Færsluflokkur: Bloggar
Lífið er gott
22.11.2008 | 12:47
Er lífið ekki skemmtilegt! Þennan nóvember - eða desember kaktus hef ég átt í mörg ár. Hann hefur aldrei blómstrað áður. Hann hefur aldrei gert neitt áður - bara hangið á horriminni. Í fyrra plantaði ég honum niður með tveimur Aloe Vera græðlingum sem ég tók traustataki í blómagarði á Barbados og smyglaði inn í landið. Fyrir tilviljun fór síðan blómakerið út í glugga í haust vegna plássleysis og í gær blasti svo við mér þessi fagra sjón.
Svo er það hann Tumi. Ég hef hlíft honum við myndatökum all lengi því að honum er uppsigað við flassið. Nú vildi ég mynda hann við leikgrindina sem honum tekst að útbía á tveimur tímum - þegar ég beindi myndavélinni að honum flaug hann á mig og beit í fingurinn. Skilaboðin voru skýr. Hann bítur annars aldrei. Þarna er hann að fara að taka flugið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Með brauki og bramli
21.11.2008 | 11:26
Þar sem ég sat og beið á dýralæknastofunni blasti þetta við mér:
Age is mind over matter. If you don´t mind - it doesn´t matter. Mark Twain.
En það verður að segjast að það verður erfiðara með degi hverjum að fylgjast með umræðunni í landinu. Sennilega er ég haldin "attention span deficiency syndrome" - er sem sagt alveg að missa úthaldið. Ástandið er vont og það mun versna, það er að verða klárt. Leitin að sökudólgum eflist - og mun ekki linna á næstunni. Leitin að týndu fjármunum útrásarinnar heldur áfram. Glittir í skuggalega rússneska vini að baki gulldrengjunum. Leitin að nýjum vinum í veröldinni er að hefjast. Nú er að verða til nýjir óvinir - inni í bönkunum standa lífverðir sem vernda bankastarfsmenn fyrir sauðsvörtum almúganum sem heimtar upplýsingar um peningana sína.
Upp úr þessari kaos mun rísa nútímalegt Ísland þar sem heilindi, jafnrétti og gagnsæi í samskiptum mun ríkja. Þar sem faglega er unnið í mikilvægum stofnunum. Gamla Ísland, með ættar, vinar og flokkstengsl í for- og bakgrunni er að liðast í sundur með brauki og bramli - lofum því að deyja drottni sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skil ekki eftirsjána
17.11.2008 | 21:16
Skil ekki þessa eftirsjá eftir formanni Framsóknarflokksins. Vona að hann sé fyrstur af mörgum sem taka pokann sinn. Les á bloggum hér að hann hafi verið svo skemmtilegur - en ég er ekki að greiða laun hans sem skemmtikrafts. Að það sé sjónarsviptir af honum - ég er ekki að greiða laun hans vegna útlitsins.
Það eru að renna upp nýjir tímar í þjóðlífinu - óhjákvæmilega. Og gamla flokkagengið verður að þekkja sinn vitjunartíma. Miklu frekar að kveðja með fullri reisn heldur en að flæmast á brott á hröðum flótta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dýralíf í miðbænum
17.11.2008 | 20:59
Í síðustu viku kom í ljós að Flosi minn, hinn rauði, er með ónýt nýru. Hann hefur smám saman verið að missa matarlystina og lífsgleðina og húkir helst og mókir. Eftir heimsókn til dýralæknis, lyfjagjöf og vökvun og nýtt, saltlaust,
rándýrt fæði, er hann heldur hressari - en hann á ekki langt eftir segir læknirinn. Flosi er á fimmtánda ári og það telst góður aldur fyrir miðbæjarkött.
Í dag er hann skárri en oft áður og sýnir það með því að hafa aðeins meiri áhuga á Tuma en venjulega. Tumi spígsporar á stofuborðinu og tekur lítil dansspor í kringum spegilinn sem stendur þar. Spegillinn er með tvær hliðar - önnur er stækkunarspegill. Tumi dansar frá einni hlið til annarar og þreytist seint á að dáðst að fuglinum fagra sem hann sér þar - ýmist litlum eða risastórum. Svo kyssir hann spegilmyndina af og til og gefur frá sér lítil hljóð. Hann er ofsalega hrifinn af fallegum eyrnalokkum - hann stal einum áðan og flaug með hann af stað - ég á eftir - hann sleppti honum á fluginu og lokkurinn hvarf niður stigann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útifundur númer tvö hjá mér
16.11.2008 | 00:23
Þessi var mun fjölmennari en sá fyrsti sem ég sótti. Nú er eins og þokunni sé að lyfta dálítið - línur að skýrast - sem sagt burt með gamla liðið úr stofnunum landsins. Kunningjapólitíkin er ekkert annað en spilling, en það verður flókið að raða upp nýju liði - það eru allir svo tengdir í þessu örríki. En það er ljóst að nýjir tímar gera kröfu um nýjan kven/mannafla - burtséð frá því að það verður að komast að því hver ber ábyrgð á hverju. Það mun hins vegar taka tíma - og við höfum ekki tíma. Og það verður að vera faglega fær kven/mannskapur sem tekur við - ekki flokkshollir jámenn/konur.
