Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Alveg skaðlausir íslendingar

Ég var að tala við vinkonu mína í dag um gang mála í kreppunni. Mér datt í hug þessi viðteknu sannindi sem íslendingar hafa stært sig af - við erum herlaus og friðsöm smáþjóð sem byggir harðbýlt land og erum aðallega í því að vera skemmtilega skrítin. Rosalega artý og uppátækjasöm en alveg laus við að ógna einum eða neinum.  Jæja - þá er sú mýta dauð. Við erum svakalegir skaðvaldar, okkur sjálfum og öðrum sem ákváðu að treysta þessari skringilegu íslendingum fyrir aleigu sinni.

Það verður öðruvísi mynd og sjálfsmynd sem verður til upp úr þessu hruni - og það er óskaplega mikilvægt að vanda þá uppbyggingu.  


Eru þeir ósakhæfir?

Í öllu þessu fári sem við erum nú að fara í gegnum - leitin að sökudólgum þar á meðal - er málið kannski of einfalt og of hallærislegt. Reynslu- og kunnáttuleysi, barnaskapur. Bankarnir seldir án kunnáttu. Útrásin svokallaða farin af reynslulausum mönnum. Almenningur steypti sér í skuldir í þeirri óraunhæfu von að allt mundi bara verða að gulli - hókus pókus eins og í ævintýrunum, það ævintýri hófst með DeCode. Síðan var ekki tekið mark á aðsteðjandi vanda í fjármálaheiminum vegna kunnáttuleysis og þar fram eftir götunum. Og nú er sama fólkið að reyna að bjarga því sem bjarga verður. Kannski verður til þekking og kunnátta úr þessu öllu saman. En á meðan virðist íslenska þjóðin vera að vakna upp og uppgötva krafta sína. Það verður kannski ávinningurinn til lengri tíma litið. Við erum þá á leið að verða fullorðin. En ef þetta eru afglöp barnaskapar þá vaknar spurningin; eru gerendurnir í þessum málum þá ósakhæfir? Ég er sannfærð um að þeir steyptu þjóð sinni ekki í þetta tjón af ásetningi.     

Örlæti lífsins

Þvílíkt örlæti! Get ekki stillt mig um að deila þessari fegurð - sem er mér gefin frítt. Og svo standa gömlu hjónin hjá - mér þykir vænt um þau líka, ólst upp með þeim á æskuheimilinu. 

DSCF0158

 


Sjálfstæðismannatónninn

Fylgdist með þessum gríðarlega fundi í Háskólabíó sem var að ljúka. Síðan var smáviðtal við forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Það er ákveðinn sjálfstæðismannatónn sem ég hef oft tekið eftir - hjá sjálfstæðismönnum auðvitað. Sérstakur hroka- og fyrirlitningartónn sem þessi hópur hefur tileinkað sér og sem skilur eftir vont bragð - ég tek eftir að ég gretti mig alltaf þegar ég verð fyrir honum. Nú veit ég ekki hvort þessu fólki finnast viðmælendur almennt svona fyrirlitlegir eða hvort þetta er bara kækur sem þeir smita hver annan af. Alla vega virkar þetta sérlega fælandi á mig - svona ef einhver sjálfstæðismaður hefur áhuga á að vita það. 

Hagaðu þér eins og runni!

"ýour are a Bush - so act like one" segir í nýrri kvikmynd um George W. Bush forseta.
"Þú ert runni - hagaðu þér þá eins og runni" - svona hljómar þetta á íslensku, alveg bráðskemtilegu tungumáli. Nú kemur Spaugstofan!

SKOL!

Í gær heyrði ég í fyrsta sinn hvað orðið SKOL! er stytting á. Karen, danskur læknir frá European Women´s Lobby sem er í heimsókn hjá okkur, sagði að S stæði fyrir sundhed - K fyrir kærighed - O fyrir onde og L fyrir langt liv.

Hvernig væri þetta á íslensku?  S - (hvað er gott orði um heilbrigði sem byrjar á s) K - kærleikur, A - andi og L - langlífi.   


Lífið er gott

 

DSCF0150

Er lífið ekki skemmtilegt! Þennan nóvember - eða desember kaktus hef ég átt í mörg ár. Hann hefur aldrei blómstrað áður. Hann hefur aldrei gert neitt áður - bara hangið á horriminni. Í fyrra plantaði  ég honum niður með tveimur Aloe Vera græðlingum sem ég tók traustataki í blómagarði á Barbados og smyglaði inn í landið. Fyrir tilviljun fór síðan blómakerið út í glugga í haust vegna plássleysis og í gær blasti svo við mér þessi fagra sjón. 

 

 

 

Svo er það hann Tumi. Ég hef hlíft honum við myndatökum all lengi því að honum er uppsigað við flassið. Nú vildi ég mynda hann við leikgrindina sem honum tekst að útbía á tveimur tímum - þegar ég beindi myndavélinni að honum flaug hann á mig og beit í fingurinn. Skilaboðin voru skýr. Hann bítur annars aldrei. Þarna er hann að fara að taka flugið...

DSCF0153

 


Með brauki og bramli

Þar sem ég sat og beið á dýralæknastofunni blasti þetta við mér:

Age is mind over matter. If you don´t mind - it doesn´t matter.  Mark Twain. 

En það verður að segjast að það verður erfiðara með degi hverjum að fylgjast með umræðunni í landinu. Sennilega er ég haldin "attention span deficiency syndrome" - er sem sagt alveg að missa úthaldið. Ástandið er vont og það mun versna, það er að verða klárt. Leitin að sökudólgum eflist - og mun ekki linna á næstunni. Leitin að týndu fjármunum útrásarinnar heldur áfram. Glittir í skuggalega rússneska vini að baki gulldrengjunum. Leitin að nýjum vinum í veröldinni er að hefjast. Nú er að verða til nýjir óvinir - inni í bönkunum standa lífverðir sem vernda bankastarfsmenn fyrir sauðsvörtum almúganum sem heimtar upplýsingar um peningana sína.

Upp úr þessari kaos mun rísa nútímalegt Ísland þar sem heilindi, jafnrétti og gagnsæi í samskiptum mun ríkja. Þar sem faglega er unnið í mikilvægum stofnunum. Gamla Ísland, með ættar, vinar og flokkstengsl í for- og bakgrunni er að liðast í sundur með brauki og bramli - lofum því að deyja drottni sínum.    


Skil ekki eftirsjána

Skil ekki þessa eftirsjá eftir formanni Framsóknarflokksins. Vona að hann sé fyrstur af mörgum sem taka pokann sinn. Les á bloggum hér að hann hafi verið svo skemmtilegur - en ég er ekki að greiða laun hans sem skemmtikrafts. Að það sé sjónarsviptir af honum - ég er ekki að greiða laun hans vegna útlitsins. 

Það eru að renna upp nýjir tímar í þjóðlífinu - óhjákvæmilega. Og gamla flokkagengið verður að þekkja sinn vitjunartíma. Miklu frekar að kveðja með fullri reisn heldur en að flæmast á brott á hröðum flótta. 


Dýralíf í miðbænum

Í síðustu viku kom í ljós að Flosi minn, hinn rauði, er með ónýt nýru. Hann hefur smám saman verið að missa matarlystina og lífsgleðina og húkir helst og mókir. Eftir heimsókn til dýralæknis, lyfjagjöf og vökvun og nýtt, saltlaust,

DSCF0032

 rándýrt fæði, er hann heldur hressari - en hann á ekki langt eftir segir læknirinn. Flosi er á fimmtánda ári og það telst góður aldur fyrir miðbæjarkött. 

Í dag er hann skárri en oft áður og sýnir það með því að hafa aðeins meiri áhuga á Tuma en venjulega. Tumi spígsporar á stofuborðinu og tekur lítil dansspor í kringum spegilinn sem stendur þar. Spegillinn er með tvær hliðar - önnur er stækkunarspegill. Tumi dansar frá einni hlið til annarar og þreytist seint á að dáðst að fuglinum fagra sem hann sér þar - ýmist litlum eða risastórum. Svo kyssir hann spegilmyndina af og til og gefur frá sér lítil hljóð. Hann er ofsalega hrifinn af fallegum eyrnalokkum - hann stal einum áðan og flaug með hann af stað - ég á eftir - hann sleppti honum á fluginu og lokkurinn hvarf niður stigann.   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband