Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Prinsipp eða sérviska

Ég átti leið hjá pósthúsinu mínu fyrir helgina og skrapp inn til að spyrjast fyrir um svona miða á póstkassa til að koma skilaboðum til þeirra sem bera út að viðkomandi vilji ekki fríblöð og auglýsingar. Mundi nefnilega að einu sinni fékk ég mér svona miða sem máðist fljótlega af og ég reyndar búin að skipta um póstkassa og var búin að steingleyma þessu. Hugsaði mér gott til glóðarinnar - nú mundi ég leysa málið. Það rifjaðist líka upp fyrir mér hvað ég varð ergileg - ég varð að borga fyrir þennan miðasnepil. En nei - nú var mér sagt að þessir miðar væru ekki lengur til. Af hverju? Ja - það voru ekki allir sáttir við það sem stóð á þeim. Hvað var það - og hverjir voru ósáttir? Mmmm - veit ekki, var svarið á pósthúsinu. Undarlegt.

Þessi árátta mín - sem ég get alveg séð að gengur soldið langt - er angi af öðru stærra máli í mínu fari. Skaphöfn mín gerir mér ókleyft að láta ráðskast með mig. (Nú brosa félagar mínir, fjölskylda og vinkonur sennilega í kampinn). Sem krakki varð ég að láta ýmislegt yfir mig ganga - eins og gengur og gerist í fjölskyldum. Það rifjast til dæmis upp boð hjá gömlum frænkum og frændum þar sem leiðindin ætluðu mig hreint að drepa - ég skildi aldrei af hverju ég fékk ekki að vera heima og lesa, eða úti að leika. Skil ekki enn. Fjölskyldan mín var langt á undan þeirri tísku að æða upp á hálendið í öllum veðrum á sumrin með nesti og tjald. Hljómar spennandi - en - ég var ekki spurð hvort ég vildi fara. Þannig urðu til löööööng fýluköst í aftursætinu - í sígarettureyknum og moldviðrinu á ómalbikuðum vegum landsins.

Alla vega hefur margháttuð reynsla í lífinu orðið til þess að þegar á að "láta" mig gera eitthvað þá verð ég öfugsnúin eins og skot - og það getur verið þrautum þyngra að rétta mig af. Rifjast upp þegar Davíð og Kári fundu upp þá snilldarhugmynd um árið að taka lífsýni allra landsmanna traustataki af því að það væri svo gaman að sjá hvað kæmi í ljós. Þeir ætluðu ekki einu sinni að spyrja um leyfi - það var ekki fyrri en heilmikil rekistefna hafði verið höfð í frammi að þeir neyddust til að útbúa pappír þar sem þeir fýlupúkar sem vildu ekki fara í gagnagrunninn máttu svo sem skrá sig úr honum - sem ég gerði um hæl. Ég var ekki spurð. Ef ég hefði verið spurð á eðlilegan hátt - þá má vera að ég hefði valið að taka þátt. En kannski ekki, sennilega ekki.


Fuglalíf

Mikið var þetta skemmtilegur dagur. Við systurnar vorum á vappi í Gróttu og við Seltjörnina í allan eftirmiðdag í blíðunni. Við áttuðum okkur á því þegar fór að flæða að og fórum í land - en ungt par var ekki með á nótunum. Okkur leist ekki á blikuna þegar við sáum að þau urðu að vaða upp í mitti til að komast í land - en það tókst.

Svo gaman að fylgjast með fuglalífinu - mávinum sem lék sér að því að lenda í miðri kríuþvögunni til þess eins að vera flæmdur í burtu af um 50 kríum. Þær steyptu sér yfir hann og eltu hann út á haf. En æðarkolla með unga fékk að vera á meðal þeirra á skerinu í friði - hún vappaði um og ýtti kríunum bara til hliðar til að tryggja sér besta hvíldarstaðinn. Litlu vargarnir létu sér það vel líka. Sandlóa lék sig vængbrotna og auma til að freista þess að draga athygli okkar frá eggjum sínum. Hún hafði verpt tveimur eggjum beint á sandinn í alfaraleið - hún hlýtur að eyða mestum parti dagsins við að haltra aumkunarlega um fjöruna því að það var töluverð traffík í góða veðrinu. Fór heim með fangið fullt af melgresi - glæsileg planta.


Sein að átta mig

Þar sem ég stóð á svölunum og var að snyrta melgresið sem ég tíndi á Seltjarnarnesinu í dag, flaug ein af einkaþotunum yfir kollinn á mér - ein af mörgum í kvöld. Ég er þannig staðsett að ég sé undir kviðinn á þeim þegar þær renna sér yfir Tjörnina og niður á flugbrautina. Alltaf soldið glannalegt. Auðvitað - sagði ég upphátt við sjálfa mig - þess vegna er svo mikil andstaða við að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Ég var sem sagt að átta mig á því fyrst í dag að hagsmunir nýríku einkaþotueigendanna hafa svona mikil áhrif á ákvarðanatökur. Barnalegt af mér. Ég get svo sem alveg skilið að ef starfið krefst þess að forstjórinn þarf að vera alla vikuna erlendis að stýra stórfyrirtækinu þá er það freistandi að geta skroppið heim á þotunni til Reykjavíkur á laugardagskvöldi og lent við bæjardyrnar heima hjá sér. Spurningin er hvort þau sjónarmið eiga að vega þyngra en sjónarmið heildarinnar. Landsbyggðin hefur síðan skiljanlegra hagsmuna að gæta varðandi flugvöllinn - en við erum flestöll komin á jeppa til að þeysast um landið þvert og endilangt allan ársins hring.

Sumarfrí heima.

Þetta er nú meiri blíðan dag eftir dag. Eiginlega of heitt hérna til að stunda DIY sem ég var þó búin að ákveða að eyða sumarfríinu í. Skrúfa upp rimlagardínur í eldhúsgluggann og flísaleggja yfir eldhúsbekknum. Á eftir að fúga en það mun gerast á morgun. Afar góð tilfinning að klára verk sem hafa beðið lengi. Gott að hafa svona marga samfellda daga til að undirbúa og framkvæma. Tek eftir því að eftir því sem aldurinn færist yfir minnkar getan til að hendast í verkin. Er að þróa með mér "one track mind" - og ræð illa við að takast á við margt í einu.

Hafa fleiri tekið eftir því að miklu færri býflugur eru á ferðinni þetta sumar en áður? Ég er vön að sjá þessar elskur á svölunum og keypti sumarblóm sem ég veit að þeim líkar sérlega vel - en hef bara séð eina fram til þessa. Undarlegt. Og kirsuberjatréið á svölunum dó - sennilega hef ég trassað að vökva það í þessum þurrki.

Fréttablaðið kom aftur í póstkassann í dag - eftir um tveggja vikna hlé - hvað er það? Bara spurningar - engin svör.


Rennandi vatn

Skrítið - hugsaði ég þar sem ég lá í pottinum í sundhöllinni og skemmti mér við að búa til verkefni fyrir haustið. Ég fæ mínar bestu hugmyndir í eða við rennandi vatn. Þetta er alþekkt og viðurkennt í mínum vinkvennahópi þegar einhver okkar kemur af klósettinu og segir - um leið og hún klárar að girða sig - "stelpur, mér datt í hug...". Það er eitthvað við rennandi vatn sem setur hugflæðið í gang. Og þá skiptir ekki máli hvort það er á klósettinu - í laugunum eða við hátíðlega fossa úti í náttúrunni. Lykillinn er rennandi vatn.

Mannkynssaga eða karlkynssaga.

Lestur á bloggi Egils Helgasonar á eyjunni.is fékk mig til að hugsa. Þar eru hugmyndir um einhverja myndlistasýningu sem ég nenni ekki að setja mig nánar inn í. Það sem vakti athygli mína var að þarna voru talin upp tíu myndefni úr íslandssögunni - allt karlkyns myndefni. Þetta rifjaði upp skólagönguna og sunnudagaskólann og allt þetta úr æskunni - svei mér þá - það voru engar kvenkynsfyrirmyndir þar. Engar!

Í sunnudagaskólanum - og seinna í kirkjunni sem ég hef sagt mig úr fyrir mörgum árum - fjallaði allt um feður og syni og heilaga anda. Ekki nokkur kvenfyrirmynd sem hægt var að líta upp til. Reyndi að kynna mér Kvennakirkjuna - en komst að því að fyrir mig er hún í raun "God in drag". Fyrir langalöngu var ég í grunnskóla - þar snerist öll mannkynssagan um afrek og ofbeldi karla - ekkert nýtt að gerast, sagan er enn karlkynssaga um ofbeldi. Enda er það svo að sá sem vinnur skrifar söguna.

Í dag eru fjölbreytilegri fyrirmyndir til fyrir ungar kynslóðir - en mikið er það áríðandi að vera vakandi og ögrandi og detta ekki í þennan gamla pytt sem Egill situr fastur í. Tek undir með Ingibjörgu Sólrúnu þegar hún sagði um daginn á 19 júní hjá Kvenréttindafélaginu að það sem er mikilvægast er að konur hætti að vera hlýðnar við patríarkíð og verði óhlýðnar.


Frá fyrstu hendi

Hér er sagan sögð í fyrstu persónu á bloggi Brynju:

Hún uppáhalds frænkan mín Hildur Fjóla býr á Barbados þessa stundina að vinna fyrir sameinuðu þjóðirnar og ég sé hana núna svona 1-2 á ári, hundfúlt en hún er duglegasta og skýrasta manneskja í heimi by the way. Og var í new york alla síðustu viku á námskeiði, og við ætluðum að reyna að hittast áður en hún færi. Hún hringir í mig í gær og spyr hvort við ættum ekki að hittast um kvöldið, ég auðvitað til í það og við ákveðum að fara eitthvað út því búum báðar í east village. Hérna er bara símtalið, og þetta er ekki djók!
Hilda: Hvar býrðu í east village?
Brynja: Á east 5th street
H: Ha, hvar er það?
B: east 5th, það er við hliðina á löggustöðinni. Segðu vini þínum það þá veit hann örugglega nákvæmlega hvar það er.
H, farin að hlæja: Ég er líka við hliðina á löggustöðinni!
B: Cool! Ertu hinum megin við hana!?
H: Númer hvað býrðu?
B: 315, en þú?
H svarar ekki því hún hlær svo mikið
B: Hilda?
H: Ég trúi þessu ekki, við búum í sama húsi!
nú vorum við eiginlega farnar að hlæja svo mikið að við skildum varla hvor aðra.
B: Nei kommon, í hvaða íbúð ertu?
H: 3B! En þú?
B: Við erum við hliðina á þér í 3E!

Svo opnuðum við frænkurnar bara hurðirnar okkar og mættum hvor annari að deyja úr hlátri á ganginum! Þetta er það fáránlegasta sem ég hef lent í. Pældu í því ef við hefðum bara rekist á hvor aðra í lyftunni eða á ganginum... ég hefði fengið hjartaáfall! HAHA. Svona skeður á íslandi, ekki í new york!! Við vitum líka að við eigum eftir að þurfa að segja þessa sögu í öllum fjölskylduboðum það sem eftir er.. hehehe... samt erum við bara 12, pabbafjölskylda. Það gerir það enn fáránlegra að við höfum búið í sama húsi í NYC... ef ég ætti milljón frænkur þá hefði mér ekki brugðið mikið. En ég á ekki margar frænkur!


Lygilegt en satt.

Sumar sannar sögur eru of skemmtilegar og lygilegar til að halda út af fyrir sig. Þessa viku hefur HF verið í New York á fundum - og Brynja frænka hennar er í eigin erindagjörðum í NY í mánuð. Þær frænkurnar ætluðu að reyna að finna tíma til að hittast í stórborginni. Þær hringdust á í dag til að ákveða stað og stund. "Hvar býrðu" spurði HF - Brynja sagði henni götuheitið. Þögn í símanum - "sömu götu og ég!" sagði HF - "númer hvað?" Brynja svaraði því - "sama húsnúmer og ég" sagði HF og fór fram og opnaði dyrnar á íbúðinni, þar stóð Brynja í dyrunum á sinni íbúð. Þær hafa þá búið á sama stigapalli í sitt hvorri íbúðinni í viku. Lífið er nú ótrúlega skemmtilegt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband