Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Varpar ljósi á hvatirnar

Þessi grein varpar ljósi á hvaða sterku hvatir liggja að baki þess að taka stórar áhættur í peningamálum. Þessi maður var handtekinn eftir að koma risa banka á kúpuna. Hann var þá búinn að nota bankann eins og spilavíti - með þegjandi samþykki bankans virðist vera.

M. Kerviel, 32, was quoted as saying that he had taken "orgasmic pleasure" in making "astronomic" bets on financial markets.

http://www.independent.co.uk/news/world/europe/jr244me-kerviel-secrets-of-the-rogue-trader-1513434.html 


Skyldi engan undra

Það skyldi enginn vera hissa á því að sitjandi forsætisráðherra trúi því staðfastlega að hann einn, með Sjálfstæðisflokkinn á bak við sig, geti bjargað málum. Sjálfsmynd flokksins byggist á því að vera sá sem stýrir Íslandi. Þá sjaldan að hann er ekki við landsstjórnina er það bara stuttur hvíldartími þar til hann tekur í stjórnartaumana aftur. Svona hefur þetta verið svo langt sem ég man og þessi mynd sem flokkurinn hefur af sér er staðföst og óhagganleg.

Þar fyrir utan er það óbærilegt fyrir sitjandi ráðherra að missa allt út úr höndunum og sitja eftir í sögubókunum sem sá sem var við völd  þegar stoðunum var kippt undan þjóðfélaginu. Og þurfa síðan að hrökklast frá völdum.  


Ginnungagap

Það kemur fram í dag þvílík gjá er á milli stjórnar og borgaranna. Í dag heyrðist mér forsætisráðherra vera að hóta okkur að ef við högum okkur ekki - og gefum þinginu ekki vinnufrið - þá verði hann að nota peningana sem við höfum fengið að láni til að borga fyrir skemmdirnar sem við völdum. Þarna talar hann við mótmælendur eins og óþekka krakka. Gerir hann sér enga grein fyrir því sem er að gerast?
Fréttir af misgjörðum, afglöpum, fjármálabraski og almennri vanhæfni er olía á eldinn. Stjórnin hagar sér eins og hópur álfa út úr hól - skilja ekkert hvernig stendur á þessu. Gjáin breikkar bara.

Örlög sjálfstæðismanna

Eftir að hlusta á gestina í Silfri Egils í dag rann upp fyrir mér hvað stjórnvöld eru búin að gera. Það má rökstyðja það að sjálfstæði einstaklings byggi á því að vera fjárhagslega sjálfstæður, ekki satt. Sem dæmi má skoða sjálfstæðisbaráttu kvenna. Víða í heiminum eru konur enn algerlega fjárhagslega háðar körlunum, feðrum, bræðrum og síðan eiginmönnum. Það er litið svo á að konur séu eins og börn - að þær nái aldrei þeim þroska að geta stýrt fjármálum sínum - auk þess er það áhrifamesta stjórntæki sem til er til að hafa yfirráð yfir fólki. Hér er þetta að mestu liðin tíð og konur afla og stjórna eigin fé.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt litið á sig sem sérstakann málsvara sjálfstæðis landsins. En nú hefur hann (allt að því einn og sjálfur) gert landið gjaldþrota. Ísland er ekki lengur fjárhagslega sjálfstætt ríki, það verður að jarða sjálfstæðan gjaldmiðil sinn fyrr eða síðar. Það verður að taka upp einhvern annan gjaldmiðil hvað sem tautar og raular. Það er auðvelt að sjá fyrir sér hversu skelfilegt það hefur verið fyrir forsætis - og fjármálaráðherra og stjórann í Seðlabankanum þegar skýrslan góða var birt þeim síðastliðið vor þess efnis að bankarnir væru að hrynja. Það má sjá að þeir, og ríkisstjórnin öll, brugðust við eins og fólk gerir þegar það stendur frammi fyrir skelfilegum hlutum. Það frýs og lamast og afneitunin hellist yfir. Síðan var vaðið í örvæntingafulla herferð út um heim til að redda sér.  

Niðurstaðan er sem sagt sú að sá hópur íslendinga sem hafa mest hreykt sér af því að standa vörð um sjálftæði okkar hefur nú komið okkur í þá stöðu að vera búinn að eyðileggja fjárhagslegt sjálfstæði okkar. Sennilega verða íslensk stjórnvöld álitin vera eins og börn á alþjóðlega vísu um langa framtíð.  

Þvílík örlög.  


Já - einmitt

Samkvæmt þessum úrdrætti er þetta ástand enn heimsmálunum að kenna. Hvað með allar þessar örvæntingafullu ferðir ráðamanna til útlanda til að reyna að telja erlendum aðilum trú um að bankarnir mundu hafa þetta af? Hvað með viðvaranirnar allar sem höfðu heyrst frá erlendu fagfólki árin á undan hruninu? Hvaða ríkiskerfi var það sem átti að grípa inní á réttum tíma, var það ekki ríkið sem Geir stýrði og stýrir enn?  Ekki má gleyma að Geir var líka fjármálaráðherra lengi og átti að þekkja málin út og inn.
mbl.is Geir: Árið verður mjög erfitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðtogar óskast...

Ég fór af fundi eftir fyrsta ræðumann - sem var góður. Gylfi Magnússon var með yfirvegaðann málflutning og minnti okkur á að heimurinn mun ekki farast en þetta verður skrambi erfitt ár. Sást ekki né heyrðist til Nýju raddarinnar - skilst að lögreglan hafi fjarlægt þau.

Var hins vegar stöðvuð af fréttamanni frá RÚV sem vildi heyra hvernig ástandið væri hjá mér - elskulegt af honum. Sagði eins og er að ég er í góðum málum - so far. Veit ekki fremur en aðrir landar mínir hvernig þetta endar allt saman. En ég lýsti eftir andlegum leiðtoga/um. Ég er upptekin af því að okkur vantar fólk til að þjappa okkur um - kannski er það of snemmt í ferlinu. Rifjast upp fyrir mér aðrar hamfarir - en þá af náttúrunnar völdum - snjóflóðin fyrir vestan. Mér fannst þáverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur, takast að leiða þjóðina í gegnum þá sorglegu tíma á viðeigandi hátt. En auðvitað er nú annað uppi - öskureið þjóð sem ráðamenn hafa svikið. Og ekki skánar það við að heyra frá Herði Torfasyni að landsfaðirinn - Geiri Haarde - er mest upptekinn af því að undirbúa landsfundinn því þar mun hann sennilega verða að berjast fyrir framtíð sinni í stjórnmálum. Og forsetinn reynir að kaupa sig inn undir hjá þjóðinni með því að lækka launin sín. Það er afleitt ef þjóðin verður eins og höfðulaus her - og stórhættulegt fyrir okkur öll.   


Skemmdarskrín, skemmdarskrín

Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer á Austurvelli í dag - Ástþór Magnússon ætlar að skemmileggja fjöldafundinn sem hefur fest sig í sessi undanfarnar vikur. Ástþór virðist bara þrífast þegar hann finnur leiðir til að fokka einhverju upp - hvort sem það er forsetaframboð eða friðsamlegir mótmælafundir. Hann er eins og krakkinn á róló sem vissi ekkert skemmtilegra heldur en að fylgjast með því þegar aðrir voru búnir að byggja sandkastala eða búa eitthvað til - þá kom hann stökkvandi og eyðilagði, hoppaði á sanskastalanum og sparkaði í allt. Þetta hét að vera skemmdarskrín - og heitir enn.

Andsk... óréttlátt

Hefur þetta virkilega ekki verið athugað fyrr - að lykilstarfsmenn fyrirtækja kunni skil á starfseminni sem þeir eiga að stýra! Hvar annarsstaðar í atvinnulífinu ætli það viðgangist. Og hvað með stjórnendur Seðlabankans og FME - hafa þeir tilskylda menntun og þekkingu á að reka Seðlabanka og hafa eftirlit. Það kemur sífellt betur í ljós að þetta þjóðfélag hefur verið rekið áfram af "þetta reddast" viðhorfinu. Mér kemur í hug hversu ákveðinn heilbrigðisráðherra var í því að fá EKKI einhvern sérfræðing til að stýra sjúkrasjóðnum sem átti að stofna - nei nei nei - heldur einhvern leiðitamann félaga sinn skilst mér. Það var kominn tími til að þetta samfélag hryndi innan frá - það er bara svo andsk... óréttlátt fyrir hinn allmenna borgara.
mbl.is Lykilstjórnendur Glitnis í hæfnispróf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitað að andlegum leiðtogum

Þess er sárlega saknað að við eigum ekki raunverulega leiðtoga á svona tímum. Heimurinn getur varla beðið eftir því að Barak Obama taki við í Bandaríkjunum - ekki síst vegna þess að í ræðum hans heyrist í  raunverulegum andlegum leiðtoga. Þá á ég ekki við trúarbragðaleiðtoga - heldur manns sem getur borið með sér sýn á því hvert mannkynið getur stefnt. Það er og hefur verið mikil fátækt hér á landi - framtíðarsýnin hefur verið sú að við verðum efnislega ríkari en andlega fátækari. Ég er löngu orðin þreytt á því að dregið sé fram forn frægð íslendinga - eigum við enga nýja sýn?

Forseti og forsætisráðherra eru mengaðir af núverandi áföllum og verða aldrei trúverðugir aftur.

Ég er að fylgjast með röddum sem geta veitt mér trú á framtíðina og Páll Skúlason heimspekingur er efst í huga eins og er.      


Guðjón nýji góður

Viðurkenni hér með að mér fannst Skaupið ekkert sérstakt í ár - varla stökk bros. Það var vandað og vel gert. Ég hlæ hins vegar að Spaugstofunni þessar vikurnar - þeir eru mun beittari. Húmor er háþróðasta varnarkerfið sem við eigum- og það veitir einhverja fróun að hlægja dátt að beittri ádeilu sem ég fann ekkert sérstaklega fyrir í Skaupinu. Nýji Guðjón kom með ágætis lausn - getur íslenska þjóðin ekki bara byrjað upp á nýtt með nýja kennitölu. Það hafa löngum verið skilaboðin frá þeim sem leiða þjóðina - man að Halldór Ásgrímsson sagði þegar hann var inntur eftir því hvort þátttaka okkar í stríðinu í írak hafi ekki verið mistök að það hefði ekkert uppá sig að vera að líta til baka - heldur líta fram á veginn. Nú getur þjóðin sennilega gert það í þessu allsherjargjaldþroti - hætt að líta til baka og finna sökudólga - en búa til nýja kennitölu á þjóðina og mæta til leiks á ný með hreint borð.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband