Gamlar minningar

Þegar ég var krakki var ég stundum í geymslu á Ísafirði hjá móðurfjölskyldunni hluta úr sumrum. Þangað var flogið í Katalínu flugbát og lent á Pollinum. Man eftir lyktinni, af bensíni og leðursætum. Síðan var mannskapurinn ferjaður í smábátum í land. Það eru draumkenndar minningarnar frá þessum árum - 1952 til 62 sirka. Pollurinn var enn á sínum stað og ég man það greinilega að það var eins og að ganga á milli landshluta að ganga þessa fáu metra frá Pollinum, þar sem veðrið var alltaf gott og hlýtt - norður Sólgötuna að úthafinu - þar sem var alltaf kalt og hvasst. Í fjörunni við Pollinn tíndi ég uppí mig soðnar rækjur sem einhvernvegin sluppu úr rækjuvinnslunni - þar vann Anna Halldórs ömmusystir mín við að pilla rækjur. Frændfólk mitt átti verslanir og þjónustur í bænum. Ella Magg, alltaf svo fín, rak hárgreiðslustofuna. Jónas Magg var með búð, Sigrún Magg var söng og leikkona og að mig minnir var með hannyrðaverslun. Þau vissu ekkert hvað ætti að gera við litla frænku úr bænum - öll einhleyp og barnlaus - svo þau gáfu mér bara allt það sem mér þótti best að borða, sem var aðallega vínarbrauð úr bakaríinu. Ég hef aldrei fengið betri vínarbrauð.   

KattarBína bjó í kjallaranum á Grund - sama húsi og Anna og fjölskylda. Allir krakkar voru hræddir við KattarBínu. Hún talaði aldrei við okkur krakkana - kannski engan. En hún hændi að sér alla ketti í bænum, fleiri tugir hálfvilltra katta, og varðist af fullri hörku öllum tilraunum til að fækka þeim. Ég bar mikla og óttablandna virðingu fyrir henni og svona ætlaði ég að verða þegar ég yrði gömul. Í mínum huga var hún hetja - barðist gegn öllum sem ætluðu að hrófla við köttunum hennar. Það er ekkert pláss eftir fyrir KattarBínur í nútíma þéttbýli - en það blundar enn í mér löngunin til að enda ævina sem sérlunduð, þögul kerling sem hagar sér eftir eigin höfði og gefur skít í allt og alla. Og það verða ekki bara kettir í mínu húsi - allar dýrasortir verða velkomnar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband