Við Tjörnina á föstudaginn langa
6.4.2007 | 16:24
Dásamlegur dagur við Tjörnina. Að fylgjast með fuglunum vera að hefja tilhugalífið og brosa að gæsasteggjunum sem taka afbrýðissemisköst þegar einhver annar steggur kemur of nálægt hans útvöldu. Þeir víla ekki fyrir sér að hóta fullorðnu fólki með hvæsi og tilburðum ef maður kemur of nálægt henni. Sterkar eðlishvatir.
Þegar ég kom að norðurbakkanum tók ég eftir tveimur ungum körlum (homo sapiens) sem sátu á bekk, þeir hlógu og tóku ljósmyndir. Þegar ég fór að gá hvað skemmti þeim svona mikið sá ég að undir öðrum bekk kúrði stokkönd og í kringum hana var stór hópur steggja, um það bil 12 sýndist mér. Þeir voru í biðröð að komast upp á öndina. Hún reyndi að komast undan þeim en það var útilokað, þeir eltu hana allir.
Mín viðbrögð voru að bjarga henni úr þessari hópnauðgun! Ég hefði átt að vita betur. Þótt mér tækist að hrekja steggina frá öndinni og hún komst út á Tjörnina aftur, þá var ljóst að þeir myndu drekkja henni þar og henni tókst að skreiðast upp á bakkann aftur og steggjaskarinn á eftir henni. Ég sá að mér væri ómögulegt að grípa inn í þessa atburðarás. En þegar ég kom að bekknum þar sem ungu karlarnir sátu og hlógu og tóku myndir af atburðinum staldraði ég við. "Þeir eru að drepa hana" sagði ég. "Hún vill þetta kannski bara" hló annar þeirra. "Sýnist þér það" spurði ég undrandi. "Hún er á flótta, haltrandi. Sýnist þér hún vera þáttakandi í þessu?".
Ég varð satt að segja hugsi eftir þetta. Já - ég tók þetta nærri mér. Mér sýndist þessi önd jafnvel ekki eiga eftir að lifa þetta af. Ég er ekki náttúrufræðingur og veit ekki hvort þessi hegðun er þekkt fyrirbæri. En hitt veit ég að menn eru ekki dýr. Dýrslegt eðli er dýrslegt eðli. Ekki mannlegt eðli. Og það sem truflaði mig voru viðbrögð þessara ungu karla - að finnast þetta fyndið og taka ljósmyndir í hláturskasti. Óneitanlega tengi ég þetta við umræðuna um klámið. Er sýn karla svona gjörólík sýn kvenna? Með öllum fyrirvörum á því að vera ekki að rugla saman viðbrögðum við dýralífi og mannlífi þá spyr ég mig, ef þessir ungu karlar yrðu vitni að hópnauðgun á konu myndu þeir taka myndir og segja "hún vill þetta kannski bara".
Satt að segja dró ský fyrir sólu á annars yndislegum degi.
Athugasemdir
óhugnarleg upplifun - og því miður eru pælingar þínar varðandi þessa ungu menn sennilega réttar miðað við lýsingu þínar á hátterni þeirra. Gott hjá þér að svara þeim.
kv. Dia
diana (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 08:43
Þú ert augljóslega ekki náttúrufræðingur. Þetta er þekkt fyrirbæri eins og það er þekkt að fjöldi kvenkynskóngulóa borðar maka sína eftir mökun. Þeir kannski vilja þetta bara. Það er auðvitað út í hött að ætla það að þessir ungu karlar bregðist eins við ef þeir yrðu vitni að þessu hjá mannfólkinu. Hvað veist þú nema þeir hafi verið að taka mynd af þessum athöfnum fyrir náttúrufræðiverkefni?
Ragnar (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.