Prinsipp eða sérviska

Ég átti leið hjá pósthúsinu mínu fyrir helgina og skrapp inn til að spyrjast fyrir um svona miða á póstkassa til að koma skilaboðum til þeirra sem bera út að viðkomandi vilji ekki fríblöð og auglýsingar. Mundi nefnilega að einu sinni fékk ég mér svona miða sem máðist fljótlega af og ég reyndar búin að skipta um póstkassa og var búin að steingleyma þessu. Hugsaði mér gott til glóðarinnar - nú mundi ég leysa málið. Það rifjaðist líka upp fyrir mér hvað ég varð ergileg - ég varð að borga fyrir þennan miðasnepil. En nei - nú var mér sagt að þessir miðar væru ekki lengur til. Af hverju? Ja - það voru ekki allir sáttir við það sem stóð á þeim. Hvað var það - og hverjir voru ósáttir? Mmmm - veit ekki, var svarið á pósthúsinu. Undarlegt.

Þessi árátta mín - sem ég get alveg séð að gengur soldið langt - er angi af öðru stærra máli í mínu fari. Skaphöfn mín gerir mér ókleyft að láta ráðskast með mig. (Nú brosa félagar mínir, fjölskylda og vinkonur sennilega í kampinn). Sem krakki varð ég að láta ýmislegt yfir mig ganga - eins og gengur og gerist í fjölskyldum. Það rifjast til dæmis upp boð hjá gömlum frænkum og frændum þar sem leiðindin ætluðu mig hreint að drepa - ég skildi aldrei af hverju ég fékk ekki að vera heima og lesa, eða úti að leika. Skil ekki enn. Fjölskyldan mín var langt á undan þeirri tísku að æða upp á hálendið í öllum veðrum á sumrin með nesti og tjald. Hljómar spennandi - en - ég var ekki spurð hvort ég vildi fara. Þannig urðu til löööööng fýluköst í aftursætinu - í sígarettureyknum og moldviðrinu á ómalbikuðum vegum landsins.

Alla vega hefur margháttuð reynsla í lífinu orðið til þess að þegar á að "láta" mig gera eitthvað þá verð ég öfugsnúin eins og skot - og það getur verið þrautum þyngra að rétta mig af. Rifjast upp þegar Davíð og Kári fundu upp þá snilldarhugmynd um árið að taka lífsýni allra landsmanna traustataki af því að það væri svo gaman að sjá hvað kæmi í ljós. Þeir ætluðu ekki einu sinni að spyrja um leyfi - það var ekki fyrri en heilmikil rekistefna hafði verið höfð í frammi að þeir neyddust til að útbúa pappír þar sem þeir fýlupúkar sem vildu ekki fara í gagnagrunninn máttu svo sem skrá sig úr honum - sem ég gerði um hæl. Ég var ekki spurð. Ef ég hefði verið spurð á eðlilegan hátt - þá má vera að ég hefði valið að taka þátt. En kannski ekki, sennilega ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Mjög áhugavert að vita hverjir eru þessir "ósáttu".  Þetta er nú meiri dónaskapurinn.  En þú ert nú klár í höndunum.  Prófaðu annan vinkil.   Gerðu svona miða sjálf og vertu óeðlilega blíð í orðalagi, athugaðu hvað gerist.   Ef ekki þá skaltu safna fríblöðunum í einn mánuð.  Ég kem svo og sæki þig á bílnum og við sturtum þeim á stéttina fyrir framan ritstjórann.. 

Garún, 22.7.2007 kl. 18:59

2 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

En hvað með vatnsbyssuna?  Hvenær fæ ég að koma með hana?

Thelma Ásdísardóttir, 23.7.2007 kl. 18:49

3 Smámynd: Garún

Já Thelma komd þú með vatnsbyssuna og ég fæ lánaðan vatnsbíl hjá slökkviliðinu og við rústum þeim......yes

Garún, 24.7.2007 kl. 12:31

4 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Nú hefur Fréttablaðið og auglýsingar ekki komið í póstkassann lengi vel - kannski er ég búin að sigra!

Halldóra Halldórsdóttir, 24.7.2007 kl. 17:50

5 Smámynd: Garún

Hvernig er staðan núna? 

Garún, 29.7.2007 kl. 22:48

6 identicon

Prinsipp eða sérviska - þú mátt kalla það sem þú vilt en í mínum huga er þetta bara hún Dóra mín alveg eins og ég vil hafa hana.

kveðja og takk fyrir síðast

Día

diana (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 23:07

7 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Staðan núna... Þetta er leikur kattarins við músina - og við vitum hvernig sá leikur er líklegur til að enda. Bara skottið skilið eftir.

Halldóra Halldórsdóttir, 30.7.2007 kl. 00:07

8 Smámynd: Garún

Hver er kötturinn og hver er músin?

Garún, 30.7.2007 kl. 00:10

9 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Ja - það er nú það! Mér datt í hug Tommi og Jenni - þar fór kötturinn ekki vel út úr samskiptunum ef ég man rétt. Mér var meinilla við Jenna - hann niðurlægði og píndi köttinn endalaust.

Halldóra Halldórsdóttir, 30.7.2007 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband