Um núverandi stöðu mála

Ykkur - tryggum vitnum að viðureign minni við ókeypis fréttablöð og auglýsingarbæklinga - til nánari upplýsinga verð ég að viðurkenna að ég er mát eins og er. Fréttablaðið hefur ekki komið í tvo daga en kom daginn þar áður - held ég. Þessi sálfræðilegi hernaður er farinn að taka sinn toll, minnið að gefa sig eins og gerist undir álagi. Þriggja daga gömul Fréttablöð sem blakta uppi á póstkasanum er ekki fögur sjón - þau gulna ótrúlega fljótt og verða stökk, nánast eins og þau séu að leysast upp fyrir augunum á manni. Reikna með að fá aðfinnslur frá snyrtilegum nágrönnum mínum bráðlega. Díla við það þá. Sem sagt - óbreytt ástand.

En hugmyndin að þáttaröðinni er ansi skemmtileg - og leikstjórinn strax orðinn aktífur. Tek undir með Garúnu að auglýsa eftir heiti!

Annars er ég um það bil að fá annað áhugamál. Nú þyrpast ungar og óreyndar kóngulóameyjar hér inn af svölunum. Þær eru að taka sín fyrstu skref í vefhönnun. Reynsluleysið lýsir sér í því að þær velja óheppilegustu staði til að koma sér fyrir - þar sem litlar sem engar líkur eru á því að þær veiði neitt í matinn. Hef fylgst með einni sem fannst upplagt að byggja vef frá tölvunni minni upp í hilluna og tengja svo allt saman við prentarann. Hún gat ekki séð það fyrir að í dag var dagurinn sem ég ákvað að þurrka af. Ég ætlaði að hlífa henni en gleymdi mér og fyrr en varði var ég búin að skemma fyrir henni. Stuttu seinna sá ég hana arka ákveðna og einbeitta upp aftur - hafði þá falið sig á bak við prentarann. Eftir að hafa hvílt sig og metið stöðuna byrjaði hún upp á nýtt - ákveðin þessi. Ætla að fylgjast með henni en hef áhyggjur af því að hún verði hungurmorða. Ætla ekki að fara að veiða ofan í hana flugur- set mörkin þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Ég hef nákvæmlega ekkert umburðarlyndi gagnvart skordýrum sem koma nálægt tölvunni minni...ja og meira að segja kettirnir mínir eiga fótum fjör að launa ef þeir fara eitthvað að munda sig við elsku makkann minn. Verð samt að viðurkenna að þessi kóngurló sem þú varst að lýsa virkaði óskaplega krúttleg. Kannski gætirðu gert við hana samning og fengið hana til að spinna gildru fyrir blaðberann fyrir nokkrar bústnar flugur.

Thelma Ásdísardóttir, 23.6.2007 kl. 00:59

2 Smámynd: Garún

Nákvæmlega. Gæti verið að kóngulærnar væru að gefa þér hint. The plot thickens....Kannski ættirðu að föndra þér svona svarta ekkju týpu af kónguló sem situr á fréttablaðabunkanum og nærist á prentsvertunni. Eina vandamálið kannski er að finna út hver á að leika svörtu ekkjuna en mér dettur samt strax í hug . . Oprah Winfrey..Sammála eða hvad_?

Garún, 23.6.2007 kl. 12:11

3 Smámynd: Álfhóll

Stelpur, hvaða rugl er þetta með kóngulærnar og Dóra mín hvaða úrræðaleysi er þetta!  Ég skil ekki hvernig þér datt í hug að fara að þrífa.  Mín uppástunga er eftirfarandi:  Ekki meiri þrif á kóngulóarvertíðinni! Skil bara ekkert í þér dýravininum góða að rjúka af stað með tuskuna, held að blaðberastríðið sé að villa þér sýn!  Heldur að hjálpa þeim við flugnaveiðarnar þessum elskum. 

Spiderwoman! 

Álfhóll, 30.6.2007 kl. 11:11

4 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Nú þegar ég er komin í sumarfrí er allt í einu ekkert að frétta - engin Fréttablöð og engar kóngulær lengur. Sú sem var að spinna hér við tölvuna mína hefur sennilega séð að sér og farið annað að veiða. Vona að þetta sé ávísun á friðsælt frí - án átak við Guð eða menn eða dýr.

Halldóra Halldórsdóttir, 1.7.2007 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband