Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Sérhæfing er fyrir skordýr

Ég var að hugsa um allar þessar aðgreiningar og aðskilnaði og sérhæfingar sem við höfum komið okkur í. Fór að hugsa; hvers vegna er eldra fólkið í aðgreindum hólfum (elliheimilum), börnin í öðrum sérstökum hólfum (leikskólar og skólar) o.s.frv. Hvernig væri að fólk gæti tekið börnin með sér í vinnuna, þar væru útbúnar aðstæður til að þau gætu notið sín. Minni einingar þar sem mæður með börn á brjósti gætu stundað vinnuna sína og foreldrar og börn gætu hist yfir daginn og haldið þannig tengslunum sín á milli. Þannig mundi foreldrar vera minna stressaðir og kvíðnir - minni tími færi í að skreppa úr vinnunni vegna þarfa barnanna. Börnin væru ekki í burtu frá foreldrum sínum heilu dagana.

Það eru til vinnustaðir sem eru farnir að gera fólki kleyft að hafa hunda sína með sér í vinnuna - vel upp alda hunda auðvitað.

A human being should be able to change a diaper, plan an invasion, butcher a hog, con a ship, design a building, write a sonnet, balance accounts, build a wall, set a bone, comfort the dying, take orders, give orders, cooperate, act alone, solve equations, analyse a new problem, pitch manure, program a computer, cook a tasty meal, fight efficiently, die gallantly. Specialization is for insects.

R.A Heinlein Notebook of Lazarus Long


Engin rök

Nú hafa Japanir hafið að veiða hvali aftur og sú skýring að þeir séu á vísindaveiðum verður sífellt glærari. Það veldur mér mikilli depurð, ef ekki sorg. Ég vil ekki að við á Íslandi veiðum hvali. Engin rök - engar skýringar fylgja þessari skoðun minni. Mér finnst það bara rangt.

If you make people think they're thinking, they'll love you; but if you really make them think, they'll hate you.
Don Marquis


Þjónar eða dónar

Hvenær var starfsheitinu breytt úr lögregluþjónar í lögreglan - eða lögreglumaður/kona? Eftir vel heppnaða ferð í Hveragerði og þaðan í humarveislu í Fjöruborðinu vorum við vinkonurnar að aka í bæinn í kvöld i myrkri og dumbungi. Skyndilega voru blikkandi blá ljós fyrir framan okkur og eitthvað öngþveiti. Lögregluþjónn kom hlaupandi að og spurði með þjósti hvort við værum að reyna að troða okkur framhjá mótorhjólinu. Nei, reyndar ekki - en hvernig áttum við þá að komast í bæinn? Nú - hann var óskaplega pirraður á okkur og benti með ólund á hjáleiðina sem þeir voru að beina bílum að fara - enda kom í ljós að slys hafði orðið við afleggjarann að Heiðmörk.
Þá kom þessi spurning upp í kollinn á mér, hvenær hættu þau hjá lögreglunni að vera þjónar fólksins? Þetta var algjörlega óþarfur ruddaskapur hjá þessum lögregluþjóni - ef hann er ólukkulegur í þessu starfi sem kallar á að vera stundum staddur uppi á heiði í sudda og myrkri að leiða bílalest í óvæntan farveg - þá er það algjörlega hans mál.

Work is love made visible. And if you cannot work with love but only distaste, it is better that you should leave your work and sit at the gate of the temple and take alms of those who work with joy.

Kahlil Gibran. The Prophet. On Work.


Loksins!

Nú finnst mér ég ekki vera eini sérvitringurinn í bænum lengur varðandi þetta óumbeðna pappírsflóð sem ég var orðin leið á að blogga um. Það hefur sem sagt verið áframhaldandi vesen hjá mér þar til undanfarið - þá var staflinn af blautum Fréttablöðum við útidyrnar hjá mér sennilega farnar að vekja athygli blaðburðafólks - ekki aðeins vakið upp spurningar hjá nágrönnunum - og það hefur ekki komið óumbeðið blað í póstkassann í heila viku. Mér finnst ég ekki eiga neina ábyrgð á því að einhver fyrirtæki úti í bæ ákveði að troða inn á mig sínu efni.

Fékk sömu svör á pósthúsinu þegar ég vildi fá miða sem vísar frípósti frá póstkassanum mínum. Kannski ekki löglegt! Er það löglegt að troða hverju sem er í minn póstkassa og gera mig síðan ábyrga fyrir því? Þvílík rökleysa.


mbl.is Leitað leiða til að draga úr blaðaúrgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Línurnar skýrast óðum

Ég man vel eftir því þegar bankarnir voru að selja þjóðinni hugmyndina um að húsnæðislánin væru miklu betur komin í höndum þeirra heldur en Íbúðalánasjóðs - það var 2004 minnir mig. Svo væri líka svo óréttlátt að meina þeim að bjóða landanum miklu betri lán á miklu betri kjörum heldur en ríkið væri að bjóða. Einmitt. Svo væri samkeppnin á milli bankanna svo miklu heilbrigðari heldur en einokun ríkisins. Einmitt.

Stjórnmálamenn og konur þurfa nú að eflast og styrkjast á öllum sviðum - nú eru línurnar á milli nýju peningaveldanna annars vegar og kjörinna fulltrúa fólksins hins vegar óðum að skýrast. Stjórnmálamenn þurfa í vaxandi mæli að vera vakandi og standa vörð um réttindi okkar andspænis peningaöflum, bönkum og fyrirtækjum, sem hafa eingöngu skyldur gagnvart hluthöfum sinum og eigendum.

Annað - við krefjumst stöðugt ódýrari vöru og þjónustu en þær kröfur hljóta að hafa í för með sér lélegri vörur og lélegri þjónustu. Liggur í augum uppi.


Pottakarlar

Þar sem ég sat með lokuð augun í heita pottinum í dag varð ég smám saman meðvituð um samtal tveggja eldri pottakarla. Þeim lá hátt rómur - merkilegt hvað svona besservisser körlum liggur hátt rómur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef tekið eftir því og látið það trufla slökunina. En þessir voru meðal annars að tala um viðtalið við Svandísi Svavars í Silfrinu um daginn. Jú - þeir voru sammála um að hún hafi nú staðið sig ágætlega en hún væri líka með svo sterkan ráðgjafa á bak við sig - gott ef hann væri ekki líka tengdafaðir hennar, mikill heiðursmaður. Einmitt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband