Sein að átta mig
14.7.2007 | 23:26
Þar sem ég stóð á svölunum og var að snyrta melgresið sem ég tíndi á Seltjarnarnesinu í dag, flaug ein af einkaþotunum yfir kollinn á mér - ein af mörgum í kvöld. Ég er þannig staðsett að ég sé undir kviðinn á þeim þegar þær renna sér yfir Tjörnina og niður á flugbrautina. Alltaf soldið glannalegt. Auðvitað - sagði ég upphátt við sjálfa mig - þess vegna er svo mikil andstaða við að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Ég var sem sagt að átta mig á því fyrst í dag að hagsmunir nýríku einkaþotueigendanna hafa svona mikil áhrif á ákvarðanatökur. Barnalegt af mér. Ég get svo sem alveg skilið að ef starfið krefst þess að forstjórinn þarf að vera alla vikuna erlendis að stýra stórfyrirtækinu þá er það freistandi að geta skroppið heim á þotunni til Reykjavíkur á laugardagskvöldi og lent við bæjardyrnar heima hjá sér. Spurningin er hvort þau sjónarmið eiga að vega þyngra en sjónarmið heildarinnar. Landsbyggðin hefur síðan skiljanlegra hagsmuna að gæta varðandi flugvöllinn - en við erum flestöll komin á jeppa til að þeysast um landið þvert og endilangt allan ársins hring.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.