Nýjir tímar
20.3.2008 | 10:29
Það gerðist nokkuð óvænt í gær að ég er orðin eigandi að grænum páfagauk sem ég kalla Tuma þumal. Svona geta bestu áætlanir breyst án fyrirvara - reyndar var þetta búið að blunda í mér í nokkur ár en, hvenær er besti tíminn til að taka svona ákvarðanir? Alla vega er spenningur í fjölskyldunni og nú ætla þau að streyma hingað í dag til að heilsa upp á Tuma.
Ég hafði mestar áhyggjur af kettinum Flosa, hann var reyndar ástæða þess að ég var búin að fresta þessu - hvernig hann tæki því að fá fugl í húsið. Ég sá strax í búðinni að Tumi var rosalega kúl - hann skrækti ekki - flögraði ekki um - heldur reyndi strax að ná athygli minni með augnsambandi. Þegar heim kom var hann enga stund að ná jafnvægi eftir að ferðast um í litlum kassa - hann smakkaði matinn og tók við vínberi sem ég rétti honum. Flosi varð agndofa. Hann starði á fuglinn. Fljótlega fór hann að reka loppurnar inn um rimlana en Tumi lét sér ekki bregða. Hann bara reyndi að bíta í þessa loðnu loppu. Svo lagðist skottið óvart að rimlunum og Tumi beit í það - reyndar án þess að skaða köttinn. Hann sýnir enga hræðslu við köttinn. Nú ligg ég á netinu til að læra allt um Indian Ringneck páfagauka. Þeir eru greindir - ákveðnir og geta lært að tala. Það eru spennandi tímar framundan hér!
Athugasemdir
Þetta líkar mér! Dásamlega fallegur fugl. En hvernig á hann að lifa af sambýlið við Brjálaða Rauð? Einn möguleiki er að loka Rauð inni í búrinu þegar Tumi er úti.......
Guðrún
Álfhóll, 20.3.2008 kl. 13:06
Spurning hvor muni lifa af. Sá Rauði er soldið aumur - hann skilur ekki af hverju ég er að eyða athygli á þetta fiðurfé. Og sá Græni er svo keikur að ég held það sé bara tímaspursmál hvenær hann fer að mjálma á móti þeim Rauða. Nú þarf að fara að útvega þroskaleikföng fyrir þennan greinda fugl - einhverjar hugmyndir? Spyr Karenu - hún hefur reynslu.
Halldóra Halldórsdóttir, 20.3.2008 kl. 13:26
þú ert frábær Dóra, til hamingju með þann græna.
Hlakka til að sjá hann,
hvernig var það hver átti að vera með marshittinginn okkar gyðjanna?
hafðu það gott í fríinu með þínum litríku vinum
kv díana
dia (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 08:24
jú Dia mín - það er komið að mér. Þessi mánuður er einhvernveginn svo stuttur - ferðalög erlendis og Páskarnir koma inn í þetta, fyrir nú utan þessa óvæntu fjölgun í fjölskyldunni. En ég er með þetta allt í vinnslu og læt í mér heyra fljótlega. Njóttu vel Páskanna.
Halldóra Halldórsdóttir, 21.3.2008 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.