Þegar Óttinn tók völdin í landi sterkustu karla og fegurstu kvenna

Að fylgjast með skrifum og skrafi þjóðarinnar um Icesave málið er að hlusta á óttann og örvæntinguna sem undir liggur hjá flestum. Skiljanlega. Undir reiðinni er ótti, undir fúkyrðunum er ótti, undir spádómum um veðsetningu næstu 7 ættliða er ótti. Undir þeim skoðunum að best sé að borga ekki, loka landinu og éta það sem landið getur gefið af sér, er líka ótti.

En Óttinn er versti stjórnandi sem hugsast getur.  Hann lokar öllu, kæfir allt og afneitunin legst yfir eins og mara. Engar lausnir verða til í faðmi Óttans. Engin sköpun getur átt sér stað þegar Óttinn er við völd. Það má færa rök fyrir því að þegar íslensku athafnarmennirnir í stóru fyrirtækjunum og bönkunum ásamt embættismönnum og stjórnmálamönnum, sáu í hvað stefndi, svokallað credit crunch sem breiddist um heimsbyggðina eins og sinueldur - löngu áður en við almúginn höfðum hugmynd um það - þá fór Óttinn að stýra gjörðum þeirra. Við vitum hvernig það fór. Ef þau hefðu getað haldið Óttanum í skefjum og tekið skynsamlegar ákvarðanir værum við sennilega betur stödd. 

Látum ekki Óttann halda völdum sínum - tökumst á við þessi mál í samvinnu við nágranna okkar, semjum og stöndum við okkar skuldir. Þegar upp verður staðið og veröldin farin að róast þá munum við standa teinrétt við hlið annarra þjóða vitandi það að við getum borið höfuðið hátt. Bráðlega verðum við þjóð meðal þjóða og þá verður krútt - tímabili íslendinga lokið. Fram til þessa höfum við viljað vera spes - sterkustu karlarnir og fegurstu konurnar - álfar og tröll - herlaus þjóð - alltaf á sér-samningum því að við eru svo spes. Það eru aðeins örfá ár síðan við fórum að standa á eigin fótum - það var ekki fyrr en Bandaríkin sneru snarlega baki við okkur að við fundum að við vorum ekki undir neinum verndarvæng lengur. Fram til þess tíma gátum við verið unglingar meðal þjóða - nú erum við orðin fullorðin. Högum okkur samkvæmt því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Heyr heyr.  Mikið var þetta falleg færsla.  Við erum orðin stór!  Við verðum að haga okkur eftir því!

Garún, 28.6.2009 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband