Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ánægð með Björk og co.

Ég er ánægð með þetta frumkvæði sem Björk er að sýna þessa dagana. Það þarf ferska hugsun og ný viðhorf. Þessi þreytti hugsunarháttur sem gamlir kerfiskarlar grípa sífellt til er tímaskekkja. Nú þegar á reynir kemur í ljós að þeir kunna ekkert heldur - það virðist vera að amatörar hafi setið við stjórnvölinn á Seðlabankanum og við stjórn ríkisbúskapsins. Pólitísk þráseta við völd og hrossakaup er við normalt ástand þreytandi, ergilegt og gamaldags en á krísutímum er það óafsakanlegt, glæpsamlegt jafnvel.  Nú þarf að nota krísuna til að taka nýja róttæka stefnu þar sem fólkið, með sitt hugvit, og allt sem þetta land hefur að bjóða vinna saman að lausunum.   

Hvað með borgaralega óhlýðni?

Það var lifandi og heitur fjöldafundurinn í Iðnó áðan. Styrk stjórn upphafsmannsins, sem er leikstjóri og kann að stýra óstýrilátnum fjöldanum, hélt að mestu aftur af ofsareiðinni sem kraumar í fólki. Ég held að það þurfi að halda marga svona opna fundi því að fólki liggur mikið á hjarta. Nokkrir þingmenn mættu og voru mishræddir á svipinn þegar þau mættu mannskapnum. Einar Már fór á kostum og Björg Eva líka að öðrum ólöstuðum. En það var eitthvað hollt við þetta - það er orðið svo algengt að ofurstýrðir sjónvarpsþættir séu látnir um að útdeila skoðunum og vangaveltum um landsmálin. Ég fór af fundi fyrir kl. 10 en þá voru margir að bíða eftir að fá orðið.

 Sjálf er ég að komast þangað að neita að borga þessar ofurskuldir sem sífellt er verið að segja að "við" berum öll ábyrgð á. Hvað með borgaralega óhlýðni?  

 


Ætla líka í Iðnó í kvöld

Fór á Austurvöll á laugardaginn en það var fámennt og dauft. Það varð einhver misskilningur með tímasetningu og annað sem er alveg í takt við andlegt ástand þjóðarinnar finnst mér. Allir enn í rugli með hvað er í raun að gerast. Mér finnst við sitja á eldfjalli sem er um það bil að fara að gjósa - en ekki vitað hvenær né hvernig það fer. Síðan hlustaði ég á útvarpsþátt á BBC af fasistahreyfingu Svartstakka í Bretlandi á millistríðsárunum og um mig fór hrollur. Í atvinnuleysinu myndaðist jarðvegur fyrir hatur og reiði sem birtist í fasismanum. Hvernig er hægt að fyrirbyggja að slíkt gerist hér þegar atvinnuleysið fer að bíta?

Þjálfun hvað?

Það verður að segjast eins og er að þjálfunin á Tuma er ekki alveg að gera sig. Eins og mig grunaði reyndar var þessi rándýri þjálfunarpakki frá útlöndum ætlaður mér - ekki fuglinum. Það er ég sem er agalaus og nenni ekki að setja mig í stellingar til að fá fuglinn til að sitja og standa eftir mínu höfði. Gruna mig líka um að finnast of gaman að uppátækjum hans um leið og ég fæ ástæðu til að stökkva upp á nef mér þegar hann hlýðir ekki - eða gerir eitthvað outragious eins og að pilla takkana af lyklaborðinu og fljúga með þá í burt. Svo kann hann ekki að skammast sín - þetta litla fiðraða fyrirbæri ýfir sig bara og ybbir gogg þegar ég er að rífa af honum fjarstýringuna áður en hann nær að pilla takkana af. Hann er algjörlega takka - og græjuóður.

 

Hér er hann á kafi í hárinu á HF og hótar að fljúga á myndavélina.  DSCF0134


Stjórnvöld eru ekki fórnarlömb

Ég finn að ég er ekki tilbúin að samþykkja að stjórnvöld - þar með talið það lið sem stýrði bankamálum hér - fái að skilgreina sig sem fórnarlömb þeirra hremminga sem nú ganga yfir. Mér var kennt að til að geta kært glæp þarf að vera til skilgreint fórnarlamb glæpsins. Ef landstjórnendur hér fá það samþykkt að þau séu líka fórnarlömb - rétt eins og þeir sem höfðu enga aðkomu að stórn mála - þá er ekki hægt að gera þau ábyrg. Staðreyndin er sú að þau höfðu vitneskju um hvert stefndi - en völdu að gera ekkert til að grípa inn í né vara okkur við - þvert á móti var eilíft verið að segja okkur hversu gott allt væri hér. Nú líður mér eins og ég hafi verið höfð að fífli.

Ég er sem sagt að taka ákvörðun um að fara niður á Austurvöll í dag - hef mætt þar af minna tilefni en þessu.  


Í stóru sem smáu

Merkilegt hversu fólk er vanmáttugt andspænis auðmagninu - hvort sem það er hjá einstaklingum eða hópum eða þjóðum. Þegar ég las um vanmátt ráðamanna þegar þeir fengu að sjá skýrslun sem bretarnir gerðu fyrir þá um að bankakerfið væri orðið ofvaxið þá lyppuðust allir niður í stað þess að bretta upp ermar og ganga í verkið. Á sama hátt lyppast fólk niður andspænis ríkum einstaklingum, dilla bara rófunni. Og i hættulegustu tilvikunum geta auðmenn keypt sig og sína í burt frá ábyrgð sinni - hér vísa ég í reynslu mína úr ofbeldisgeiranum. Auðvitað er þetta engin ný sannindi en þess vegna þarf skýr og ákveðin regluverk - þar sem allir vita hvernig skal ganga að verkinu til að stöðva ofbeldið og gera þann ábyrgan sem á aðra hefur gengið.

Við (þetta fer nú soldið í taugarnar á mér - þetta við) höfum verið á sportbíl á ofsahraða á nýrri hraðbraut sem frálshyggjuöflin opnuðu með viðhöfn - en bílstjórarnir höfðu svo gaman af hraðanum að bremsurnar voru álitnar óþarfar - svo fór sem fór - stórslys sem allir farþegarnir verða að súpa seyðið af. En í siðmenntuðum samfélögum er þó reynt að draga bílstjórana til ábyrgðar.    


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband