Fiðraðir persónuleikar

Úr hverju eru páfagaukar eiginlega gerðir? Tumi er laufléttur, hann er bókstaflega gerður úr fiðri og loftfylltum beinum. Goggurinn er sennilega þyngsti parturinn, heilinn er áreiðanlega ekki stærri en baun. En persónuleikinn er ekki í neinu samræmi við efniviðinn. Eins var þetta með Nílló þótt hann væri nú töluvert stærri en Tumi. Persónurnar í þessum fiðruðu búningum eru svo miklu stærri og áhrifameiri en efni standa til. Þetta eru hugleiðingar mínar eftir að fá hér fuglasérfræðing inn á heimilið til að vængstýfa Tuma, sverfa gogg og klær og kenna mér réttu handtökin til að þjálfa hann í að koma á fingur. Litla skinnið var móður og másandi eftir átökin, hann var handsamaður í handklæði til að verjast biti (sem gerði ekkert fyrir sjálfsvirðinguna) en það tókst ekki fullkomlega, það blæddi  úr sérfræðingnum eftir verkið. Tumi var í svo miklu flaustri eftir meðferðina að hann var kominn á fingurinn á mér áður en hann vissi af og þá var of seint að beita gogginum. Hann bítur ekki til að bíta, bara til að reyna að stjórna atburðarásinni, lái honum hver sem vill. Svo mátti hann hafa sig allan við að halda sér í fingurinn og bregðast við þegar honum var gert að fara strax yfir á hinn fingurinn, aftur og aftur. Hann var fljótur að fara inn í búrið sitt eftir þessar hremmingar, allur úfinn, og það heyrðist ekki í honum meira þann daginn. En hann jafnaði sig fljótt og við erum nú að æfa okkur í þessu með fingurna. Eftir þessa meðferð var ég með svo mikið samviskubit að ég fór og keypti dýrt dót handa honum, leikgrind sem ég er að setja saman. Dæmigert að kaupa sig frá sektarkenndinni.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband