Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er flutt...

Fór yfir á Bloggheima.is. Fannst allur botninn detta úr hér eftir uppákomuna í október og fann mig ekki lengur sem er eiginlega leiðinlegt því að mér líkaði þetta umhverfi ágætilega þar til yfir lauk.

En - takk fyrir mig.


Tragíkómískt

Það er ekki minnst á það hvort íslensku bankastjórarnir hafi verið viðstaddir verðlaunaafhendinguna. Tek eftir því að allir hinir sem fengu verðlaun höfðu gert sínar tilraunir af ásettu ráði - ég er á því að þeir íslensku hafi gert sitt óvart - sem er ótrúlega tragískur endir fyrir þá og okkur öll. Einn þeirra er reyndar að endurskrifa söguna og komst í kjöraðstæður til þess.
mbl.is Stjórnendur íslensku bankanna fá Ig Nóbelinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat nú verið...

að þessi maður væri úr frændgarði okkar íslendinga og norðmanna. Potturinn og pannan á bak við Bush forseta og allt það sem sú stjórn stóð fyrir. Nú vantar bara að rekja ættir Dick Cheney, varaforsetans fyrrverandi, hingað - þá er frændsemin fullkomnuð.
mbl.is Karl Rove hlustaði á íslenskar sögur í æsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugrekki ríkisstjórnar óskast

Hættum þessari meðvirkni strax. Að ég og mínir eigi að borga þær skuldir sem eigendur Icesave stofnuðu til er ólíðanlegt. Ég hef ekki verið í neinum viðskiptum við Landsbankann né tekið ákvarðanir fyrir hans hönd. Er ekki stutt síðan að ábekingar voru aflagðir? Er ekki nýlega búið að breyta því að ef einstaklingur fer ógætilega þá séu þeir sem skrifuðu uppá hjá honum gerðir fallítt og missi heimilin sín? Þetta er sama ranglætið sem verið er að halda að okkur. Sá tími er liðinn að foreldrar og fjölskylda séu gerð ábyrg fyrir fjármálagjörningum fákunnandi eða kærulauss einstaklings.

Nú óska ég eftir hugrekki ríkisstjórnarinnar til að fara að hugsa um hag okkar hér heima en ekki vera að leita með logandi ljósi eftir lausnum fyrir þegna annarra landa. Auðvitað er vont til þess að hugsa að íslenskur banki hafi farið svona illa að ráði sínu en meðvirknin má ekki fá að ráða ferðinni. Og þótt að við skömmumst okkar fyrir fyllirísóráðsíuna hjá þeim - þá vita allir sem þekkja til sýkinnar að það versta er að fara að redda þeim út úr vandanum sem þeir hafa komið sér og öðrum í. 


Opnum landið

Drottinn minn dýri! Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að opna þetta örríki okkar fyrir nýju utanaðkomandi fólki. Er að verða úrkula vonar um að við getum rifið okkur úr greipum gamalla kerfa og einstaklinga sem finnst þeir eiga fæðingarétt á að stjórna öllu hér sem skiptir máli. Gleðst þess vegna yfir því að MP banki er að fá norðmann inn sem fjárfesti. Meira svona.

Þessi ótti við útlendinga er óhollur - það er ekki eins og íslendingar séu allir svo voðalega þjóðhollir.


Breyttir tímar

Þannig vill til að í kringum mig er margt fólk að láta vinna lítil og stór verk í gömlu hverfunum í borginni. Ég tók tali smið sem ég rakst á við vinnu sína og sem var að skipta um glugga í gömlu húsi - hann sagði að nú væri aðaluppspretta verkefna hjá smiðum að sinna vanræktum eldri húsum - og þau hafa svo sannarlega setið hjá undanfarin 10 ár eða svo. Allir iðnaðarmenn hafa verið uppteknir við að byggja nýtt - heilu hverfin sem standa nú auð - virkjanir, brýr og önnur stór mannvirki. Nú er tími viðhalds á því gamla kominn - og kominn tími til. Nú er hægt að fá iðnaðarmenn til verka - það var nær því ómögulegt fyrir ári síðan. Annar smiður sagði að það hafi engin kreppa komið við hjá sér - nóg af verkefnum í því gamla. Hið besta mál.

Þetta er ekkert grín!

Ég og vinkona mín urðum fyrir svona ógnvekjandi reynslu í sveit á Englandi fyrir hartnær 40 árum. Við ætluðum að stytta okkur leið yfir akur og komast þannig fyrr á krána. Þegar við vorum hálfnaðar yfir akurinn urðum við varar við að flokkur nauta var á humátt á eftir okkur. Okkur brá heldur betur og tókum á rás - og nautin á eftir!  Við komumst við illan leik að girðingu og hentum okkur yfir hana - beint ofan í á sem rann meðfram girðingunni. Illa til reika komumst við á bæ - en þar var mikið hlegið að okkur. Þessi akur var notaður til að beita ungum kvígum, sem eru frægar fyrir forvitni - og það var engin leið að koma fólki í trú um að við hefðum verið í stórhættu.


mbl.is Stökk út í á til að forðast kýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A1988 - N1 - A4 ?

Hvað á þetta að þýða? Fyrir utan að vekja grun um kennitölubrask þá minna þessar nafngiftir óþægilega á tímana þegar tískan var "Group". Asnalegt og gerir ekkert annað en tæta í sundur samfélagsminnið. Jafn hallærislegt og þegar Íslandsbanki varð að eldrauðum Glitni sem yfirtók öll mannamót um tíma og snáfaðist síðan  í Íslandsbanki aftur með skottið á milli lappanna.

Svona stælar gera ekkert til að byggja upp tiltrú á fyrirtæki. 


mbl.is Nafni Eimskips verði breytt í A1988
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkurinn og framhjáhaldið

Sjálfstæðisflokkurinn sýnir sinn rétta lit - hann fórnar þjóðarhagsmunum fyrir flokkshagsmuni, rétt eins og gulldrengirnir fórnuðu þjóð sinni fyrir eigin hagsmuni. Eftir að gefa í skin að gæti nást breið samstaða um fyrirvarana á þingi í þeim tilgangi að ná sínum fyrirvörum í gegn - þá tekur flokkurinn þá afstöðu að svíkja lit á síðustu metrunum til að koma í veg fyrir innri klofning, sennilega.

Það sannast aftur að trúnaður sjálfstæðismanna er við flokkinn - ekki þjóðina. Flokkurinn fór út í smá-framhjáhald með stjórnarflokkunum og lét viðhaldið halda að hann ætlaði að skilja við sína. Þannig fékk hann fram vilja sínum - en vissi alltaf að framtíðarhagsmunirnir væru fólgnir í að fara aftur heim. Þetta var áreiðanlega þaulhugsuð taktík eins og oft er hjá hardcore framhjáhöldurum.


Tóku þeir Leyndarmálið trúanlegt?

Svei mér þá - það er eins og Kaupþingsdrengirnir hafi gleypt "The Secret"  hrátt - en það var mynd sem fór sem eldur í sinu milli manna fyrir nokkrum árum."Bara að hugsa nógu stórt og hratt og þá mun allt lukkast"

En að þeir hafi óáreyttir fengið að taka gamla Búnaðarbankann yfir og síðan ekið honum á 200km hraða fram af bjargbrún með fjölda manns um borð - það er við eftirlits- og stjórnvöld að eiga. Drengirnir voru bremsulausir og kunnu ekkert að keyra en enginn vill kannast við að hafa haft bremsurnar undir höndum.


mbl.is Gamalt Kaupþingsmyndskeið vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband