Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Paparassabögg

FlosiFlosiFlosi

Kötturinn Flosi breytti út af vana sínum í gær - í stað þess að vilja helst ekki vera úti lengur en í hálftíma í senn, var hann fjarverandi fram á nótt. Ég margkallaði á hann af tröppunum, hafði dálitlar áhyggjur af þessari breyttu hegðun þar sem minn er orðinn roskinn. En svo kom hann loksins, óvenju uppveðraður. Hef ekki hugmynd um hvaða ævintýrum hann lenti í. Svona breytingar vekja mann upp af vananum og í dag tók ég fram myndavélina til að festa hann á mynd þar sem hann svaf sem fastast í stólnum sem við þykjumst bæði eiga tilkall til. Flosi vaknaði strax þó að ég hafi læðst að honum og hann brást við eins og hinar stjörnurnar þegar paparassarnir eru að bögga þær - kvartaði og lét sig hverfa.


Leitað lausna.

Steinasafnið mitt er í mikilli vanrækslu. Satt að segja hef ég ekki haft hugmynd um hvað ég ætti að gera við það. Mér finnst gaman að taka fallega smásteina með mér heim þegar ég ferðast erlendis og innanlands. Ég á bleikan og grænan stein frá Iona við Skotlandsstrendur - og Djúpalónsperlu frá Snæfellsnesi. Þakbút úr kirkjurústum frá þáverandi Austur Þýskalandi, en þar var ég á ferð stuttu eftir fall múrsins og óvenjulegan stein frá Akureyri. Ég hef stundum stungið nokkrum steinum ofan í blómapottana - finn þá síðan aftur þegar ég skipti um mold eftir dúk og disk. Ég hef sett þá fallegustu í glært glerílát og fyllt með vatni og dálitlu áfengi til að það fúlni ekki strax- en það er ekki lengi að verða subbulegt. En svo fékk ég hugljómun - ég sé fyrir mér svona setjarahillu með mörgum litlum hólfum sem var mikið í tísku fyrir nokkru. Vandinn er að ég hef ekki hugmynd um hvar svoleiðis hillur fást. Veit það einhver sem heimsækir bloggið mitt? Kannski verð ég að smíða hana.

Auglýsingin umrædda

Var að skoða nýju Síma auglýsinguna. Fyrst slær mig hversu gríðarlegt fjármagn fer í þetta - þetta er dýr auglýsing. Þetta er eins og mini - bíómynd með lélegu tali.

Svo er mér hugleikið hversu mjög auglýsingin hefur sært þá sem hafa sterka Kristna trú - talaði við eina manneskju sem er særð vegna niðurlægjandi meðferðar á hennar helgustu málum.

Svona auglýsing verður aðeins til í þjóðfélagi sem er nógu sjálfsöruggt til að geta ekki ímyndað sér að þurfa á guðlegum styrk að halda, þjóðfélagi sem hefur óbilandi trú á því að geta bjargað sér sjálft undir öllum kringumstæðum. Ríku þjóðfélagi þar sem er ekkert stríð eða náttúruhamfarir hafa dunið yfir í nokkur ár og þar sem yfirstandandi loftslagsbreytingar lofa bara góðu. Og í þjóðfélagi þar sem forystumenn þjóðarinnar þurfa ekki að flagga trú sinni til að vera kosnir eða valdir til ábyrgðar.


Hvers vegna hjónabönd?

Ég átti samtal við unga manneskju nýlega og talið barst að hjónaböndum almennt. Hvers vegna hjónabönd? Hvers vegna hjónaband konu og karls. Hvers vegna "má" fólk ekki bindast tilfinninga - og efnahagslegum böndum eins og þeim sýnist? Af hverju að bendla Guði við þetta allt saman?

Ef ég hefði fæðst kona í Himalaiafjöllum væri alveg líklegt að ég ætti tvo eða þrjá bræður sem eiginmenn - þar er lífsbaráttan hörð og veitir ekki af fleiri en einum karli til að lifa af og koma börnunum á legg. Kannski er líka skortur á stúlkubörnum þar eins og er að verða í Kína. Víða er fjölkvæni líka eðlilegur hlutur sem á líka rætur í þeirri praktísku þörf að sjá sér farborða. Kemur ekki Guði eða guðum við. Þar sem engar samfélagsstofnanir eru þar finnur fólk leiðir til að komast af.

Málið er að hjónaband konu og karls er auðveldari eining fyrir stofnanir samfélagsins, sérstaklega kirkjunnar hér áður fyrr, til að henda reiður á eignum, sköttum og skyldum þegnanna. Kirkjan hefur verið órofin hluti af ríkinu svo lengi að við munum ekki að það eru margar leiðir til að lifa lífinu - kannski lifi ég það að sjá fjölkvæni og fjölgiftingar. Ég styð það að rjúfa alveg tengsl ríkis og kirkju. Það mun stuðla að frjálsari og víðsýnni hugsunargangi komandi kynslóða. Aðalatriði er að búa fólki, og sérstaklega börnum, ástríkt og uppbyggilegt umhverfi til að búa í.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband