Fuglasaga
1.4.2008 | 19:50
Tumi flaug af búrinu sínu og á öxlina á mér þar sem ég sit við tölvuna- ég veit ekki hvort okkar var meira hissa. Sem betur fer var Flosi úti - ég þarf greinilega að ráðgera útivistartíma þeirra beggja vandlega. Tumi vill ekki hendur nálægt sér - hefur sennilega verið hvekktur einhvernveginn - en hann er greinilega minna hræddur við andlit og aðra líkamsparta því að hann reyndi að finna leið til að skríða upp á inniskóna og upp eftir gallabuxunum þegar hann flaug af stað í annað sinn og lenti á gólfinu. Síðan tókst honum að fljúga upp á búrið sjálfum.
Hann flaug líka af búrinu um helgina og brotlenti þá í tröppunum - Flosi vaknaði og stökk upp á augabragði og ég rétt náði að grípa hann og skella honum út á svalir áður en tíðindin yrðu sorgleg. Þá mátti ég ekki rétta Tuma höndina - en hann flaug upp á öxlina til að fá far á búrið.
Nú er ég að reyna að lokka hann inn í búrið til að geta hleypt mjálmandi ketti inn. En Tumi er fljótur að læra - mér tókst að plata hann inn í búrið í gær með því að setja eplabita inn í búrið - nú prófaði ég þetta ráð aftur en hann er að sjá við þessu hjá mér. Situr upp á búrinu sem fastast og er keikur. Hann er óskaplega glysgjarn og er heillaður af gleraugunum mínum og hálsmeni. Mér heyrist hann vera að æfa sig í að segja "halló", og svo flautar hann bara mjög melódískt.
Nú féll hann fyrir ávextinum og ég gat lokað búrinu - í því kom Flosi inn um gluggann grunlaus um fjaðrafokið sem var í gangi. Þetta er æsispennandi líf.
Sir Winston Churchill (1874 - 1965)
Athugasemdir
Dóra, rosalega er þetta spennandi. Hann Harry minn sem ég átti í nokkur ár í Noregi vildi ekki heldur hendur. Ég brá á það ráð að vefja dúk utan um hendina á mér og þá þáði hann að setjast á dúkinn. Dætur mínar sem aldrei hafa metið móður sína sem skyldi, fyrirvörðu sig þegar ég gekk um með fuglinn á hekluðum dúknum, en það virkaði! Mæli með því að sveipa hendina á þér og athuga hvað hann gerir. Gj
Álfhóll, 1.4.2008 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.