í tuttugu ár.
Einkadóttirin HF, (sem er eina Háeffið sem ég á einhvern hlut í) og sem er að störfum á annarri lítilli eyju með svipuðum íbúafjölda, tekur líka undir þetta. Samanburðurinn á þessum eyjaskeggjum er áhugaverður - þar sem hún starfar gerist ekkert! (hennar reynsla). Það fer ómæld vinna í að virkja fólk og ýta á eftir verkefnum - vikum og mánuðum saman með endalausum samtölum, símtölum og tölvupóstum en engum árangi. Hér er virknin svo mikil og atburðarásin svo hröð að ef ég lít af fréttunum í nokkra daga er komið allt annað landslag og ég búin að missa af einhverju voðalega mikilvægu í samfélaginu.
Nothing is more common than for great thieves to ride in triumph when small ones are punished.
Seneca B.C. 3-65 A.D.
Democracy is a device that insures we shall be governed no better than we deserve.
George Bernard Shaw
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Endurtekið efni
8.10.2007 | 13:51
Þetta skrifaði ég á bloggið í apríl síðastliðnum - finnst ástæða til að birta það aftur.
Það eru til heimildir fyrir því að þegar Endeavour, skip James Cook, kom að ströndum Ástralíu árið 1770, þá tóku frumbyggjarnir ekki eftir skipinu. Það var ekki fyrr en skipið var lagst við akkeri og áhöfnin fór um borð í smábát sem var af svipaðri stærð og fiskibátar heimamanna að frumbyggjarnir tóku eftir þeim. Endeavour var 400 tonn, 33 metra langt, þriggja mastra seglskip. Það er erfitt að ímynda sér að enginn á ströndinni hafi tekið eftir því. En þetta fyrirbæri hefur verið staðfest með nýjum rannsóknum á skynjun mannsins. Við horfum ekki á heiminn með augunum. Hugurinn er eins og sía, hann ber saman mynstur og endurbyggir sjón okkar eftir þessum mynstrum. Þegar við stöndum frammi fyrir einhverju þar sem ekkert mynstur er fyrir hendi í fórum hugans þá gerist það oftast að hugurinn einfaldlega nemur ekki það sem er fyrir framan augun á okkur.
Þessi frásögn kom í huga minn þegar ég hugsaði um þann skilningsskort sem oft verður vart á milli kynjanna. Oft er eins og þeir sem ráðast með alefli á málaflutning feminista séu að lýsa stöðu sinni eins og frumbyggjarnir á ströndinni í árdaga. Þeir hreinlega sjá ekki ný form, því að í þeirra heimi er ekkert svona lagað til. En þá er bara að halda áfram að ræða saman - koma með sín sjónarmið og hlusta á málaflutning annarra. Á endanum fer risastórt skipið að birtast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Án fyrirsagnar
7.10.2007 | 21:29
Við systurnar komum stuttlega við á sýningu íslenskra hönnuða í Ráðhúsinu í gær á leið í afmæli og fundum þar skemmtilega gjöf. Alltaf finnst mér gaman að sjá allt það fallega sem er til sölu og sýnis eftir íslenska hönnuði. Troðfullt af fólki. Þar fann ég líka tösku sem mig langaði í - og fékk mér - úr fiskiroði. Strákarfan sem ég hef notað síðan ég fékk mér hana á Barbados í vor er eiginlega búin að sinna sínu og breytist nú í sundhallartösku.
Don't go around saying the world owes you a living. The world owes you nothing. It was here first.
Mark Twain
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Haustið
7.10.2007 | 19:23
Fallegur dagur í borginni í dag og ég fór út með myndavélina. Nú eru álftirnar og gæsirnar komnar í bæinn - alltaf skemmtilegt, nú er bara að bíða eftir Krumma en hann dregur það að koma úr sveitasælunni og á mölina langt fram á vetur. Hann er þó sá sem ég bíð spenntust eftir. Kynntist honum fyrst þegar ég var í sveit í Þorskafirðinum - þá tókst honum alltaf að ergja hundinn á bænum. Hundurinn lét sér aldri segjast - og lærði aldrei að láta Krumma ekki æsa sig upp. Hann gelti sig hásann og hljóp sig í spreng aftur og aftur. Krummi hafði augljóslega gaman af þessum leik, ekki var hægt að finna aðra skýringu á því athæfi hans að sitja á þúfu þar til hundurinn var alveg að ná honum, fljúga síðan yfir á þarnæstu þúfu krunkandi og þessu hélt hann áfram þangað til hann fékk leið á þessum leik. Kannski hafði hundurinn líka gaman að þessum leik - en ég held þó að hann hafi verið að sinna skyldustörfum en ekki að leika sér. Sveitahundar vita að þeir eiga mikilvægum verkum að sinna.
"Perfection is achieved, not when there is nothing left to add, but when there is nothing left to take away" Antoine de St. Exupery
"Reality is merely an illusion, albeit a very persistent one" Albert Einstein 1879-1955
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Snillingar fyrri tíma
7.10.2007 | 02:08
Rakst á síðu á netinu þar sem var samsafn af stuttum setningum sem snillingar fyrri ára og alda hafa látið út úr sér og einhver nútímasnillingur hefur safnað saman. Ég ætla að skjóta þeim hér inn af og til eftir því sem andinn kemur yfir mig. Nokkrir eru í sérlegu uppáhaldi hjá mér, Oskar Wilde, Bernhard Shaw, Einstein og Winston Churchill til dæmis. En einnig aðrir sem eru miklu eldri - um tvö þúsund ára gamlir.
Takið eftir að allt eru þetta karlar. Örfáar konur eru þó í hópnum. Enda voru konur fyrri tíma ekki endilega læsar eða skrifandi og engum fannst það þess virði að skrá hjá sér gullkornin þeirra.
"Some cause happiness wherever they go; others whenever they go".
Oscar Wilde
"The whole problem with the world is that fools and fanatics are always so certain of themselves, but wiser people so full of doubts".
Bertrand Russell
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)