En að öðru. Mér sýnist að hamingjusamasti maður á jörðinni um þessar mundir sé Bush nokkur, fráfarandi forseti Bandaríkjanna. Loksins eygir hann þann tíma að hann getur snúið heim á búgarðinn sinn og haldið áfram að höggva í eldinn með kúrekahattinn sinn og í stígvélunum og skreppa síðan í golf með pabba. Þó að ég þurfi alltaf að setja á "mute" þegar honum bregður fyrir á skjánum því að ég þoli ekki að hlusta á hann - þá hefur mér alltaf fundist hann aðeins vera talsmaður aflanna sem á bak við hann bauka. Gott og vel - hann segist bara hlusta á rödd Guðs þegar hann er að taka ákvarðanir - en ég er viss um að raddir neo-con-anna slæðast með. Segir ekki einhversstaðar: maðurinn býr til þann guð sem hann þarf á að halda til að styða sinn málstað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allur sá fjöldi kvenna...
8.11.2008 | 19:42
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sambúð áfram eða ganga í hjónaband
7.11.2008 | 14:52
Sálarstríð þjóðarinnar um hvort eigi að ganga í Evrópusambandið má líkja við hvort við eigum að ganga alla leið - ætlum við að vera áfram í óvígðri sambúð með ES eða ganga í hjónaband með þeim réttindum og fórnum sem því fylgja. Ekki undarlegt að þetta sé mikið sálarstríð hjá þjóð sem er svo sem ekkert að kippa sér upp við að fólk búi saman undir alls konar formerkjum. En nú stöndum við sem sagt frammi fyrir þessari stóru ákvörðun. Hinn aðilinn er svo sem alveg til í þetta hjónaband, en við verðum að vera búin að kippa í lag margvíslegri óráðsíu og geggjuðu hegðun og vera tilbúin til að deila því dýrmætasta sem við eigum. Skiljanlega erum við á nálum. Hvað missum við - og hvað fáum við? Svipaður kvíði fer í gegnum þann sem stendur frammi fyrir því að ganga í hjónaband.
Erum við orðin nógu fullorðin til að taka þetta skref? Evra í stað krónu er ekki málið, sjálfri fyndist mér léttir í því að nota gjaldmiðil sem hefur eitthvað öryggi á bak við sig. Ég er ekki með neina tilfinningalega eftirsjá eftir okkar maníska/depressíva gjaldmiðli sem ýmist bólgnar út og þenur sig allan eða lyppast niður og er ekki mönnum sinnandi. Þar fyrir utan ber enginn virðingu fyrir krónunni lengur eftir síðustu útbrot, ég mun aldrei líta hana sömu augum aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bíddu við...
6.11.2008 | 22:37
Er ekki nýlega búið að flagga alþóðlegri skýrslu þess efnis að hér á landi sé einna minnst um spillingu á byggðu bóli? Nú heyrist þetta orð sífellt oftar um þá görninga sem ganga yfir okkur. Með hverjum deginum er vonlausara að gera sér grein fyrir því hvernig raunveruleikinn er. Það er einkennilegt að upplifa þegar sýndarveruleikinn sem okkur hefur verið gert að búa í hrynur saman á einum mánuði eða svo.
Fyrstu merkin um það sem koma skal kom inn um lúguna í dag - nú tilkynnir SPRON mér að frá og með 14 nóv. falli yfirdráttarheimildin niður. Nú er raunveruleikinn sem sagt að skella á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skrifað í febrúar 08
6.11.2008 | 16:57
Ég er eiginlega alveg hissa á að hafa verið að hugsa þetta í febrúar síðastliðnum:
Satt að segja fannst mér þessar fregnir af ofurútrásinni alltaf varhugaverðar með það í huga að þjóðarsálin virðist vera haldin sterkum maníu - depressívum einkennum. Það sem fer upp, það mun koma niður aftur með skelli. Nú er best að undirbúa sig undir skellinn.
"A banker is a fellow who lends you his umbrella when the sun is shining, but wants it back the minute it begins to rain."
Mark Twain (1835 - 1910)
Eftirfarandi er athyglisvert í ljósi þess sem er að gerast í Ameríku:
"I believe that banking institutions are more dangerous to our liberties than standing armies. If the American people ever allow private banks to control the issue of their currency, first by inflation, then by deflation, the banks and corporations that will grow up around [the banks] will deprive the people of all property until their children wake-up homeless on the continent their fathers conquered. The issuing power should be taken from the banks and restored to the people, to whom it properly belongs."
Thomas Jefferson (1743 - 1826), Letter to the Secretary of the Treasury Albert Gallatin (1802)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Amatörar
5.11.2008 | 19:36
Alþingi eins og búðakassi já - þetta segja alþingismenn í dag. Bara verið að afgreiða málin - en hvers vegna?
Samkvæmt fréttum í kvöld er sem ungu tuddunum hafi verið hleypt út úr fjósinu hér um árið áður en girðingin var reist. Þeir hlupu út um víðan völl og óðu yfir allt sem fyrir þeim varð. Ekki nóg með það - kúabændur sátu bara og horfðu á - þeim datt ekki í hug að útbúa viðeigandi ramma og girðingar utan um þessa kálfa sem nutu frelsisins óheftir. Enn og aftur kemur í ljós hversu viðeigandi aðilar voru barnalegir og miklir amatörar þegar á reyndi. Nú eru sem sagt uppi efasemdir um að það séu til viðeigandi regluverk til að vinna þessi mál almennilega.
Ætli þessi Hrunadans verði ekki afskrifaður með "úbbs - æææ - leiðinlegt að þetta fór svona illa".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)