Viðtal við borgarstjóra 1939

Politiken 8 júní 1939

Borgarstjóri Reykjavíkur mun gera milljóna-samning.

Højgaard og Schultz mun hita upp alla Reykjavík með vatni úr heitum hverum, - upphitunin mun kosta 10 milljónir króna.

Stærsta framkvæmd gerð á Íslandi segir borgarstjóri Pétur Halldórsson.

Borgarstjóri Reykjavíkur Pétur Halldórsson kom í gærkvöld með lestinni frá Oslo og líktist fremur rólegum gráhærðum vísindamanni heldur en nútíma stjórnmálamanni þar sem hann kom gangandi eftir ganginum á lestarstöðinni.
En Pétur Halldórsson kemur til Kaupmannahafnar sem praktískur stjórnmálamaður af hæstu gráðu - hann hefur í fórum sínum leyfi bæjarins til að ganga frá milljónasamningi við fyrirtækið Højgaard og Schultz um að hvorki meira né minna en hita upp alla Reykjavík með heitu vatni úr hverum.

Kaldasti höfuðstaður veraldar hitaður með jarðvarma.
Í viðtalinu segir Borgarstjórinn; - Við höfum nú í áraraðir rætt fram og tilbaka um þessa upphitun á Reykjavík. Við erum allir sammála því að það er heimskulegt að nýta heita vatnið eingöngu til að þvo þvott og við höfum nú undanfarin ár borað óteljandi holur til að finna þá staði sem heita vatnið streymir líflegast fram. Þegar við byrjuðum að Reykjum, 16 km. frá Reykjavík, lánaðist okkur að skaffa 40 lítra af heitu vatni á sekúndu. Síðan höfum við borað 5000 metra samtals í 23 borholum, sú dýpsta var 500 metrar, og nú höfum við náð svo langt að við getum framleitt 210 lítra af 85 gráðu heitu vatni á sekúndu, það er 700,000 tonn af heitu vatni á ári. Til samanburðar notar Þýskaland aðeins 600,000 tonn af olíu á ári.

- Á að nota allt þetta heita vatn í Reykjavík?

- Já, allt saman. En þá höfum við líka eignast heitan bæ. Þá náum við þeim árangri að nyrsti - og kaldasti - höfuðstaður veraldar verði hitaður eingöngu með jarðvatni.

Við erum svo ung og fín á Íslandi
- Hvernig gengur svo þessi uppitun fyrir sig?

- Heita vatnið kemur frá jöklunum innan úr óbyggðum vesturlands og að Reykjum er því dælt í leiðslum til Reykjavíkur. Leiðslurnar eru 32.5 cm að þvermáli og einangrunin er svo góð að aðeins tapast 2 gráður af hita á þeim 16 km sem er til Reykjavíkur. Heita vatnið er síðan leitt úr leiðslunum í fimm stóra tanka sem standa á 10 m. háum súlum á hæðinni Öskjuhlíð sem stendur utan Reykjavíkur. Þaðan fellur vatnið með nægum þrýsingi til að ná til allra húsa í bænum.

- En krefst þetta ekki nýrra leiðslna í öll húsin?

Borgarstjórinn brosti og sagði; - Við erum með miðstöðvarhitun í 80% húsa í Reykjavík, við erum svo ung og ný og flott. En við gætum ekki farið í þessar hitunarframkvæmdir ef við ættum ekki þessi leiðslukerfi, þá væri þetta allt of dýrt fyrir okkur. Nú þegar er þetta verk stærsta framkvæmd sem Ísland hefur lagt í.

Hiti fyrir 10 milljónir.

- Hvað kostar það svo að hita Reykjavík með heitu vatni?

- Við reiknum með að það kosti 10 milljón íslenskra króna og Højgaard og Schultz hafa boðist til að útvega nauðsynlegt fjármagn til að kosta leiðslukerfið sem er um 6.8 milljónir danskra króna. Þetta lán greiðum við til baka á 8 árum sem samkvæmt okkar útreikningum verður með vöxtum 8.7 danskar milljónir. Það má vera að ekki allir Reykvíkingar verði komnir með heitt vatn og að hitaveitan verði ekki með rekstrarafgang fyrstu 3 árin til að dekka kostnaðinn við lánið, en ef svo fer hefur Handelsbanken í Kaupmannahöfn lofað að lána bæjarstjórninni allt að 800.000 kr.

- Þið sparið einnig kol frá Englandi.

- Það er ekki síst mikilvægt. Við reiknum með að komast hjá því að flytja inn 237,000 tonn af kolum á þessum átta árum. Þannig spörum við nokkuð meira en kostnað og vexti af láninu og þegar það er úr sögunni þá náum við sparnaði upp á hálfa aðra milljón króna á ári, það eru peningar sem munar um á þessum tímum.

- Hvað gerið þið við heita vatnið á sumrin?

- Þessi 700.000 tonn notum við sem sagt yfir veturinn. Segjum að það sé um 6 til 8 mánuðir þar sem vetur eru langir og strangir. En hvað gerum við síðan við heita vatnið á sumrin? Ja, það er vandamál sem er er í vinnslu. Við getum hugsað okkur að nýta það til að framleiða salt sem við höfum mikla þörf fyrir. Sjórinn okkar er óhemju saltríkur og við getum nýtt jarðvarmann til uppgufunar og eftir situr saltið. En þetta hefur ekki verið rannsakað nægilega, við höldum áfram hægt en örugglega.

- Þér gangið nú frá samningi við Høgaard og Schultz?

- Ég vænti þess og vona. Það á aðeins eftir að ganga frá einföldum smáatriðum.

- Hvenær hefst svo verkið?

- Um leið og samningurinn er undirritaður. Við viljum nýta eins mikið af þessu sumri og við mögulegt er og verkinu á að vera lokið árið 1941.
-


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Álfhóll

Skemmtilegt Dóra.

Líka einkennileg söguleg tilviljun að við skulum halda til í Gasstöðvarstjórahúsinu frá því að borgarbúar höfðu hvorki rafmagn né hitaveitu, en sötsuðu á gasið.......

Bestu kv

Gj

Álfhóll, 29.10.2007 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband