Óttinn við að vera gleypt með húð og hári
11.12.2008 | 14:24
Skiljanlegt að margir séu hræddir við að hverfa í hafið sem nefnist Evrópusambandið - en er sá ótti á rökum reistur? Þegar við ferðumst um Evrópu er þá ekki séreinkenni hvers lands enn til staðar, jafnvel enn skýrari en áður? En hræðsla Litlamanns við að verða ósýnilegur eða gleyptur í heilu lagi sést á mörgum bloggum og víðar. En mér hugnast ekki að láta óttann ráða - skoðum aðildina vandlega og tökum síðan ákvörðun.
Athugasemdir
Ég verð að játa að ég fæ hroll þegar talað er um að Ísland eigi að fara í Evrópusambandið. Ég tel sjálfur að þetta samband sé enn einn framgangsmáti Stór-Þýskalands til valda í Evrópu á ný.
Vandamálin sem við höfum séð vera að gerjast í Frakklandi í haust, í Grikklandi núna í desember og hin "ósýnilegu" vandamál nýjustu aðildarlandanna (sem hylmt er yfir) eru of alvarleg til að við getum gengið til liðs við þetta fjölþjóðaríki. Fjölsþjóðaríki heimsins hafa öll þurft að beita bælingu og ofbeldi til að halda stoltum menningarríkum þjóðarbrotum niðri. Þetta þá oft með óhugnalegum afleiðingum. Hver þekkir ekki hvernig fór í Júgóslavíu forðum, Armeníu undir Tyrkneskum yfirráðum, Rússlandi/Sovétríkjunum, Rúmeníu/Moldavíu, Norður-Írlandi, Baskahéruðunum á Spáni..... Þýskalandi á uppgangstíma nasista. Gleymum ekki sögunni og verum ekki grunnhyggin á bros og góðar gjafir.
Baldur Gautur Baldursson, 14.12.2008 kl. 19:30
Það má vera að ég sé naíf þegar ég vil skoða inngöngu í Evrópusambandið. En er þetta ekki skiljanlegur kvíði þegar haft er í huga að sjálfsmynd okkar hefur litast svo mjög af sjálfstæðisbaráttu. Það má skoða þetta í líkingu við að ganga í hjónaband (sem ég þekki bara af afspurn). Við vitum hvað við höfum en ekki hvað við fáum - fyrir utan að okkur grunar að við verðum að færa fórnir við inngönguna en sjáum ekki hvað það færir okkur. En svo má vel vera að þetta hjónaband yrði eins og hefðbundið heimilisofbeldi. Kúgun og svipting sjálfræðis.
Halldóra Halldórsdóttir, 14.12.2008 kl. 20:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.