Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Spilling hvað?

Nú er landinn skyndilega farinn að vita að hér hefur alltaf viðgengist að múta - það hét bara annað. Frændsemi - vinskapur - flokkshollusta.

Það er fínt að við erum að rakna við úr meðvitundarleysinu, hlægilegast er þó að við erum nýbúin að fá þann stimpil að vera minnst spillta þjóðfélagið. 


mbl.is Margir telja spillingu ríkja í þjóðfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljúft og sárt

Hugrenningatengsl; sá köttinn Flosa sofandi á rúminu þegar ég gekk framhjá (en hann sefur nú um 20 klst. á sólarhring enda á fjórtánda ári) - hvernig skyldi hann nú skilja við þetta líf - man þessi skipti sem ég hef þurft að láta svæfa ketti, hræðilega erfitt - rifjaðist upp líf Veru litlu.

Vera var smávaxin síamslæða sem ég fékk gefins hjá vinkonu fyrir rúmum 20 árum. Hún var óskaplega fallegt dýr en í hennar huga var enginn henni samboðinn. Hvorki menn né dýr. Kötturinn Tumi sem var til staðar á heimilinu var fyrir henni alla tíð. Hann, þessi öðlingur, lét alltaf í minni pokann fyrir hennar hátign. Vera varð síðan kynþroska eins og gengur, fór að breima og mér fannst upplagt að reyna að rækta síamsketti til að auka heimilistekjurnar. Komst í samband við mann sem átti Bismark, bráðmyndarlegt fress, helmingi stærri en prinsessan mín. Okkur samdi um að skipta með okkur kettlingunum. Bismark var síðan ekið heim til Veru og frá fyrstu stundu lagði hún þvílíkt hatur á fressið að hann var í bráðri lífshættu. Hún réðst að honum með kjafti og klóm organdi og hvæsandi - hann flúði í fangið á mér og neitaði alfarið að ég legði hann frá mér. Hann hékk um hálsinn á mér í þennan sólarhring sem tilraunin stóð eða þar til eigandinn sótti hann.

En Vera var enn að breima. Fyrir utan kjallaragluggann röðuðu sér upp öll óvönuðu fressin í Laugarneshverfinu. Vera spásseraði fram og aftur í gluggakistunni, mjálmandi, og kattaþvagan við útidyrnar gerði okkur erfitt að ganga um. Hún vildi ólm komast út en þar sem fressin voru þeir ótótlegustu kettir sem ég hef augum litið, þver-og langröndóttir - með rifin eyru, beyglaða rófu, eineygðir og með bardagasárin sýnileg - þá fannst mér þeir ekki samboðnir fínlegu læðunni með bláu augun sem át túlípana nágrannans ef hún komst í þá. En eitt skiptið tróð hún sér á milli fótanna á mér og komst út - beint í klærnar á stærsta og ógnvænlegasta fressinu. Það skipti engum togum - upp hófst ástarleikur þeirra þarna í kjallaratröppunum og hann stóð meira og minna látlaust í þrjá daga og barst um allan garðinn. Einn nágranni kom að orði við mig og sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins atgangi. Úr þessu ástarævintýri urðu síðan fimm kettlingar.

Þegar Vera var komin að því að gjóta kom ég henni fyrir í neðstu skúffu í fataskápnum. Gotið gekk vel - en að því loknu gekk hún í burtu, fór fram í stofu, þvoði sér hátt og lágt og sofnaði síðan á púðanum sínum. Leit ekki við kettlingunum. Mér leist ekki á blikuna, litlu krílin emjuðu öll í kór en hún leit ekki við þeim. Ég flutti hana inn til þeirra hvað eftir annað og reyndi að koma þeim á spena - sat síðan yfir litlu fjölskyldunni eins og ég gat. En þar sem ég þurfti að sinna vinnu minni varð ég að skilja þau eftir heima - þegar ég kom heim daginn eftir fann ég alla kettlingana í rúminu mínu. Skilaboðin voru skýr - ég skyldi sjá um þetta verk eins og önnur á heimilinu - prinsessan hafði aldrei ætlað sér að hafa neitt fyrir lífinu, bara njóta þess. Við héldum tveimur kettlingum eftir en förguðum þremur. Vera var aldrei hrifin af þessu - dæturnar voru fyrir henni alla tíð og tóku athygli sem henni var ætluð.

Dýralæknirinn, sem hafði sterkar skoðanir á því að alla ketti ætti að gelda til að koma í veg fyrir fjölgun á köttum í borginni, krafðist þess að ég væri viðstödd aflífun kettlinganna. Með því ætlaði hún að tryggja að ég mundi aldrei taka upp á þessu aftur. Sem hefur reyndar ekki gengið eftir. Nokkrum árum seinna kom í ljós að Vera var orðin blind. Það varð okkur ekki ljóst fyrr en við tókum eftir því að ef við færðum húsgögnin til þá gekk hún á þau - eða datt á milli stóla ef annar var færður til. Svo kom að því að hún hætti að nærast - dýralæknir fann svo æxli innvortis. Það varð að svæfa hana. Það var hræðilegt. Hún var svo hrædd - þótt að ég héldi á henni á meðan hún sofnaði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband