Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Um núverandi stöðu mála

Ykkur - tryggum vitnum að viðureign minni við ókeypis fréttablöð og auglýsingarbæklinga - til nánari upplýsinga verð ég að viðurkenna að ég er mát eins og er. Fréttablaðið hefur ekki komið í tvo daga en kom daginn þar áður - held ég. Þessi sálfræðilegi hernaður er farinn að taka sinn toll, minnið að gefa sig eins og gerist undir álagi. Þriggja daga gömul Fréttablöð sem blakta uppi á póstkasanum er ekki fögur sjón - þau gulna ótrúlega fljótt og verða stökk, nánast eins og þau séu að leysast upp fyrir augunum á manni. Reikna með að fá aðfinnslur frá snyrtilegum nágrönnum mínum bráðlega. Díla við það þá. Sem sagt - óbreytt ástand.

En hugmyndin að þáttaröðinni er ansi skemmtileg - og leikstjórinn strax orðinn aktífur. Tek undir með Garúnu að auglýsa eftir heiti!

Annars er ég um það bil að fá annað áhugamál. Nú þyrpast ungar og óreyndar kóngulóameyjar hér inn af svölunum. Þær eru að taka sín fyrstu skref í vefhönnun. Reynsluleysið lýsir sér í því að þær velja óheppilegustu staði til að koma sér fyrir - þar sem litlar sem engar líkur eru á því að þær veiði neitt í matinn. Hef fylgst með einni sem fannst upplagt að byggja vef frá tölvunni minni upp í hilluna og tengja svo allt saman við prentarann. Hún gat ekki séð það fyrir að í dag var dagurinn sem ég ákvað að þurrka af. Ég ætlaði að hlífa henni en gleymdi mér og fyrr en varði var ég búin að skemma fyrir henni. Stuttu seinna sá ég hana arka ákveðna og einbeitta upp aftur - hafði þá falið sig á bak við prentarann. Eftir að hafa hvílt sig og metið stöðuna byrjaði hún upp á nýtt - ákveðin þessi. Ætla að fylgjast með henni en hef áhyggjur af því að hún verði hungurmorða. Ætla ekki að fara að veiða ofan í hana flugur- set mörkin þar.


Hvað nú?

Það setti mig algjörlega út af laginu að koma heim í dag og sjá! - Fréttablaðið í póstkassanum!
Mig setti hljóða. Öll sú vinna sem hefur farið í að sigra í átökunum við blaðberana. En til einskis. Nú þarf að leggjast undir feld og plotta næsta leik - því það þýðir ekki að gefast upp.

Á meðan hugmyndir fæðast ætla ég að gleðjast yfir nýju bloggvinkonu minni sem er mesti húmoristi sem ég veit um. Það lá við að ég yrði fyrir líkamlegum skaða í hláturhviðunum þegar ég las nýjustu færsluna hennar. Ég mæli með bloggi Garúnar- en hvet lesendur til að fara varlega.


Úbbs...

Það stóð ekki til að raska lífi allra nágranna minna með þessari prívat herferð gegn fríum fréttablöðum og auglýsingum. Það kemur sem sagt í ljós að blaðburðarfólkið er hætt að setja Fréttablaðið í póstkassana hjá næstu nágrönnum mínum og þau eru ekki kát með það. Veit ekki alveg hvort ég á að verða sakbitin út af þessu, nei fjandinn, ábyrgðin er augljóslega hjá blaðberunum. Nágrannapóstkassarnir og pósthólfin eru ekki yfirlýst sem no-go area, aðeins minn. Þetta verður áfram spennandi viðureign litlu konunnar versus fjölmiðlarisans. Svona örsögur úr hversdagslífinu gefa blogginu gildi til hliðar við gríðarlega mikilvægar umræður um samfélag og pólitík og G8.

Árangur!

Af tómri tilviljun gekk ég fram á útberana í hverfinu í morgun með fangið fullt af Fréttablaðinu. Það var létt verk að benda þeim á miðana sem eru á póstkassanum mínum og frábiðja mér að fá Fréttablaðið. Þau urðu mjög undrandi á þessari sérvisku en ætla að láta það eftir mér. Hafa greinilega ekki tekið mark á þessum skilaboðum og miðum sem var búið að betrekkja póstkassann og útihurðina með. Nú er að sjá hversu lengi þau trúa því að blaðið sé ekki velkomið hér - halda sennilega að þessi vitleysa rjátlist af mér og ég á alveg eins von á því að þau laumi blaði í kassann til að tékka eftir nokkra daga eða vikur. Sjáum til.

Framhald...

Fréttablaðið heldur áfram að koma í póstkassann. Hef ekki til þessa verið nógu vakandi til að fylgjast með þegar blaðaútburðurinn fer fram. Spurning hvort ég fer að sitja fyrir viðkomandi og stökkva fram með látum og hræða útburðinn þannig að hann forðist mig í framtíðinni - eða mér datt líka í hug að safna saman hlassi af Fréttablaðinu og dumpa því við við útidyrnar á dagblaðinu. Eða verið með fötu af vatni sem ég helli yfir útburðinn - það dugar á ketti. Gæti farið svo að ég yrði kærð fyrir ofsóknir - annað hvort af útburðinum eða Fréttablaðinu. Það blundar í mér dálítill uppreisnarseggur finn ég. Alla vega er ég ekki sátt við að þröngvað sé upp á mig því sem ég vil ekki, grundvallaratriði að fá að velja sjálf.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband