Örlög sjálfstæðismanna
18.1.2009 | 16:50
Eftir að hlusta á gestina í Silfri Egils í dag rann upp fyrir mér hvað stjórnvöld eru búin að gera. Það má rökstyðja það að sjálfstæði einstaklings byggi á því að vera fjárhagslega sjálfstæður, ekki satt. Sem dæmi má skoða sjálfstæðisbaráttu kvenna. Víða í heiminum eru konur enn algerlega fjárhagslega háðar körlunum, feðrum, bræðrum og síðan eiginmönnum. Það er litið svo á að konur séu eins og börn - að þær nái aldrei þeim þroska að geta stýrt fjármálum sínum - auk þess er það áhrifamesta stjórntæki sem til er til að hafa yfirráð yfir fólki. Hér er þetta að mestu liðin tíð og konur afla og stjórna eigin fé.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt litið á sig sem sérstakann málsvara sjálfstæðis landsins. En nú hefur hann (allt að því einn og sjálfur) gert landið gjaldþrota. Ísland er ekki lengur fjárhagslega sjálfstætt ríki, það verður að jarða sjálfstæðan gjaldmiðil sinn fyrr eða síðar. Það verður að taka upp einhvern annan gjaldmiðil hvað sem tautar og raular. Það er auðvelt að sjá fyrir sér hversu skelfilegt það hefur verið fyrir forsætis - og fjármálaráðherra og stjórann í Seðlabankanum þegar skýrslan góða var birt þeim síðastliðið vor þess efnis að bankarnir væru að hrynja. Það má sjá að þeir, og ríkisstjórnin öll, brugðust við eins og fólk gerir þegar það stendur frammi fyrir skelfilegum hlutum. Það frýs og lamast og afneitunin hellist yfir. Síðan var vaðið í örvæntingafulla herferð út um heim til að redda sér.
Niðurstaðan er sem sagt sú að sá hópur íslendinga sem hafa mest hreykt sér af því að standa vörð um sjálftæði okkar hefur nú komið okkur í þá stöðu að vera búinn að eyðileggja fjárhagslegt sjálfstæði okkar. Sennilega verða íslensk stjórnvöld álitin vera eins og börn á alþjóðlega vísu um langa framtíð.
Þvílík örlög.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.