Blygðunarkennd - hver á að bera hana?

Nú birtast fréttir af því að utanríkisráðherra Írans hafi flúið úr boði vegna þess að kona á rauðum kjól hafi sært blygðunarkennd hans. Eða siðferðiskennd - hver er munurinn?
Nú rifjast upp gamla testamenntið - þegar Eva braut reglurnar og kom blygðunarkenndinni inn hjá Adam. Þar með urðu konur ábyrgar fyrir kynferðislegum kenndum karla - og eru það greinilega enn. Við þurfum reyndar ekki að leita alla leið til Íran til að sjá merki þess. Enn heyrast skoðanir þess efnis að konur geti sjálfum sér um kennt ef þeim er nauðgað - minnug könnunarinnar frá Noregi um daginn.

Má þá á sama hátt segja að ef ég á t.d. bíl sem vekur upp ofboðslegan græðgislosta hjá einhverjum - þá geti ég sjálfri mér um kennt ef viðkomandi ræðst inn í farartækið mitt og eyðileggur það? Hefði ég átt að fá mér öðruvísi, ljótan, gamlan bíl til að reyna komast hjá því að vekja upp þessar tilfinningar hjá viðkomandi? Sjá til þess að bíllinn sé alltaf læstur inni í bílskúr þar sem enginn sér hann? Ber ég ábyrgð á innrásinni? Og á ég þá að blygðast mín fyrir að hafa valdið þessum kenndum hjá gerandanum? Það sjá allir að þetta er gjörsamlega órökrétt. En boðskapur gamla testamenntisins er enn svamlandi í ruglingslegum hugmyndum samfélagsins um kynferðislegt ofbeldi.

Utanríkisráðherra Írans ber ábyrgð á eigin tilfinningum og kenndum - hvort sem það var konan á rauða kjólnum eða konan sem er utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem sat á móti honum sem urðu kveikjan að þeim í huga hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Frábær samlíking! Sýnir vel hversu fáránlegt það er að setja ábyrgðina á þann sem brotið er á. Þetta er eins og þegar einhver segir. "...en þessi manneskja gerir mig bara svo rosalega reiðan að ég ég ræð ekki við mig og verð að slá...."

Thelma Ásdísardóttir, 4.5.2007 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband