Færsluflokkur: Bloggar

Orðið alveg sama

Er að hlusta á kanadískan pistilhöfund í breska útvarpinu og varð þá hugsað til fréttanna frá Kanada í gær. Þar er virkur pólitískur þrýstihópur sem vill fá að reykja sitt marjúana og kaupa það og selja að vild. Fréttir frá Bretlandi sýna mjög háa prósentutölu fólks sem notar kókaín um helgar og hassneyslan þar er hversdagsleg. Og það er nú orðið nokkuð ljóst að stríðið sem bandaríkjamenn hafa háð við kókaínið í og frá suður Ameríku er endalaust, það sama virðist vera að frétta frá öðrum löndum, hér líka.

Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég fór að skoða hug minn í þessum málum að mér er alveg sama. Mér er orðið alveg sama hvort fullorðið fólk tekur inn eða reykir eða sprautar sig með einhverjum efnum sem gera líf þeirra bærilegra. En við nánari skoðun fann ég að þetta hefur breyst hjá mér, þegar ég var að ala upp barn og ungling var mér EKKI sama, alls ekki. Hún komst til fullorðinsáranna án þess að missa fótana í þessum málum. Í stað þess að skammast mín fyrir að vera með svona óábyrgar hugsanir læt ég eftir mér að skilja þessi mál eftir í höndum viðeigandi aðila og er bara léttari í lund fyrir vikið. Nóg er nú samt eftir til að hafa skoðanir á.     


Á Austurvelli í gær

Það var skemmtileg uppákoma við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli í góða veðrinu í gær. Sennilega verið að steggja þann í brúðarkjólnum því að hann var látinn sverja eilífa ást á vinum sínum þótt hann ætlaði að giftast einhverri konu. Félagarnir sungu brúðarmarsinn og túristar jafnt og innfæddir höfðu gaman af. DSCF0085

Ábyrgðarhluti

 Eftirfarandi er tekið úr frétt á vísir.is þar sem sagt er frá niðurstöðu tveggja dómara af þremur í nálgunarbannsmáli vegna heimilisofbeldis. (finn ekkert um þessa frétt á mbl.is) Áhyggjur lögreglu af öryggu konunnar eru léttvægar fundnar. Hvað ef allt fer á versta veg og "friði konunnar verði raskað aftur" eins og það heitir á fínu máli þótt greinilegt sé að hún var beitt grófu ofbeldi í langan tíma? Eru þessir dómarar þá á einhvern hátt ábyrgir þegar þeir meta hættuna léttvæga? Eitthvað segir mér að svo verði ekki.

"Lögreglan telur að öryggi konunnar kunni að vera stefnt í voða fáist ekki framlenging á nálgunarbanninu.

Héraðsdómur Reykjavíkur varð ekki við þeirri beiðni 31. júlí síðastliðinn og þann úrskurð staðfesti Hæstiréttur í gær. Meirihluti dómenda Hæstaréttur í málinu, þeir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson, telur að ekki liggi fyrir rökstuddur grunur til að ætla að maðurinn brjóti gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni eða raski friðar hennar á annan hátt.

Hæstaréttardómari vildi áframhaldandi nálgunarbann

Páll Hreinsson, dómari við Hæstarétt, skilaði sératkvæði. Hann sagði að maðurinn hefði verið ákærður fyrir gróf ofbeldisbrot gagnvart konunni og sjá megi af gögnum málsins, þar á meðal ljósmyndum, að áverkar hennar voru umtalsverðir. Páll segir að þegar haft er í huga að hin tímabundna skerðing á frelsi mannsins gangi ekki lengra en nauðsyn beri til skuli verða við beiðni um áframhaldandi nálgunarbann".


Ný staða

Nú er ný staða komin upp. Flugfjaðrirnar á Tuma eru vaxnar fram aftur og nýju stélfjaðrirnar eru orðnar glæsilegar. Hann er sem sagt orðinn glæsilega flugfær. Það gefur honum vaxandi öryggi og nú flýgur hann eins og lítil græn elding um stofuna. En Flosi er nú að komast í nýja stöðu - nú flýr hann undir stól þegar Græna eldingin þýtur yfir og steypir sér niður að honum. En hann hugsar sitt, það mætti jafnvel lýsa augnaráðinu sem lymskulegu og skottið hreyfist líka lymskulega.

DSCF0051

 


Fuglalíf

Það skemmtilegsta sem Tumi veit er að tæta eitthvað niður. Mitt hlutverk er að finna eitthvað nýtt fyrir hann að spreyta sig á. Nú er í uppáhaldi hjá honum að ráða niðurlögum Nicorett tyggjó-umbúða. Af mikilli vandvirkni fjarlægir hann allan álpappír fyrst í smáögnum - síðan gatar hann plastið allt - öll 15 hólfin. Loks bitar hann það sem eftir er niður í örður. Einbeitingin er algjör. Stundum missir hann umbúðirnar úr klónum og þarf að sækja það - sem er vandasamt því að það er flókið að halda á því í gogginum og klifra upp í grindina án þess að stíga í það. Ég er oft í hláturskasti við að fylgjast með aðförunum. Hér er hann reyndar að naga eplabita í kvöldsólinni.

Tumi í kvöldsólinni

 


PTSD?

 

Tumi 3

Er nú eiginlega í sjokki ennþá. Vegna kæruleysis míns var kötturinn nærri búinn að stúta fuglinum í gær. Tumi tókst á loft og flaug um stofuna - ég hafði ekki athugað að kötturinn var á staðnum. Hann náði að grípa fuglinn á fluginu augnablik - en fuglinum tókst að losna, sennilega hefur kettinum brugðið við ofsafengin viðbrögð mín. Nú upphófst æðislegur eltingleikur sem barst í eldhúsið - þaðan í stofuna, kötturinn var töluvert sneggri en ég og í hita leiksins gerði ég mistök. Í stað þess að fanga köttinn og koma honum á öruggan stað þá eltum við Flosi bæði fuglinn. Nú - fuglinn brotlenti í stórri plöntu og ég náði að fanga hann og troða honum inn í búrið. Síðan beið ég eftir viðbrögðum hans í allt gærkvöld - hvort hann fengi post traumatic stress einkenni eftir lífsháskann, eða dytti niður dauður af hjartaáfalli. En nei nei - hann hristi þetta af sér en ég er hins vegar enn sífellt að athuga með hann og Flosi er bara niðri í herbergi, hann verður þar með stuttum frímínútum til að fara út og fá sér að éta.     


Miðbærinn

Mér skilst að dómsmálaráðherra vilji Héraðsdóm af Torginu. Alveg er ég sammála því. Það er þungi og skuggi yfir þessu húsi sem gæti skýrst af starfseminni sem þar fer fram - og á ekki heima í miðbænum - ekki frekar en mér fyndist frystihús eiga heima í miðbænum. Vona bara að einhver bankinn setjist ekki að í húsinu. Í leiðinni má flytja starfsemi hegningarhússins á Skólavörðustíg annað - það hlýtur að vera viðbótar hegning að verða sífellt var við lífið fyrir utan fangelsisveggina. Nú er bleika húsið við Torgið orðið svart - ég hélt að þetta ljóta hús ætti að hverfa í nýju skipulagi en er nú hætt að reyna að fylgjast með breytingunum á skipulagi miðbæjarins.  

Pissa í vatnið

Þar sem ég maraði í hálfu kafi í Lóninu í vikunni varð ég vitni að þessum samskiptum tveggja ca. fimm ára gutta.

"Ég þarf að pissa"

"ég pissa bara í vatnið"

þögn

"máttu það?"

"nei - það má bara allsherjar vita það"

Lækningalindin

 


Rólegheitahelgi

Á þessari rólegheita helgi þegar mér líður dáldið eins og Palla er kjörið að setja inn gjörsamlega tilefnislaust efni á bloggið. Við Tumi sitjum hér í bróðurlegri þögn - hann er að maula kex á milli þess að hann finnur dót til að tæta, nú er hann að störfum við sjónvarpsdagskrána - og ég að taka myndir. Hér er sem sagt krúttlegasta brauðrist sem ég hef séð - fann hana í París um daginn. Líka tvær smámyndir sem ég keypti af listakonunni við bakka Signu. 

Það munaði mjóu í gær. Tumi var laus og ég var með gest, kötturinn svaf í sófanum. Tumi á að vera vængstýfður en hann getur flogið samt - af eintómum viljastyrk og þvermóðsku held ég. Hann tók sem sagt flugið og ég hef aldrei séð minn aldraða kött bregðast eins fljótt við. Um leið og Tumi tókst á loft stökk Flosi upp glaðvaknaður og ég á eftir. Náði að góma köttinn rétt áður en hann komst að Tuma, reif hann upp og setti hann út á svalir. Allt í einu vetfangi. Gómaði síðan fuglinn og kom honum í búrið áður en Flosa var hleypt inn, hann varð fyrir sárum vonbrigðum að missa af bráðinni. Þetta kennir mér að sofna ekki á verðinum.  

 

DSCF0041DSCF0042

 


Ólíkar tegundir

Var að baða Tuma - ég úða á hann vatni sem honum finnst alveg rosalega gaman og gott. Flosi fylgist með og furðar sig á því að vatnsúðinn - sem hann forðast af fremsta megni - skuli vera svona eftirsóttur af Tuma. Þarna er enn eitt sem aðgreinir þessar tegundir frá hvor annarri. En Flosa finnst þetta áhugavert og kemur alltaf til að fylgjast með.

DSCF0032

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband