Hreppaflutningur
13.5.2009 | 18:34
Um miðjan mars vaknaði ég upp við það að SPRON, sem ég hef haft öll mín bankaviðskipti við til margra ára, var ekki lengur til. En tilkynnt var á heimasíðu SPRON að öll mín fjármál væru nú komin til Kaupþings banka. Mér leið eins og ég hafi verið flutt hreppaflutningum. Ég hefði ekki valið KÞ banka sjálf. En allt gekk upp, engir peningar fóru á flakk að ráði, bara peningasending erlendis frá sem hvarf í á þriðju viku en kom síðan fram.
Það hefur allt gengið ágætilega - en í gær fékk ég bréf í pósti frá Kaupþingi þar sem mér er tilkynnt að stofnaður hafi verið aðgangur fyrir mig að netbankanum þeirra - tveimur mánuðum eftir að þessi gjörningur varð. Dettur helst í hug að það sé búið að vera svo ofboðslega mikið að gera hjá þeim að ekki hafi verið hægt að koma því við fyrr að tilkynna þetta - en sjálfri finnst mér þetta bréf vera óþarfi og tímaskekkja.
Nú hef ég ekkert við KÞ að sakast en ég vil fá að ráða þessu sjálf. Hef verið að velta fyrir mér að flytja mín fjármál í Sparisjóð úti á landi sem hefur staðið sig vel - og hefur ekki farið í geggjað fjárhættuspil með peninga sem þeir eiga að varðveita og ávaxta. Mun sennilega aldrei stíga fæti þar inn í hús en að skiptir ekki máli - nema hrunið valdi því að netbankar og öll þessi fjarsamskipti detti niður. Það er hugsanlegt - ætla að skoða þetta nánar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.