Nýjir tímar

Það gerðist nokkuð óvænt í gær að ég er orðin eigandi að grænum páfagauk sem ég kalla Tuma þumal. Svona geta bestu áætlanir breyst án fyrirvara - reyndar var þetta búið að blunda í mér í nokkur ár en, hvenær er besti tíminn til að taka svona ákvarðanir?  Alla vega er spenningur í fjölskyldunni og nú ætla þau að streyma hingað í dag til að heilsa upp á Tuma. 

 Ég hafði mestar áhyggjur af kettinum Flosa, hann var reyndar ástæða þess að ég var búin að fresta þessu  - hvernig hann tæki því að fá fugl í húsið. Ég sá strax í búðinni að Tumi var rosalega kúl - hann skrækti ekki - flögraði ekki um - heldur reyndi strax að ná athygli minni með augnsambandi. Þegar heim kom var hann enga stund að ná jafnvægi eftir að ferðast um í litlum kassa - hann smakkaði matinn og tók við vínberi sem ég rétti honum. Flosi varð agndofa. Hann starði á fuglinn. Fljótlega fór hann að reka loppurnar inn um rimlana en Tumi lét sér ekki bregða. Hann bara reyndi að bíta í þessa loðnu loppu. Svo lagðist skottið óvart að rimlunum og Tumi beit í það - reyndar án þess að skaða köttinn. Hann sýnir enga hræðslu við köttinn. Nú ligg ég á netinu til að læra allt um Indian Ringneck páfagauka. Þeir eru greindir - ákveðnir og geta lært að tala. Það eru spennandi tímar framundan hér!     

Tumi út í fyrsta sinnFlosi dáleiddur

 


Orsök og afleiðing

Þetta kallast nú "instant Karma". Að slasast á auga við að kaupa sér og horfa á nektardans - gæti ekki verið nákvæmari afleiðing.  
mbl.is Krefst skaðabóta eftir kjöltudans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skall hurð nærri hælum

Svei mér þá stelpur - byggingakraninn sem hrundi á Manhattan í gær var staðsettur rétt hjá Pod hótelinu sem við gistum á fyrir 2 vikum síðan. Eitt af því sem mér kom á óvart á Manhattan er að það er enn verið að byggja ný háhýsi þar. Í mínum óuppllýsta huga var engin lóð eftir óbyggð. Þessar myndir eru teknar af þakinu á Pod hótelinu á 14 hæð.

VatnsturnNY 3

    


Tíbet!

Skelfilegar fréttir frá Tíbet. Fyllist óhugnaði að hugsa um refsingarnar sem nú munu ganga yfir Tíbeta. Hef haft áhuga á Tíbet í áratugi og frásagnir af hrottaskap kínverja í Tíbet eru óútskýranlegar. Nunnur sem hafa brotist yfir Himalayafjöllin til Indlands eftir að hafa verið árum saman í fangelsum með tilheyrandi pyntingum eingöngu vegna þess að þær vilja stunda sinn búddisma og vera Tíbetar. Frásagnir af tilraunum kínverja til að grafa undan menningu og tilveru tíbeta á allan hátt - þeir virðast ekki þola að þjóðareinkennin fái að njóta sín - meira að segja völdu þeir sinn eigin Lama til að reyna að grafa undan trúarbrögðunum. Og alþjóðasamfélagið stendur hjálparvana og horfir á og fjölmennir síðan á Ólympíuleikana.

The belief in a supernatural source of evil is not necessary; men alone are quite capable of every wickedness. Joseph Conrad (1857 - 1924)Under Western Eyes, 191 


Er ótti sama og virðing?

„Gamla hugmyndin er sú að þögn og fjarlægð skapi traust og virðingu. Þetta er haft eftir Jóni Steinar Gunnlaugssyni í Fréttablaðinu.  Þögn og fjarlægð í mannlegum samskiptum lýsir verulega trufluðum samskiptum og er þekkt kúgunaraðferð og ýtir undir ótta og fantasíur en ekki gegnæi og skilningi. Þögnin og fjarlægðin lýsir fyrirlitningu þess sem telur sig vera hafinn upp yfir aðra. Þessi aðferð er notuð til að halda fólki hræddu og óöruggu, og þannig er auðveldast að stjórna því. Það rifjast upp það sem maður nokkur lét út úr sér varðandi barnauppeldi, að best væri að halda krökkunum hræddum við sig - það tryggir virðingu þeirra. Ég held að þessi viðhorf séu að einhverju leita komin úr trúarbrögðunum - beinlínis að fólk beri óttablandna virðingu fyrir guðum sínum. Það flyst síðan yfir á barnauppeldi og inn í stofnanir samfélaganna.

Ef ég ber virðingu fyrir einhverjum þá hefur sá hinn sami verðskuldað hana með gerðum sínum. En ef ég er hrædd við einhvern - er það vegna þess að ég hef ástæðu til að halda að sá hinn sami vilji mér ekkert gott. Reginmunur á þessu.

Oppression can only survive through silence.Carmen de Monteflores 

Silence is the most perfect expression of scorn. George Bernard Shaw (1856 - 1950) 

 

 

 


New York

Hilda og Dóra í New YorkNew York nótt

Lentum í Keflavík í morgun eftir vikudvöl í New York, allur hópurinn. Þetta var mikil upplifun. Undarlegt að koma til þessarar borgar i fyrsta sinn sem hefur leikið svo stórt hlutverk í huga manns. Hún er endalaust stór í sniðum og stórbrotin. Bygging Sameinuðu þjóðanna var yfirþyrmandi - þar er hægt að ganga endalaust um gangana og heyra og sjá fólk frá öllum heimshornum. Ég er ein af þeim sem ólst upp við að bera mikla virðingu fyrir og hafa miklar væntingar til SÞ - og ég hef enn þessa trú. Hugmyndin er svo stórfengleg. Húsið sjálft er barn síns tíma og er orðið snjáð og þreytt en samt dásamlegt.

 

Svo var svo gaman hvað tókst vel til með framlag okkar - salurinn lá í hlátri. Kannski einkennilegt þegar haft er í huga alvarleika verkefna okkar. En þessi þversögn er þó sönn.

 

Svo var það Metropolitan safnið - Central Park - Spamalot söngleikurinn - þakgarðurinn á hótelinu okkar, á 14 hæð, (myndir seinna) en samt vorum við eins og við rætur risabygginga á allar hliðar. Heimsókn til Ground Zero var áhrifamikil, sérstaklega að koma í litlu kirkjuna sem varð miðstöð björgunarliða og sjálfboðaliða. Síðast en ekki síst - the New Yorkers, fólkið sjálft sem var elskulegt og blátt áfram. Nema stöku óþolinmóður leigubílstjóri sem fannst við ekki vera nógu skýrar og fljótar að hugsa stundum.     


Fyrirsjáanleg

Hlustaði á Andrés Magnússon lækni og fleiri í Silfrinu áðan. Nú er annað hljóð í strokknum heldur en fyrir hálfu ári síðan. Þá var íslendingum allt mögulegt - allir að verða millar og allt á uppleið. Nú er fiskurinn farinn og bankarnir kannski líka og við horfumst í augu við þá okurvexti sem við búum við. Er þetta ekki alltaf sama sagan hjá okkur - annað hvort eru þvílík uppgrip í þessu þjóðfélagi eða allt er á leiðinni á hausinn.

Satt að segja fannst mér þessar fregnir af ofurútrásinni alltaf varhugaverðar með það í huga að þjóðarsálin virðist vera haldin sterkum maníu - depressívum einkennum. Það sem fer upp, það mun koma niður aftur með skelli. Nú er best að undirbúa sig undir skellinn.

"A banker is a fellow who lends you his umbrella when the sun is shining, but wants it back the minute it begins to rain."
Mark Twain (1835 - 1910)

Eftirfarandi er athyglisvert í ljósi þess sem er að gerast í Ameríku:
"I believe that banking institutions are more dangerous to our liberties than standing armies. If the American people ever allow private banks to control the issue of their currency, first by inflation, then by deflation, the banks and corporations that will grow up around [the banks] will deprive the people of all property until their children wake-up homeless on the continent their fathers conquered. The issuing power should be taken from the banks and restored to the people, to whom it properly belongs."
Thomas Jefferson (1743 - 1826), Letter to the Secretary of the Treasury Albert Gallatin (1802)


Á ferð og flugi

Það er skammt stórra högga á milli þykir mér. Hef komið einu sinni til Bandaríkjanna, það var árið 1979 held ég - þá var ekið frá Chicago til St. Louis og tilbaka með viðkomu á mörgum mótelum sem voru alveg eins og þau eru í bíómyndunum. Það var reyndar eins og að vera stödd í bíómynd þetta ferðalag. En nú skal haldið til BNA aftur á mánudaginn - fyrsta sinn til New York, það verður örugglega ógleymanlegt af mörgum ástæðum. HF kemur frá Barbados til að vera með okkur. Síðan verður aftur haldið til BNA í apríl, að hitta góðar vinkonur og halda upp á aprílafmæli. Þá verður ferðinni heitið til Washington DC og North Carolina m.a.

En þetta mun verða ár ferðalaga - var að koma frá Berlín og Vín fyrir viku síðan. Sat stóra Sameinuðu þjóða ráðstefnu um mansal sem var nokkuð yfirþyrmandi. En líka margt skemmtilegt sem ég kom auga á. Á lokadeginum voru allir samankomnir í gríðarlega stórum sal - allir fulltrúarnir sátu fyrir miðju en félagasamtökin sátu til hliðar. Ég sat út við ganginn og hinum megin sátu tveir fulltrúar Úkraínu. Ég tók eftir því að eldri fulltrúinn, gráhærður miðaldra maður, var stöðugt með gemsann á lofti og talaði látlaust og ungi maðurinn var stöðugt að koma og fara. Smám saman magnaðist spennan hjá þeim og ég var farin að ímynda mér að nú væri byltingin hafin í Úkraínu. En svo kom í ljós að spennan var vegna þess að lokaatriði ráðstefnunnar var Ruslana, söngkonan Úkraínska, sem söng nokkur lög og dansaði með sínum dansflokki. Fljótlega fóru aldraðir fulltrúar að laumast úr salnum - ég ímynda mér að hávaðinn hafi haft eitthvað að segja - en Úkraínumennirni föguðu sinni konu með miklu stolti - og færðu henni risa blómvönd.

Svo var það Berlinalen kvikmyndahátíðin. Þar sáum við tvær myndir, eins ólíkar og hægt er að hugsa sér. Fyrst indverska mynd sem var með þýskum texta. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sit í þýsku bíói og skil ekki orð af því sem um er að ræða. Myndin heitir Paruthiveeran. Hún er ekki Bollywoodmynd. Mjög ögrandi og óhætt að mæla með henni. Hin myndin var um Berlínarfílharmóníuna og ferð hennr um Asíu. Enginn enskur texti - og þýskan mín er sama sem engin. Síðan fórum við á opinbert safn til að skoða ítölsk listaverk frá miðöldum - allur texti á þýsku.


Mannréttindi eru ekki sjálfsögð

Nú þrasa þeir í Kastljósinu um niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi kvótakerfið. Það er komið í ljós að tilfinningar og skoðanir þorra þjóðarinnar þess eðlis að kvótakerfið er óréttlátt var og er rétt. Mikill vandi að breyta þessu núna. Svona er hægt að glutra niður mannréttindum eins og hendi sé veifað.

Þetta er áminning um að mannréttindi eru viðkvæm og eru aldrei varanlega tryggð. Sviftingar í pólitík eða samfélaginu geta á skömmum tíma kollvarpað mannréttindum sem talin voru sjálfsögð. Konur um allan heim þekkja þetta vel. Stríð er auglósasta fyrirbærið sem ógna mannréttindum kvenna. Á einni nóttu verða þær réttlausar og fórnarlömb ofbeldis á hrikalegan hátt. Og það tekur miklu lengri tíma að endurheimta rétt sinn heldur en að missa hann.

Every decent man is ashamed of the government he lives under.
H. L. Mencken (1880 - 1956)

I believe that all government is evil, and that trying to improve it is largely a waste of time.
H. L. Mencken (1880 - 1956


Ábyrgðin endalausa

Alveg er þetta með ólíkindum. Sá auglýsingu á Sky News rétt í þessu. Þar er verið að vara við því að tala í síma undir stýri. En auglýsingin er þannig  að hann er í bílnum að keyra - hún hringir í hann og spyr "hvernig gekk elskan" - í því lendir hann í árekstri. Á meðan hún er að átta sig á því hvað hefur gerst segir karlmannsrödd "svona gerist þegar þú hringir í hann á meðan hann er að keyra"!  Sem sagt það er á hennar ábyrgð að að hann lendir í árekstri. Hún á sennilega að eiga að hafa séð í gegnum holt og hæðir - það er ekki ætlast til þess að hann hafi rænu á að sleppa því að svara.    

"Sometimes I think the surest sign that intelligent life exists elsewhere in the universe is that none of it has tried to contact us.

Bill Watterson 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband