Flosi

Flosi

Úff - þá er heimsókninni til dýralæknisins lokið þetta árið. Ormahreinsun og flensusprauta. Flosi bar sig aumlega að vanda og fékk samúð og athygli annnarra gesta sem hann kærði sig ekkert um. Beit dýralæknirinn bara einu sinni. Og hann er afskaplega heilsuhraustur þótt hann sé orðinn við aldur.

Við höfum deilt heimili í 13 ár og Flosi er óvingjarnlegasti og stjórnsamasti köttur sem ég hef búið með og hafa þeir þó verið nokkrir kettirnir í lífi mínu. Hann þýðist engan nema mig -en með skilyrðum þó. Ekki taka hann upp og halda á honum. Ekki bjóða gestum heim og alls ekki börnum. Ekki koma heim undir áhrifum áfengis. Ekki fara að heiman í meira en sólarhring. Ekki loka neinni hurð í íbúðinni. Ekki slökkva ljósið á baðherberginu. Ekki bjóða honum upp á rigningarveður eða kulda. Ekki bjóða honum fjölbreytni í mat. Ekki fara seint að sofa. Og alls ekki veita dótturinni á heimilinu óskipta athygli.

Það er altalað í mínum vinahópi að þessi sambúð jaðri við ofbeldissambúð. En hvað get ég gert? Ítrekaðar tilraunir til að losna við hann fyrstu árin tókust ekki. Fjölskyldan sem tók hann 8 vikna gamlan skilaði honum eftir 2 sólarhringa - þá voru þau öll vansvefta því hann hafði ekki hætt að væla allan tímann. Þegar hann var 6 mánaða flutti ég á 4 hæð í fjölbýli og ákvað að það væri ekki kattarvænt umhverfi. En dýralæknirinn aftók með öllu að svæfa hann - hélt langa ræðu um miskunnarleysi fólks sem ætlaðist til að dýralæknar aflífuðu dýrin eftir dyntum þeirra. Verst að ræðan var haldin úti á fjölfarinni götu. Katholt var lokað.

Sem sagt, áframhaldandi óbreytt ástand og við eyðum líklega ævikvöldinu hans saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ha ha ha ég fæ ill í magann þetta er svo fyndinn köttur þ.e. ef maður á hann ekki ....

myndin af honum segir allt sem segja þarf - ,,komdu ekki nálægt mér"!!

Ég hef nú þekkt hann nánst alla hans tíð og þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri þig tala um hann með nafni - heldur þú að nafnleysið hafi bara ekki farið í taugarnar á honum öll þessi ár..... humm eða heita þessar vangaveltur mínar bara að ég sé að finna skýringar á ofbeldinu hjá þolandanum. Annars eru sumar af þessum kröfum (óskum) hans ekki svo ósanngjarnar..... t.d. ekki koma drukkin heim.

hlakka til að hitta ykkur á morgun.... segðu Flosa að við Guðrún Edda séum væntanlega svo hann geti gert viðeigandi ráðstafanir.

kv Dia

diana (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 11:56

2 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Já Día mín og Guðrún Edda. Honum hefur verið tilkynnt um komu gesta á morgun. Satt að segja mundi ég ekki að hann heitir Flosi fyrr en það kom í ljós á skýrslum dýralæknisins. Í daglegu tali er hann Kisi - sem ég get vel skilið að getir orsakað djúpstæð persónuleikavandamál hjá þessum karakter.

Halldóra Halldórsdóttir, 5.5.2007 kl. 15:14

3 Smámynd: Álfhóll

Þetta er dyntóttasti köttur sem ég hef heyrt um. Gleymi því ekki hversu reiður hann var þegar ég skilaði þér heim eftir sólarhrings ferðalag!

Gj

Álfhóll, 5.5.2007 kl. 19:09

4 Smámynd: Álfhóll

Dóra,, get kennt þér að setja myndir inn í textann og bara hvað sem er hvað varðar tæknileg atriði.........

Samstarfskona þín

Álfhóll, 5.5.2007 kl. 19:10

5 Smámynd: Ingibjörg Þórðardóttir

þetta er algjörlega frábær köttur og það er bara gott að vera svolítið sérvitur. Það eru forréttindi gæludýra

kv, Inga samstarfskona þín híhí :)

Ingibjörg Þórðardóttir, 7.5.2007 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband